12.12.1984
Neðri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

190. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73 26. nóv. 1980 um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Þetta frv. var lagt fram í Ed. og hefur verið afgreitt samhljóða frá deildinni til Nd. Skv. 8. mgr. 26. gr. laga nr. 73 frá 26. nóv. 1980 um tekjustofna sveitarfélaga, skulu fjárhæðir í 26. gr. laganna breytast í samræmi við skattvísitölu eins og hún er á hverjum tíma, sbr. 121. gr. laganna nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Þar sem ekki er gert ráð fyrir því að í fjárlögum ársins 1985 verið gefin upp skattvísitala er nauðsynlegt að breyta fjárhæðum í 26. gr. laga nr. 73/1980 með sérstökum lögum. Að mati þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að laun hækki um 25% á milli áranna 1984 og 1985 og er því skv. frv. þessu gerð sú till. að fjárhæðir í 26. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga hækki um 25%.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða nánar um þetta frv. Þetta er öllum hv. alþm. kunnugt, þetta er sama breyting og var gerð á síðasta tekjuári. Ég vil, herra forseti, mælast til þess að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og félmn.