12.12.1984
Neðri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

192. mál, málefni aldraðra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um breyt. á lögum um málefni aldraðra er tilkomið að sögn í grg. í framhaldi af yfirlýsingu hæstv. heilbr.- og trmrh. á síðasta þingi þegar svipað frv. var hér til meðferðar.

Lögin um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra tóku fyrst gildi árið 1981 og þá var tekin ákvörðun um að leggja á svokallaðan nefskatt til Framkvæmdasjóðs aldraðra og stofna hann vegna þess mikla vanda sem um var að ræða og um er að ræða í vistunarmálum aldraðs fólks í landinu. Þá lágu fyrir skýrslur um að þessi vandi væri víða hrikalegur, en einna stærstur og alvarlegastur hér í þéttbýlinu. Þess vegna var um það tiltölulega góð samstaða í tíð þáv. ríkisstj. milli stjórnar og stjórnarandstöðu að rétt væri að stofna þennan sérstaka Framkvæmdasjóð aldraðra. Það sést í því frv. sem hér liggur fyrir, í töflunni á bls. 7, hvað þessi sjóður hefur skipt miklu máli. Það hefur verið varið fé til margra tuga verkefna í þágu aldraðra um allt land og hefur munað mjög verulega um þennan sjóð við að fjölga vistunarrými og auka vistunarrými fyrir aldraða, bæði vistunarrými og hjúkrunarrými, á undanförnum árum. Það er fróðlegt að virða fyrir sér t.d. fskj. á bls. 5 þar sem það kemur fram að á árinu 1974 voru hér í landinu 796 vistrými fyrir aldraða, en á árinu 1984 voru þessi vistrými orðin 1319 og hjúkrunarrými fyrir aldraða voru á árinu 1974 631, en á árinu 1984, tíu árum síðar, 927. Hér er um að ræða 50% aukningu á hjúkrunarplássum fyrir aldraða og nærri tvöföldun á rými fyrir aldraða í svokölluðu almennu vistrými þeirra.

Þegar lögin höfðu verið sett var ákveðið að efna til heildarlöggjafar um málefni aldraðra og frv. um það efni var samið og lagt fram í þinginu. Við meðferð þess á Alþingi var sú breyting gerð á ákvæðum um hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra að úr ríkissjóði þyrfti að koma til sjóðsins jafnhátt framlag og sjóðurinn greiddi á hverjum tíma til 85% verkefna sveitarfélaga. Ég man eftir því að ég setti ákveðið spurningarmerki við þessa hugmynd á sínum tíma, en hún var knúin fram í þinginu og ég hygg að hún hafi verið samþykkt með samhljóða atkv. Það kom líka í ljós haustið 1983 að þær spurningar, sem höfðu verið settar fram um þetta mál, voru á rökum reistar vegna þess að núv. ríkisstj. ákvað strax að flytja brtt. um þetta atriði sérstaklega. Þar var heimilað að greiða af nefskattinum til byggingar svo kallaðra 85% verkefna jafnháa upphæð og ríkissjóður greiddi til sjóðsins. Hér var í rauninni ekki um óeðlilega breytingu að ræða, að mínu mati, og ég man ekki betur en að hún færi í gegnum þingið með tiltölulega góðu samkomulagi.

Nú er hins vegar gert ráð fyrir verulegri breytingu í þessu efni frá því sem þar var samþykkt. Meginbreytingin er sú að gert er ráð fyrir að 30% af tekjum Framkvæmdasjóðs aldraðra geti farið til byggingar á hjúkrunarrými fyrir aldraða, en að öðru leyti séu hjúkrunarheimili aldraðra tekin út og sett undir fjvn. Hér er að mínu mati um að ræða skref sem við hljótum að velta fyrir okkur hvort er heppilegt að öllu leyti. Ég tel að úr því að sú leið var farin á annað borð að gera tillögu um að hluti af fénu fari til hjúkrunarheimila aldraðra og hitt fari inn á fjárlög hefði verið skynsamlegt af ráðh. að ákveða að það mætti þó ekki taka meira en 30% í þessu skyni miðað við allar aðstæður. Ég geri ráð fyrir að hugsun hans sé sú að þá sé hægt að koma í veg fyrir að gengið verði enn þá frekar á þær upphæðir sem Framkvæmdasjóður aldraðra hefur af nefskattinum. En í þeim till. sem hér liggja núna fyrir er gert ráð fyrir því að 58 millj. fari í þessi verkefni á árinu 1985. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þar er um að ræða álagningu eða innheimtu. Ég geri ráð fyrir að það sé. (Fjmrh.: Áætluð innheimta.) Áætluð innheimta. Síðan er gert ráð fyrir því í brtt. fjvn. við frv. til fjárl. fyrir árið 1985 að varið verði þar 14 millj. til hjúkrunarheimila aldraðra. Ef maður má leggja þessar upphæðir saman, yrði um að ræða u.þ.b. 72 millj. kr. Miðað við verðlagsþróun milli áranna 1984 og 1985 ætti þessi upphæð hins vegar að vera 77 millj. kr. Ráðh. leiðréttir mig ef ég fer ekki hér með réttar tölur, en ég hygg að hérna vanti upp á um það bil 5 millj. til að Framkvæmdasjóður aldraðra + framlögin á fjárlögum hafi sama framkvæmdagildi 1985 og á árinu 1984. Þetta hlýtur síðan að koma niður á þeim verkefnum sem hefur verið unnið að í málefnum aldraðra og það getum við fræðst um í fskj. V með frv. sem hér er á dagskrá.

