17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum láta í mér heyra varðandi þetta mál þar sem það mun væntanlega fara til n. þar sem ég á ekki sæti og hef því ekki tækifæri til þess að vinna að málinu í n.

Það er vissulega góður hugur sem liggur að baki þessu frv. sem hv. 11. þm. Reykv. hefur hér mælt fyrir og flytur, góður hugur til þess að bæta úr þessum þýðingarmikla þætti í okkar nútímasamfélagi, þ.e. að sjá til þess að öll börn, sem á því þurfa að halda, eigi kost á dagvistun í meiri eða minni mæli eftir því hvernig aðstæður eru hjá hverjum og einum. En eins og við vitum er þetta mjög misjafnt. Ég get tekið undir margt af því sem hv. flm., 11. þm. Reykv., sagði. Ég get t.d fyllilega tekið undir orð hennar varðandi húsbyggingar dagheimila. Það er ekki nauðsynlegt að byggja stórar stein- og/eða glerhallir eins og gert hefur verið í nokkuð ríkum mæli á undanförnum árum. Ég held þó að það sé að breytast aftur til hins betra. Ráðamenn eru farnir að gera sér grein fyrir því að vissulega er hægt að búa vel að börnum þó að það þurfi ekki að vera um svo rándýrar byggingar að ræða. Það er meira virði að aðstaða barnanna innan húss sé góð og ekki síst þeir starfsmenn sem ráðast til starfa á þessum stofnunum séu góðir og hæfir.

Hv. flm. sagði að nútímasamfélag væri ekki skipulagt og rekið með tilliti til þarfa barna. Mér finnst þetta nú nokkuð djúpt í árinni tekið. Ég er ekki sammála þessu þó að ég sé sammála því að vissulega er margt sem þarf að bæta miðað við þróunina í þjóðfélaginu. Við verðum samt að vera sanngjörn og hafa það hugfast að allt sem gert er, hvort sem um er að ræða í heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og jafnvel samgöngumálum er gert með því hugarfari að tryggja öryggi og þá ekki síst barna eins og annarra þjóðfélagsþegna. Þetta er að sjálfsögðu grundvallaratriði.

Varðandi samgöngumálin, af því að hv. 11. þm. Reykv. sagðist vera tilbúinn að fórna nokkru í vegamálum og það mættu gjarnan vera svolitlar holur í vegum, þá er ég nú ekki alveg viss um að þeir hv. þm., sem nú eru að berjast fyrir því að bæta vegasamgöngur vítt og breitt um landið, gætu tekið undir þetta. Við erum að vísu frekar vel sett hér á þessu svæði, en við megum ekki gleyma því að meira að segja vegagerð er öryggisatriði ekki síður fyrir börn en aðra. En ég býst við að ef hv. 11. þm. Reykv. hugsar sig aðeins betur um sé hún mér sammála í því að það sé mikið öryggisatriði að hafa vegamálin í góðu lagi og samgöngur tryggar og góðar úti um allt land. Það er ekki þar sem skera ætti niður ef farið væri út í þau mál.

Ég vil taka undir þýðingu þess sem var meginefni málflutnings hv. 11. þm. Reykv., að það þarf að sinna þessum málum miklu betur en gert hefur verið. Við vitum jafnframt að þetta er ekki mál sem hefur orðið út undan endilega á síðasta ári. Þetta er mál sem alltaf hefur verið erfitt að sinna eins og skyldi. Það skortir ekki á hug og vilja þm. að tryggja þessi mál sem best, en við komum alltaf að þessu sama, og það eru peningarnir.

Ég er ekki sammála hv. 2. þm. Austurl. um það að þýðingarmeira sé að hafa sérmenntað fólk til að ala upp börn, ef ég skildi hann rétt. Ég er hins vegar sammála hv. 11. þm. Reykv. í því að þýðingarmeira er að foreldrarnir hafi aðstöðu til að sinna og ala upp börn sín, þó að hitt sé jafn nauðsynlegt þegar þörfin kallar að aðstaða til dagvistunar sé fyrir hendi. Við vitum að leikskólar geta t.d verið mjög góðir staðir til að koma börnum fyrir, jafnvel til að auka á þroska þeirra og kenna þeim að umgangast önnur börn, t.d börnum sem eiga ekki systkini og hafa ekki aðstöðu til að umgangast önnur börn á þessum fyrstu æviárum sínum. Ég held að allir séu sammála um að það sé þroskandi fyrir börn að vera á leikskóla einhvern hluta dagsins jafnvel þó að foreldrar þeirra séu heima og geti sinnt þeim að öðru leyti vegna vinnu sinnar.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta. Ég er að vísu ekki tilbúin að taka undir það að binda eigi á fjárlögum ákveðna prósentu til þessara mála. Mér finnst sjálfsagt að þessi mál séu skoðuð. Ég vil aðeins leggja megináherslu á það, sem ég vænti að við séum öll sammála um, að gera þurfi allt sem hægt er til að sinna þessum málum svo að þessari þörf verði fullnægt þó að menn greini kannske stundum á um það með hvaða hætti það verði gert.