17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 61 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um átak í dagvistarmálum barna. Eins og segir í grg. með frv., með leyfi forseta, þá samdi ríkisstjórn Íslands um það við gerð kjarasamninga ASÍ í okt. 1980 að þörf fyrir dagvistarþjónustu barna skyldi fullnægt á næstu 10 árum þaðan í frá. Í yfirlýsingu frá þáv. ríkisstj. við afgreiðslu þessa kjarasamnings segir svo um dagvistarmál, með leyfi forseta:

Ríkisstj. áformar að á fjárlögum ársins 1981 verði 1100 millj.“ — Þetta eru gamlar kr., jafngildi 11 millj. nýrra kr. í dag. — „varið til byggingar dagvistarheimila. Er framlag við það miðað að ekki þurfi að standa á mótframlagi ríkisins í þessum málaflokki. Ríkisstj. mun í samvinnu við sveitarfélögin beita sér fyrir áætlun um uppbyggingu dagvistarheimila á næstu árum með það fyrir augum að fullnægt verði þörf fyrir dagvistarþjónustu barna á næstu 10 árum. Ríkisstj. mun jafnframt beita sér fyrir því að auknir verði möguleikar ófaglærðra starfsmanna dagvistarheimila til menntunar með námskeiðshaldi.“

Undir þessa yfirlýsingu rita fyrir hönd þáv. ríkisstj. Gunnar Thoroddsen, Svavar Gestsson og núv. hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson.

Með bréfi, dags. 26. mars 1981, skipaði þáv. menntmrh. nefnd til að gera 10 ára áætlun um uppbyggingu dagvistarheimila á landinu. Nefndin, sem lauk störfum 30. apríl 1982, lagði fram umbeðna áætlun, byggða á tveimur mismunandi forsendum fyrir þörf á dagvistarrými, og komst að þeirri niðurstöðu að árlega þyrfti að veita úr ríkissjóði 30 millj. miðað við forsendur I og 50 millj. miðað við forsendur II til þess að því markmiði um byggingu dagvistarheimila, sem samið var um 1980, yrði náð. Tillögur nefndarinnar um upphæðir fjárveitinga voru miðaðar við byggingarvísitölu 909. Skv. framreikningi Þjóðhagsstofnunar voru þessar upphæðir orðnar í janúar 1983 sem hér segir: 30 millj. voru í janúar 1983 orðnar að 48.9 millj. og 50 millj. orðnar að 81.5 millj. Í janúar í ár voru 30 millj. orðnar að 75.8 millj. miðað við byggingarvísitölu og 50 millj. orðnar 126.4 millj. Fjárveitingar á fjárlögum til byggingar dagvistarheimila voru hins vegar sem hér segir frá því að ofangreindur kjarasamningur var gerður: Árið 1981 var 11 millj. veitt til þessa málaflokks, árið 1982 15 millj., árið 1983 27 millj. og á fjárlögum ársins í ár eru það 31 millj. 640 þús. kr., en þá hefði þurft að veita til þessa málaflokks, ef hefði verið farið eftir tillögu nefndarinnar, annaðhvort 75.8 millj. eða 126.4 millj.

Miðað við byggingarvísitölu í ágúst s.l. — hún var þá komin í 2439 stig — hefðu þær upphæðir sem nefndin lagði til að veittar yrðu til þessara málefna verið orðnar 80.5 millj. miðað við lægri upphæðina og 134 millj. miðað við þá hærri. Í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár, sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, er hins vegar aðeins gert ráð fyrir 30 millj. kr. til byggingar dagvistarheimila fyrir börn. Þarna munar um það bil 100 millj. á tillögu í fjárlögum og hærri tillögu nefndarinnar. Stjórnvöld hafa því ekki haldið þau loforð sem gefin voru í kjarasamningum 1980.

Ljóst er að því fer fjarri að þörf fyrir dagvistun barna hafi minnkað á þeim árum sem hér um ræðir. Þvert á móti hefur þörf á dagvistarrými aukist svo umfram framboð sökum núverandi efnahagsástands, sem kallar báða foreldra til vinnu utan heimilis án tillits til barna, að neyðarástand hefur skapast í þessum efnum. Við svo búið má ekki lengur standa og því er þetta frv. flutt.

