12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að blanda mér í þessa umr., sem er þegar orðin nokkuð ítarleg, því að ég held að fróðlegt sé að rifja upp nokkra þætti í þessu máli, m.a. kostnaðarþáttinn. En áður en ég geri það ætla ég aðeins að víkja að málefnum Akureyrar, en skv. lögunum er gert ráð fyrir því að Akureyri flytjist yfir á heilsugæslukerfið núna um áramótin. Í frv. er Akureyri ekki undanþegin heilbrigðisþjónustulögunum eins og Reykjavík og þéttbýlissvæðið, heldur er gert ráð fyrir því að heilsugæsluumdæmi Akureyrar verði til frá og með næstu áramótum og þar með fari Akureyri út úr gamla heilsuverndarkerfinu sem þar hefur þrifist á undanförnum árum. Mér þætti vænt um ef hæstv. heilbrmrh. væri ekki langt undan vegna þess að ég vildi leggja fyrir hann nokkrar spurningar í sambandi við Akureyri og þá kerfisbreytingu sem stendur fyrir dyrum þar núna um áramót.

Mér hefur borist greinargerð í sambandi við þessi mál á Akureyri sérstaklega þar sem kemur í ljós að nauðsynlegt er, ef þessi kerfisbreyting á að ganga yfir, að heimila nokkrar nýjar stöður heilsugæslulækna á Akureyri frá og með áramótum. Það dugir ekki í þessu efni að nota þá aðferð, sem var viðhöfð í Kópavogi fyrir nokkrum árum, að flytja þennan kostnað einfaldlega af sjúkratryggingunum yfir á beinar greiðslur ríkissjóðs vegna þess að á Akureyri hafa verið starfandi spítalalæknar sem hafa haft talsvert af númerum í bænum og það þarf að gera ráðstafanir til þess að þeir sem hafa verið á þeirri númeraþjónustu fái læknisþjónustu eftir heilsugæslulögunum. Til þess að svo geti orðið verður að hafa þar aðeins fleiri stöður en nemur þeim fjölda heimilislækna sem hefur verið starfandi á Akureyri. Ég vildi sem sagt leyfa mér í fyrsta lagi að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.: Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera til að tryggja að kerfisbreytingin yfir í heilsugæslu á Akureyri eigi sér stað núna um áramótin?

Í sambandi við það sem snýr að Reykjavík hefur hv. 10. landsk. þm. rifjað rækilega upp hvernig að þessum málum hefur verið unnið á undanförnum árum. Hún rifjaði upp skipun nefndar sem var mynduð 10. júní 1981 og skilaði áliti til heilbrmrn. á árinu 1982. Það varð samkomulag á milli borgarinnar, sjúkrasamlagsins, ríkisins, heilbrmrn. og fjmrn., og það var gert samkomulag líka við heimilislæknafélag Reykjavíkur. Hérna er um að ræða mjög flókið mál, mjög flókið samningaverk, eins og hæstv. heilbr.- og trmrh. benti reyndar á áðan, og mér svíður það nokkuð í augum, ég verð að segja það, að mér finnst eins og þessari vinnu hafi kannske ekki verið haldið áfram sem skyldi af hverju sem það nú er. Ég dreg mjög í efa að hægt sé að draga heilbrmrn. til ábyrgðar eingöngu í þeim efnum því að ég held að þarna eigi meiri hl. í borgarstjórn Reykjavíkur stóran hlut að máli. Það er alveg ljóst að heilbrmrn. getur ekki knúið fram svona kerfisbreytingu öðruvísi en borgarstjórn Reykjavíkur sé hlynnt henni og ég hef grun um að heilbrmrn. hafi þarna átt í erfiðleikum og ekki komist áfram með málið vegna áhugaleysis hjá borgarstjórn Reykjavíkur og einnig bæjarstjórninni í Hafnarfirði og í Garðabæ. Þess vegna er ekki að undra að málið skuli standa eins og það stendur. Auðvitað getur heilbrmrn. ekki knúið menn til að gera þessa kerfisbreytingu öðruvísi en að þeir vilji það sjálfir. Þess vegna verður að ná þarna samkomulagi og þess vegna var unnið að málinu eins og ég gerði grein fyrir áðan, að það náðist samkomulag milli Reykjavíkurborgar, ríkisins og heimilislæknafélags Reykjavíkur um þessa kerfisbreytingu.

