12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér líkaði dálítið illa að heyra tóninn í hv. 10. landsk. þm. Guðrúnu Helgadóttur þegar hún með miklum þjósti stóð hér í ræðustól og sagði að sveitarstjórnarmenn yrðu að fara að lögum, þeir ættu aldeilis að hlýða þeim háu herrum sem sætu á Alþingi og hefðu samþykkt lög. Ástæðan fyrir því að þetta mál er hér komið upp er að sveitarstjórnarmenn hér á þessu svæði eru greinilega í vaxandi vafa um að það kerfi, sem sett hefur verið á skv. lögum, sé það besta sem völ sé á hér í Reykjavík og hér á höfuðborgarsvæðinu. Og af því að hér er um að ræða veruleg útgjöld, sem verið er að leggja á sveitarstjórnir á þessu svæði, vilja sveitarstjórnarmennirnir eitthvað hafa um það að segja. Þeir vilja geta látið sínar skoðanir í ljós um að þetta kerfi sé e.t.v. ekki það heppilegasta. Þess vegna hafa þeir leyft sér allra náðarsamlegast að fara þess á leit við hæstv. heilbrmrh. og heilbrmrn. að framkvæmd þessa fyrirkomulags verði frestað. Þeir hafa leyft sér að hafa skoðun á því. Þeir eru greinilega ekki þeirrar skoðunar að þeir eigi að lúta orðalaust því valdi sem er saman komið innan þessara veggja.

Ég minnist þess að þegar ég var í borgarstjórn Reykjavíkur var það nokkuð almenn skoðun í borgarstjórn og ég hygg hér á þessu svæði að eðlilegast væri að byggja heilsugæslustöðvar í hinum einstöku hverfum borgarinnar og flytja alla læknisþjónustu, sem áður var utan sjúkrahúsa, inn í slíkar heilsugæslustöðvar. Ástæðan fyrir þessu var m.a. sú, að þá var mikill læknaskortur hér í Reykjavík. Það var erfitt fyrir fólk að fá sjúkrasamlagslækna, bæði vegna þess að læknar vildu heldur fara í önnur störf og greinilegt var að það vantaði almennt lækna hér á landi. Menn vildu bæta úr þessu og því var samþykkt að fara þá leið, sem vitað var að farin hefði verið í Svíþjóð, sem var mikið fordæmi í þessu efni, að koma upp almennum heilsugæslustöðvum þar sem öll læknaþjónusta utan sjúkrahúsa yrði færð inn. Það var hins vegar vitað að Danir t.d. höfðu farið nokkuð aðra leið. Þeir höfðu haldið sér við það kerfi sem þeir hafa haft um árabil, svokallað heimilislæknakerfi, þ.e. menn gátu valið sér heimilislækni sem síðan sinnti viðkomandi fjölskyldu á svipaðan hátt og hér var áður í gegnum sjúkrasamlagið.

Hins vegar hafa menn komist í meiri vafa um þessa framkvæmd. Ég upplifði það sjálfur í borgarstjórn Reykjavíkur, bæði í meiri hl. og minni hl. Það er rétt, sem hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði, að hvorki vinstri meiri hl. í borgarstjórn né hægri meiri hl. í borgarstjórn hefur tekist að koma þessu skipulagi í framkvæmd. Ástæðan er mjög einföld. Þetta er gríðarlega kostnaðarsamt kerfi. Þetta kostar miklar stofnanir. Bæði kostar mikið að stofnsetja þær og að reka þær. Ég held að reynslan sé sú að þetta er miklu kostnaðarsamara kerfi en það kerfi, sem við áður bjuggum við og t.d. Danir hafa enn haldið í, að reka heilsugæslu utan sjúkrahúsa í gegnum heimilislæknakerfið. Þess vegna vilja sveitarstjórnarmenn á þessu svæði fara sér hægt og vilja kanna það ítarlega, áður en þetta kerfi kemst endanlega í framkvæmd, hvort ekki sé möguleiki á því að finna kerfi sem er ódýrara en jafnskilvirkt. Valið stendur ekki á milli þess, sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði, að fólk kaupi heilsugæsluþjónustuna og borgi hana úr eigin vasa um leið og hún er framkvæmd eða hún sé rekin í heilsugæslustöðvum, þ.e. ríkisreknum eða sveitarfélagareknum stöðvum. Það eru nefnilega til fleiri leiðir í þessu efni sem nauðsynlegt er að kanna til hlítar hvort ekki er rétt að fara, leiðir sem gætu komið sér jafnvel fyrir sjúklinga, skilað þeim jafngóðri þjónustu, en verið mun ódýrari bæði fyrir samfélagið í heild og sjúklingana. Það er mergur þessa máls og þess vegna er lagt til að framkvæmd þessa fyrirkomulags verði frestað á þessu svæði. Það styð ég og ég vænti þess að hæstv. heilbrmrh. beiti sér fyrir því að því athugunar- og endurskoðunarstarfi, sem nú er hafið, verði hraðað og reynt verði að ná sem mestri samstöðu á þessu svæði um hvaða fyrirkomulag er heppilegast í þessum efnum.