Eins og segir í grg. með frv., með leyfi forseta, „er gert ráð fyrir að árlega verði veitt úr ríkissjóði upphæð sem nemur a.m.k. 0.8% af A-hluta fjárlaga“ og henni varið til byggingar dagvistarheimila fyrir börn. „Miðað við niðurstöðutölu A-hluta fjárlaga 1984 hefði í ár verið um að ræða upphæð sem nemur 147 millj. kr. Í frv. er því gert ráð fyrir 20 millj. kr. hærri upphæð en framreikningar miðaðir við forsendur II í áliti nefndarinnar gefa tilefni til.“ Ástæður þess að upphæðin er hér heldur hærri en nefndin gerði ráð fyrir eru eftirfarandi:

„Í fyrsta lagi miða forsendur II við að 64% allra barna á aldrinum þriggja mánaða til fimm ára og 17% skólabarna á aldrinum 6–9 ára þurfi á dagvistarrými að halda. Miðað við tölur um útivinnu kvenna og karla bendir allt til að þörfin fyrir yngri aldurshópinn sé að nokkru vanmetin. Augljóst er einnig að engin þáttaskil verða í aðstöðu foreldra og barna við það eitt að börn ná 6 ára aldri og því er óraunhæft að miða við að aðeins 17% skólabarna á aldrinum (6–9 ára þurfi á skóladagheimilisrými að halda. Eðlilegt er að öll skólabörn á þessum aldri eigi kost á aðstöðu á skóladagheimili óski foreldrar þess. Skv. núgildandi lögum um dagvistarheimili fyrir börn eiga skóladagheimili ekki eingöngu að vera í boði fyrir 6–9 ára börn, heldur öll börn á grunnskólaaldri og er fráleitt annað en að leitast sé við að fylgja þessum ákvæðum laganna. Tryggja verður að börn og unglingar 10 ára og eldri fái þá uppeldislegu aðstoð sem þau þurfa og þau eiga rétt á skv. lögum. Að öllu samanlögðu er ljóst að þörf fyrir dagvistarrými handa börnum er í heildina meiri en forsendur nefndarinnar gera ráð fyrir og því nauðsynlegt að gera ráð fyrir því að við áætlun í fjárþörf til byggingar dagvistarheimila fyrir börn.

Í öðru lagi er ljóst að langt um lægri fjárhæð hefur verið veitt til byggingar dagvistarstofnana undanfarin fjögur ár en tillögur nefndarinnar hljóða upp á.“

Aukning nýrra dagvistarplássa náði hámarki árið 1980. Þá bættust við 600 ný dagvistarpláss, en aukningin hafði hins vegar hrapað niður í 350 ný pláss á ári árið 1983. Það gefur því auga leið að viðbótarfé þarf til að vinna upp það sem tapast hefur í byggingarhraða.

„Í frv. er gert ráð fyrir að ákvæði þess skuli endurskoðuð að sjö árum liðnum frá gildistöku laganna, þörfin á dagvistarrými fyrir börn þá endurmetin og fjárframlög ríkissjóðs til byggingar dagvistarstofnana fyrir börn miðuð við hver þörfin á dagvistarrými verður þá.“

Ég skal fúslega viðurkenna og verða fyrst manna til að benda á að sú upphæð, sem hér er lögð til að veitt verði til að tryggja aðbúnað yngstu kynslóðar þessa lands, er ekki smá. Það hefur enda aldrei hvarflað að mér að það kosti ekki töluverðan skilding að koma upp börnum og það hefur ríkisstjórn Íslands greinilega einnig verið ljóst þegar hún gaf fyrirheit um háar upphæðir til þessara mála árið 1980.

Hvar á að taka peningana? Þessi fleyga spurning hæstv. fjmrh. hljómar nú e.t.v. í hugum einhverra hv. þdm. Og þessari spurningu skal ég svara strax og eins og ég hef ævinlega gert. Það er ekki spurning um að taka einhverja peninga einhvers staðar. Spurningin er: Hvernig viljum við skipta sameiginlegu fé landsmanna allra? Hvaða málum viljum við veita forgang og hvaða mál teljum við að megi bíða enn um stund?

