12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

179. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þó að skammt sé liðið síðan hæstv. samgrh. talaði fyrir þessu máli hér og rakti það mjög náið sé ég samt sem áður ástæðu til að rifja það upp að á síðasta þingi urðu nokkuð mikil átök um þetta mál. Lög um sama efni voru samþykkt s.l. vor. Þá gaf hæstv. samgrh. yfirlýsingu um að hann mundi skipa nefnd til að endurskoða þessi lög, sem hann gerði. Þetta er sem sagt verk þessarar nefndar, en það voru hagsmunaaðilarnir sem fyrst og fremst voru í þessari nefnd. Hæstv. ráðh. taldi alla þá aðila upp hér fyrir nokkrum dögum þannig að ég sé ekki beint ástæðu til að ég geri það hér. Nefndin fjallaði um þetta mál og kallaði tvo menn úr nefndinni, þá Magnús Jóhannsson og Helga Laxdal, til viðtals til að fá svör við ýmsum spurningum sem komu fram við lestur þessa frv.

Niðurstaðan varð sú að nefndin varð sammála um að leggja til að frv. yrði samþykkt með nokkrum breytingum, en sumar af þessum breytingum eru í sjálfu sér aðeins leiðréttingar vegna þess að í ljós kom að um prentvillur var að ræða. Fyrsta brtt. er nú komin fram að ósk formanns öryggisnefndar sjóslysa og í samráði við hann og nefndarmenn. Hljóðar hún þannig:

Á eftir orðunum siglingartími fiskiskipa í 4. má1sl. 4. málsgr. komi ný málsgr. er orðist svo: „Nám í verklegri sjómennsku og notkun öryggis- og björgunarbúnaðar á námskeiðum og í farskóla, sem Slysavarnafélag Íslands eða samtök sjómanna og útgerðarmanna beita sér fyrir, má meta sem þrefaldan siglingartíma.“

Með þessu væntir nefndin þess og þeir sem standa að þessu að þetta verði til að ýta undir það að menn sæki þessi námskeið. Allir viðkomandi aðilar eru sammála þessu.

Við 6. gr. Upphaf II. b-liðar orðist svo: „Ótakmörkuð réttindi — 36 mánuðir o.s.frv.

3. brtt. er raunar leiðrétting, þ.e. að tölustafurinn „1“ falli niður.

Við 8. gr. Aftan við III. c-lið komi: þar af minnst 12 mán. skipstjóri eða 1. stýrimaður.

5. brtt. er við 15. gr. Orðin „eða kunnáttuleysi“ í 2. málsl. falli niður.

6. brtt. er við 18. gr. Aftan við fyrri málsgr. bætist: nema við eigi samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað, sbr. auglýsingu nr. 6/1982. Þetta er raunar um það að erlendir menn geti fengið réttindi, en þó ekki skipstjóraréttindi. Ef þeir eru með tilskilinn siglingartíma og lærdóm geti þeir fengið t.d. stýrimannsréttindi en ekki skipstjóraréttindi nema að það sé í sambandi við þennan samning.

7. brtt. við ákvæði til bráðabirgða A er í sjálfu sér bara leiðrétting: Í stað „6. og 9. gr. laganna um siglingartíma“ í 3. málsgr. komi: 6. og 10. gr. laganna. En það er bara fyrir það að það er vitnað þarna í ranga grein.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta fleira. Ég fagna því að eftir alla þá umfjöllun sem var í fyrravetur og raunar óánægju sem var þá um þetta mál skuli nú vera komin algjör samstaða um þetta mál eftir margra ára umfjöllun í nefndum og hér á hæstv. þingi.