12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir hvatningu hv. 4. þm. Norðurl. v. um að Íslendingar tryggi sér rétt sinn til veiða á Reykjaneshrygg og Rockall-svæði og þá ekki síst hvatningu hans um að við nýtum okkur þessi mið.

Ég er flutningsaðili að brtt. við frv. til l. um stjórnun fiskveiða. Ég vil ítreka það að þetta er brtt. við þetta frv. Ég lít ekki svo á að þetta sé brtt. við fiskveiðistefnu vegna þess að ég álít, eins og fram kemur í nál., að þetta frv. fullnægi ekki þeirri nauðsyn eða þeim kröfum. Brtt. lúta einkum og sér í lagi að þeirri staðreynd að enn sem áður vantar raunverulega að vilji Alþingis komi fram í þessu máli þar sem Alþingi afsalar sér völdunum fullkomlega til ráðh. Brtt. eru settar fram til þess að mótmæla því.

Eins og ég sagði áðan tel ég þetta frv. ekki vera frv. um stjórnun fiskveiða heldur miklu frekar um skömmtun afkomu og þar af leiðandi rökrétt framhald af sífellt auknum afskiptum ríkisins af rekstri sjávarútvegsins. Ríkið ákveður verðið á fiskinum upp úr sjó og bindur þar með í raun laun sjómanna og landmanna, bindur í raun og veru hlut annars kostnaðar og stofnar þannig til sjóðarugls í gegnum Aflatryggingasjóð og Byggðasjóð og fleiri sjóði. Ástandið er í raun og veru þannig orðið að menn gera ekki lengur út á mið og markað, heldur út á löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið.

Ríkisstjórnin stjórnar lánasjóðunum og bönkunum og stjórnar þar af leiðandi því hverjir mega fjárfesta og hvernig og hverjir fá rekstrarlán og hverjir ekki. Ríkið verndar hagsmuni útflutningsaðilanna og flækist þannig fyrir í markaðsmálum og þegar allt er komið í ógöngur eins og nú er þetta frv., eins og áður segir, rökrétt afleiðing. Þannig er skömmtunarvaldið loksins fullkomnað. Það vantar mjög lítið á að sjávarútvegur hér á Íslandi verði ríkisrekinn. Það vantar mjög lítið á það t.d. að kvótinn miðist ekki við aflann sem aflað var, heldur við afkomuna, því að hér er verið að horfa til afkomu, að því mér er sagt, og að viðmiðunin verði þá ekki aflamark, heldur afkomumark. Framsöl hafa átt sér stað, þ.e. millifærslur á verðmætum. Það næsta er að ríkið uppgötvi að þarna séu á ferðinni verðmæti sem þarf að skattleggja og þá vantar orðið mjög lítið í að kvótinn, afkomuskömmtunin, verði einfaldlega að skattstofni og geri framtal þessara fyrirtækja nánast ónauðsynlegt. Ríkið metur fiskinn upp úr sjó, eins og ég sagði áðan, og afurðirnar í landi svo að ekki verði hnökrar á þessari samfelldu runu afskipta frá því að fiskurinn kemur upp úr sjónum og þar til hann flyst úr landi.

Þetta frv. er alls ekki nein úrræði, heldur er þetta einfaldlega sögulega rökrétt afleiðing af sívaxandi ríkisafskiptum. Og ríkisafskipti leiða til æ meiri ríkisafskipta vegna þess að ábyrgðin af afkomunni flyst af herðum þeirra sem atvinnuveginn stunda til ríkisins.

Menn bera þá leyndu von í brjósti að einhvern tíma verði hægt að aflétta þessum lögum. Ég spái því að því verði aldrei hægt. Þessi aðferð verður aldrei afnumin fyrr en öðrum afskiptum ríkisvalds á rekstri sjávarútvegs verður aflétt. Að mínu mati, ef hægt er að taka það að einhverju leyti saman í stutt mál, á stjórnun fiskveiða að takmarkast við að vernda fiskistofna og að leifa nýrra tegunda og stofna.