Ég vil veita aðbúnað barna og unglinga hér á landi forgang. Ég tel að óbætanlegur skaði sé landi og þjóð af því að hlúa ekki eins vel og okkur er mögulegt að börnum okkar og ég tel það skyldu íslensks samfélags, samfélags sem leggur þegnum sínum á herðar margvíslegar skyldur, þar á meðal óheyrilega mikla vinnuskyldu, að gera sitt til að tryggja með sameiginlegu fé okkar allra að umönnun barna sé vel fyrir séð. Ég tel það líka siðferðilega skyldu þjóðfélags, sem vill í stjórnarskrá kveða á um að jafnrétti ríki hér á landi, að sjá til þess að svo megi verða.

Jöfn staða kvenna og karla á vinnumarkaðinum verður ekki tryggð nema öllum foreldrum standi fullnægjandi dagvistarþjónusta fyrir börn til boða, sama hvað stjórnarskrá og jafnréttislög annars kveða á um. Það er því miður helber sýndarmennska að leggja fram frv. til laga um jafnan rétt kvenna og karla annan daginn og veita síðan ekki forgang hinn daginn — frv. sem gera það mögulegt að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla verði raunverulega náð.

Skipting fjármuna er ávallt spurning um forgang, um hvað okkur finnst mikilvægast. Mér finnst mikilvægara að tryggja bættan aðbúnað barna hér á landi en að byggja t.d margnefnda flugstöð suður á Keflavíkurflugvelli eða bankahallir hér og hvar á landinu. Ég skil mætavel þörf landsmanna til að aka um á góðum vegum, en tel samt að minni skaði sé af því að vegirnir séu ofurlítið holóttari en nú er miðað við þann skaða sem hlýst af því að veita of litlu fé til aðbúnaðar barna og unglinga. Ég er þeirra hluta vegna tilbúin til að taka nokkrar milljónir af þeim 1 milljarði 383 millj., sem í ár fara til Vegagerðar ríkisins, og verja þeim til byggingar dagvistarheimila fyrir börn, án þess að ég sé þar með nokkuð að draga úr gildi þess að hafa góða vegi eða að koma í veg fyrir að það sé hægt.

Virðulegi forseti. Það er hægt að setja hér á langar tölur um forgangsröðun mála, um nauðsyn þess að tryggja að allir borgi sitt í sameiginlega landssjóði og nauðsyn á skynsamlegri fjárfestingu og beitingu fjármuna, en þau litlu dæmi sem ég hef hér nefnt trúi ég að nægi til þess að skýrt sé að fjármögnun þessa frv. snýst ekki um hvar á að taka peningana, heldur hvaða málum við viljum veita forgang.

Í grg. með frv. er bent á, með leyfi forseta, „að ekki er ætlast til að fé þetta verði notað til að reisa íburðarmikil mannvirki. Börnum líður jafnvel í verksmiðjuframleiddu einingahúsi og í módelsmíðaðri steinsteypuhöll svo fremi sem annar aðbúnaður og umönnun er við þeirra hæfi og umhverfið hlýlegt og heimilislegt. Því er hér hvatt til nýtni og hagkvæmni við ráðstöfun fjárins og bent á að víða má koma upp góðri skóladagvistarheimilisaðstöðu fyrir skólabörn, t.d í skólum, í félagsmiðstöðvum og á dagvistarstofnunum, án mikils tilkostnaðar. Einnig er rétt að benda á að hluta fjárins væri vel varið til að breyta leikskólum í dagheimili eða blandaðar dagvistarstofnanir ef sveitarfélög æskja þess þar sem fjögurra stunda vistun á dag, sem leikskólarnir bjóða, hentar víða illa atvinnuaðstæðum foreldranna og börnin því iðulega fóstruð á tveimur mismunandi stöðum dag hvern.“

Einnig skal á það bent að ýmislegt má betur fara í núgildandi lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Ég get t.d ekki tekið undir það sjónarmið, sem lesa má út úr 1. gr. núgildandi dagvistarlaga, að börn séu betur komin í höndum sérmenntaðs fólks í uppeldismálum en í höndum foreldra sinna. Að mínu viti hefur of mikið verið gert af því í ræðu og riti á undanförnum árum að draga úr trausti foreldra á sjálfum sér sem uppalendum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að handleiðsla foreldris er hverju barni mikilvæg, en ég er ekki heldur í vafa um að hverju barni er mikilvægt að fá að dvelja ákveðinn tíma á dag í leik og starfi með öðrum börnum og þá undir handleiðslu þeirra sem sérmenntaðir eru í uppeldismálum. Ákjósanlegast væri að öll börn ættu greiðan aðgang bæði að dagvistarstofnunum og að foreldrum sínum, að sú vinnuskylda sem þjóðfélagið leggur foreldrum á herðar miðist við að foreldrarnir báðir hafi tíma til að sinna börnum sínum. Því fer hins vegar fjarri að svo sé og af þeim sökum, svo og vegna barnanna sjálfra, hlýtur það að teljast sjálfsögð félagsleg þjónusta að öll börn eigi kost á fullnægjandi dagvistarrými.