Það var nokkuð rætt um það áðan að þetta væri dýrt, þetta væri kostnaðarsamt fyrir ríkið og fyrir alla aðila. Í þeirri skýrslu sem nefndin vann á árunum 1981 og 1982 kemur fram hver kostnaðarbreytingin er. Þar kemur í ljós að á verðlagi ársins 1981 hefði sparast fyrir ríkið við kerfisbreytinguna í Reykjavík nokkuð á annan milljarð. Aftur á móti hefði kostnaðurinn orðið meiri fyrir Reykjavíkurborg, það var viðurkennt. Til að mæta kostnaðarauka Reykjavíkurborgar var samþykkt af ríkisstj. að ríkið tæki þátt í kostnaði við heimilisþjónustu aldraðra samkv. lögunum um málefni aldraðra. Það voru að mig minnir 35% af kostnaðinum við heimilisþjónustu aldraðra sem ríkið átti þarna að greiða. Var talið að Reykjavíkurborg færi slétt út úr þessu. Þrátt fyrir þessa hækkun á kostnaði við heilsugæsluna yrði ekki um að ræða nettóútgjaldaauka fyrir Reykjavíkurborg vegna þess að ríkið tæki þátt í heimilisþjónustu við aldraða. Þetta atriði í samningagerðinni réði úrslitum að mínu mati. Þegar ríkið kom þarna á móti var það ekki eingöngu að velta af sér kostnaði, heldur líka að koma til móts við sjónarmið Reykjavíkurborgar, þar sem heimilisþjónusta við aldraða er sennilega meiri eða dýrari en í flestum öðrum sveitarfélögum af margvíslegum ástæðum sem við þekkjum. Núna er staðan hins vegar þannig að ríkið er þegar í eitt ár eða tvö búið að greiða kostnað við heimilisþjónustu við aldraða, en situr áfram uppi með dýrara heilsuverndarkerfi. Heimilislæknakerfið er dýrara fyrir ríkið en heilsugæslukerfið. Þess vegna finnst mér að við þurfum að átta okkur á því að við erum ekki að tala hér um að auka kostnað ríkisins. Við erum að tala um að spara hjá ríkinu, auka nokkuð kostnað við heilbrigðisþjónustu í Reykjavík, en á móti fengi ríkið stuðning við mikilvæga félagslega þjónustu við gamalt fólk í borginni. Ég held að alveg óhjákvæmilegt sé að þetta atriði komi fram í umr. til glöggvunar.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. leggur hér fram frv. um að fresta þessari breytingu um eitt ár, þ.e. að hún taki gildi í lok ársins 1985, en hann boðar að hann muni jafnvel á komandi þingi, ef sú verður niðurstaða nefndarinnar, koma með nýtt frv. sem yrði jafnvel um framlengingu á gamla kerfinu í Reykjavík. Ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh., þó hann hafi ekki viljað binda sig mikið í orðum áðan: Gerir hann ráð fyrir því að hann framlengi gamla heilsugæslukerfið í Reykjavík enn um áramótin 1985–1986? Gerir hann ráð fyrir því að við séum hér að veita ávísun á að Reykvíkingar hafi gamla kerfið samkvæmt heilsuverndarlögunum áfram og komist ekki undir heilsugæslukerfið?

Ég held að það sé mjög alvarlegt að halda uppi í Reykjavík heilsuverndarkerfi sem er allt öðruvísi en tíðkast í nágrannasveitarfélögunum. Ég held að það sé mjög óheppilegt og hljóti að vera mjög óheppilegt frá sjónarmiði heilbrigðisstjórnarinnar í landinu að vera með allt annað kerfi í þessum efnum á Seltjarnarnesi, í Mosfellssveit og annars staðar í grannbyggðum okkar, fyrir utan Garðabæ og Hafnarfjörð, en almennt tíðkast. Ég held þess vegna að hérna sé um mjög nauðsynlega samræmingaraðgerð að ræða og þess vegna brýnt að heilbrigðisyfirvöld knýi á um að hún eigi sér stað. Nú kann vel að vera að menn komist að þeirri niðurstöðu í nefndinni, sem hæstv. ráðh. hefur skipað, að það þurfi að koma á hér einhverju millibilskerfi svo að segja, í Reykjavík meðan verið er að brúa bilið úr heilsuverndarkerfinu yfir í heilsugæslukerfið. Og eins og hæstv. ráðh. minnti á er auðvitað ekkert kræsilegt frá sjónarmiði heilbrigðisyfirvalda að horfa upp á það gerast að það séu kannske tvö kerfi í gangi hlið við hlið hér í Reykjavík, þ.e. heimilislæknakerfið annars vegar og heilsugæslukerfið hins vegar. Það yrði mjög dýrt fyrir ríkið. Auðvitað sjáum við þegar vísi að þessu tvöfalda kerfi í Reykjavík, þar sem sérfræðingar eru á sumum sviðum, að því er virðist, að fara inn á þau verksvið sem heimilislæknar hafa til þessa unnið á. Sums staðar úti á landi hefur einnig komið upp að sérfræðingar hafa sett upp stofur þar sem um er að ræða svo að segja almenna heimilislæknaþjónustu á sama stað og byggð hefur verið upp dýr heilsugæsla í nýjum heilsugæslustöðvum. Auðvitað hljóta heilbrigðisyfirvöld að hafa áhyggjur af þessu. En ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég teldi ekkert óeðlilegt þó að í Reykjavík yrði komið á eins konar millibils fyrirkomulagi meðan verið er að brúa bilið yfir í heilsugæslukerfið.

Ég hlýt í þessu sambandi, herra forseti, að undirstrika að það ber að harma að ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum í heilsugæslufjárfestingu í Reykjavík á árinu 1985, þar er sviðin jörð. Það var gert ráð fyrir því að sett yrðu upp 13 heilsugæsluumdæmi hér og sum þeirra eru nú þegar skipuð. Efst á þeim lista yfir heilsugæslu í Reykjavík var heilsugæslustöð í Breiðholti III til viðbótar við þá heilsugæslustöð sem er í Asparfelli í Breiðholti. Ég verð að segja að ég held að það væri stuðningur við þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað yfir í heilsugæslukerfið í Reykjavík ef heilbrmrn. gæti knúið fram að einhverjir fjármunir, þó ekki væru miklir, fengjust til uppbyggingar eða byrjunar á heilsugæslustöð í Reykjavík og þá sérstaklega þessari heilsugæslustöð í Reykjavík sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt að sé efst á þeim lista, sem er heilsugæslustöð í Breiðholti III.

Ég hef komið hér, herra forseti, nokkrum almennum ábendingum á framfæri, en ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðh. sérstaklega um heilsugæsluna á Akureyri, en þar á kerfisbreytingin að taka gildi núna um áramótin.