12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal vera stuttorð, enda liðið á kvöld.

Í 1. umr. um þetta frv. hér í hv. Ed. gerði þm. Kvennalistans Kristín Ástgeirsdóttir grein fyrir afstöðu Kvennalistans til þessa máls. Eins og fram kom í máli hennar er það álit okkar kvennalistakvenna að nauðsynlegt sé að gæta þess að ekki sé gengið of nærri þeim auðlindum sjávarins sem við Íslendingar öðru fremur byggjum afkomu okkar á. Því erum við ekki mótfallnar stjórnun fiskveiða að því er tekur til verndunar og þar með mögulegrar hámarksnýtingar fiskistofnanna. Við teljum stjórnun fiskveiða með það sjónarmið til grundvallar nauðsynlega.

En við teljum hins vegar fullkomlega óeðlilegt að sjútvrh. fari að meira eða minna leyti einn með slíka stjórnun veiða. Hér er um of víðtækt stjórnunarmál að ræða og of miklir hagsmunir í veði til þess að verjandi sé að hafa slíkt fyrirkomulag hér á frekar en á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Því teljum við eðlilegt að Alþingi sé aðili að mótun fiskveiðistefnunnar og styðjum brtt. minni hl. n. þar um, vorum enda meðflm. að sams konar till. á síðasta þingi. Ef sú brtt. nær fram að ganga mun ég ekki greiða atkv. gegn þessu frv., en ef hún er felld mun ég greiða atkv. gegn því.