Út frá sama sjónarmiði má eðlilegt teljast að ríkið taki þátt í rekstri dagvistarstofnana rétt eins og skóla og heilsugæslustöðva, en leggi ekki eingöngu til stofnkostnaðarfé, eins og nú er samkvæmt gildandi lögum. Ég er búin að leita með logandi ljósi um okkar margfræga kerfi að því hver var rekstrarkostnaður dagvistarheimila á landinu á síðasta ári. Sú kostnaðartala er hvergi til og finnst mér það í meira lagi hæpin hagstjórnarlist hjá hinu opinbera að vita ekki hverjir eru hinir ýmsu kostnaðarliðir þjóðarheimilisins. En með því að áætla lauslega út frá þeim gögnum sem fyrir liggja má ætla að heildarrekstrarkostnaður dagvistarheimila á landinu hafi á síðasta ári verið einhvers staðar á bilinu 250–280 millj. kr. Hér er óneitanlega um háa fjárhæð að ræða og því hefur sú leið verið valin í þessu frv. að hrófla ekki í bili við núverandi fyrirkomulagi á skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga þar sem brýnast er við núverandi ástand í þessum málum að tryggja fé til aukningar á dagvistarrými.

Á síðasta ári fóru sveitarfélögin fram á ríflega helmingi hærri fjárhæð til byggingar dagvistarheimila en þau síðan fengu á fjárlögum, þannig að ætla má að þau séu enn um sinn í stakk búin til að mæta þeim kostnaði sem uppbygging dagvistarheimila hefur í för með sér. Það er ekki hlutverk okkar hér á Alþingi að ræða sveitarstjórnarmál og ég vil aðeins taka það fram að frv. þetta bindur á engan hátt hendur sveitarfélaga í þessum málum. Það tryggir aðeins að ekki muni standa á ríkinu að leggja sitt af mörkum til þess mikilvæga málaflokks.

Virðulegi forseti. Það má til sanns vegar færa að íslenskt nútímasamfélag er ekki skipulagt og rekið með tilliti til barna. Við núverandi efnahagsástæður og þann óheyrilega langa vinnutíma, sem flestum vinnufærum Íslendingum er þar með boðið upp á, hafa feður og mæður því miður lítinn tíma afgangs fyrir börn sín. Og hvar eru börnin á meðan foreldrarnir eru að vinna? Í des. 1983, fyrir tæpu ári, var rúm fyrir 43.5% barna á landinu á aldrinum 6 mánaða til 5 ára í dagvistarheimilum. Þar af voru 34.6% á leikskólum, leikskólar bjóða aðeins fjögurra stunda fóstrun á dag, en aðeins 8.9% á dagheimilum. Á skóladagheimilum landsins er rúm fyrir 377 börn eða 1.5% barna á aldrinum 6–11 ára á landinu. Á meðan rúmlega 80% kvenna og yfir 90% karla eru úti á vinnumarkaðinum er þetta raunveruleikinn. Og jafnvel þótt ekki sé tekið mið af núverandi efnahagsástandi, sem kallar foreldra til vinnu utan heimilis án tillits til barna, þá er það grundvallaratriði í baráttu fyrir jafnri stöðu kvenna og karla á vinnumarkaðinum að öllum foreldrum standi dagvistarþjónusta fyrir börn til boða, að foreldrar geti sjálfir valið hvort börn þeirra sæki dagvistarheimili, en að ríkið velji ekki fyrir þá eins og nú er.

Með því frv., sem ég hef hér flutt, er gerð tilraun til að tryggja fé til að bæta úr því ófremdarástandi sem nú ríkir í dagvistarmálum barna. Það er lagt til að við veitum aðbúnaði barna og unglinga nokkurn forgang og hv. þm. er gefinn kostur á að lýsa hug sínum til þessara mála.

Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og þar sem hér er eingöngu um fjárveitingar til þessa málaflokks að ræða með beinni vísan til fjárlaga óska ég eftir að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.