Þar kemur það fram að til B-álmu Borgarspítalans er varið á þessu ári 19 millj. kr., til dvalar- og hjúkrunarheimilisins á Sauðárkróki 4 millj. kr., til dvalar- og hjúkrunarheimilisins á Egilsstöðum 2.4 millj. kr., til hjúkrunardeildarinnar á Hellu 2 millj. kr., til hjúkrunardeildarinnar í Kumbaravogi á stokkseyri 1 millj. kr. og til Sólvangs í Hafnarfirði 2 millj. kr. í ár. Hér er sem sagt um að ræða mjög mörg verkefni sem taka til sín talsvert fjármagn og þeim verkefnum eru ætlaðir fjármunir brtt. fjvn. við fjárlagafrv. En bersýnilega er að eitt verkefni þarna er í mjög verulegri hættu og það er B-álma Borgarspítalans. Ég held að óhjákvæmilegt sé að spyrja hæstv. ráðh. við þessa umr. hvað ætla megi að renni til B-álmu Borgarspítalans úr Framkvæmdasjóði aldraðra af þessum 30% hluta á árinu 1985 því að ef á að láta sitja þarna við 8 millj. er bersýnilegt að það verður um að ræða mikinn hægagang á framkvæmdum við B-álmu Borgarspítalans á næsta ári. Auðvitað er mjög óskynsamlegt að láta jafndýra framkvæmd standa ónotaða langtímum saman.

B-álma Borgarspítalans hefur nú tekið til starfa að því leyti til að tvær hæðir eru komnar í notkun með 58 plássum og síðan hefur verið gert ráð fyrir því að ef eðlilegum framkvæmdahraða yrði haldið yrðu tvær hæðir teknar í notkun á árinu 1985 sem aðallega hýsi almenna þjónustu fyrir B-álmuna.

Ég vil sem sagt spyrja hæstv. ráðh. að því hvort ekki sé hægt að fá frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra núna strax fyrir 3. umr. fjárlaga hugmyndir hennar um úthlutun úr Framkvæmdasjóðnum á árinu 1985. Ég þekki það til að ég hygg að hugmyndir í þessum efnum eigi að geta legið fyrir. Þess vegna er ekki ósanngjarnt, að mínu mati, að fara fram á það við hæstv. ráðh. að hann hlutist til um að upplýsingar um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra á árinu 1985 liggi fyrir. Þetta var það fyrsta sem ég vildi inna hæstv. ráðh. eftir varðandi B-álmuna.

En í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðh. í sambandi við B-álmu Borgarspítalans: Er gert ráð fyrir því undir sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins að veitt verði fé til þess að B-álman verði í auknum mæli tekin í notkun á árinu 1985? Ég hef engar upplýsingar séð um þetta, en ég vil spyrja hæstv. ráðh. um það.

Í þriðja lagi vil ég spyrja vegna B-álmu Borgarspítalans: Þegar ákvörðun var tekin um að verja verulegu fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra í þessa spítalabyggingu var lögð á það áhersla að hún yrði nýtt í þágu aldraðra skilyrðislaust, þannig að önnur almenn starfsemi Borgarspítalans yrði ekki látin svo að segja sölsa þessa byggingu undir sig. Ég vil spyrja hæstv. heilbrmrh. að því hvort frá því hefur verið gengið að B-álma Borgarspítalans verði skilyrðislaust notuð fyrir aldrað fólk og í þágu aldraðs fólks. Ég þekki þann þrýsting sem er á Borgarspítalanum á að fá hluta af Bálmunni undir aðra almenna starfsemi spítalans og ég veit að það kann að vera erfitt að standast þann þrýsting, en ég hygg að unnt sé, ef heilbrmrn. tekur um það ákvörðun, að sjá svo um að þessi hluti Borgarspítalans verði skilyrðislaust notaður fyrir aldrað fólk. Ef það á að taka hluta af B-álmunni undir almenna starfsemi Borgarspítalans er auðvitað verið að fara aftan að Framkvæmdasjóði aldraðra. Er algerlega óeðlilegt að borgin komist upp með það að fá fjármagnaða þessa spítalabyggingu úr Framkvæmdasjóði aldraðra sem yrði svo tekin til annarrar almennrar heilbrigðisþjónustu. Það er algerlega óeðlilegt að Reykjavíkurborg komist upp með slíkt og þess vegna verður skýr afstaða heilbrmrn. að liggja fyrir í þessu efni.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta. Ég hef lagt fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. þrjár spurningar varðandi B-álmu Borgarspítalans sem ég vænti að hann treysti sér til að svara við þessa umr. Jafnframt vil ég minna hann á tölu sem ég nefndi í sambandi við raungildi framkvæmdafjármagns í þessum málaflokki. Mér sýnist að það ætti að óskertu að vera í kringum 77 millj. kr., en í tillögunum sem hæstv. ríkisstj. er hér með og í fjárlagatill. sýnist mér að þetta verði aðeins í kringum 72 millj. kr.