13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

1. mál, fjárlög 1985

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég hef ræðu mína hér við 2. umr. fjárlaga tel ég að ekki verði hjá því komist að ræða nokkuð fréttahlut sjónvarpsins um meðferð þessa máls.

Í fréttum sjónvarpsins í gærkvöldi var sagt frá afgreiðslu fjvn. á fjárlagafrv. fyrir 2. umr. ásamt spásögnum um afgreiðslu frv. til 3. umr., hvort tveggja með þeim hætti að gera verður aths. við.

Í fyrsta lagi var talað um brtt. meiri hl. fjvn. Meiri hl. fjvn. hefur engar brtt. flutt til þessa. Hið rétta er: Fjvn. sem heild hefur flutt brtt.

Í öðru lagi var talað um halla á fjárlagafrv. sem kallað var gat á þann máta að a.m.k. orkar tvímælis.

Í þriðja lagi var sagt að 2. umr. fjárlaga færi fram einhvern næstu daga.

Í fjórða lagi var haft eftir formanni fjvn. — og birt mynd af mér — að við 3. umr. mundi nefndin leggja fram tillögur um að afla tekna upp í fyrrgreint gat á fjárlagafrv. Ég hlýt hér að taka fram skýrt og skilmerkilega að um þetta efni hef ég ekkert sagt, hvorki við fréttamann sjónvarps né aðra og það sem meira er, sjónvarpið hefur ekkert rætt um þetta efni við mig. Ég hringdi í fréttastofu sjónvarps meðan fréttir stóðu yfir og talaði við þingfréttamann sjónvarpsins og óskaði eftir að birt væri athugasemd, a.m.k. væri tekið fram í lok frétta að þessar fréttir væru ekki frá mér komnar því að við mig hefði ekki verið rætt. Þessu var hafnað.

Um það, sem að framan greinir, vil ég svo aðeins segja þetta: Það er hvimleitt þegar fluttar eru óvandaðar og rangar fréttir. Það er ekki viðunandi þegar tiltekinn maður, í þessu tilliti formaður fjvn., er borinn fyrir hluta af slíkum fréttum án þess að við hann hafi verið rætt. Þó er sýnu verst að vera neitað um leiðréttingar og það að koma við athugasemdum. Þessa vildi ég láta getið í upphafi þessarar umr.

Herra forseti. Fjvn. hóf störf sín við athugun á fjárlagafrv. og undirbúning að afgreiðslu fjárl. þann 18. okt. s.l. síðan hefur nefndin haldið 40 formlega fundi auk ýmissa funda undirnefnda og funda í meiri hl. nefndarinnar, svo sem jafnan er nauðsynlegt þegar draga tekur að afgreiðslu mála. Á formlega fundi nefndarinnar hafa komið frá þingbyrjun fulltrúar frá yfir 200 aðilum, ráðuneytum, stofnunum, félögum og félagasamtökum og enn fremur frá allmörgum sveitarfélögum. Þó höfðu komið á fundi nefndarinnar fyrir þingbyrjun í fyrstu viku okt. fulltrúar frá 60 sveitarfélögum á landinu, en þeir fundir voru haldnir til að grynna á starfi nefndarinnar eftir að þing hafði komið saman. Reynslan sýndi að á því var síst vanþörf. Alls komu því á formlega fundi nefndarinnar fulltrúar frá nálægt 300 aðilum. Auk alls þessa hafa einstakir nm. átt fjölda viðtala við fólk vegna undirbúnings að afgreiðslu fjárlaga. Þessi þáttur í starfi nefndarinnar er afar tímafrekur og kostar mikla skipulagningu. Að ýmsu leyti er hann þó mikilvægur og ekki auðvelt að takmarka hann mjög.

Nefndinni hafa borist um 750 skrásett erindi og er það meiri fjöldi en oftast áður. Það eru því ærið margir sem telja sér nauðsynlegt að hafa samband við fjvn. á einn eða annan hátt meðan hún er að starfi. Þessu veldur að sjálfsögðu að nokkru hversu þröngt er haldið á útgjaldaáformum frv. vegna krapprar stöðu ríkisfjármála og einnig vegna minni háttar breytinga á uppsetningu frv. Starf nefndarinnar hefur því verið annasamt og það er í sjálfu sér ekki nýlunda. Ætla má að það hafi verið síður en svo auðleystara nú en oft áður því að þegar smátt er skammtað verða álitamálin mörg. Svo er t.d. um skiptingu fjármagns til fjárfestingarliða sem nú eru þrengri en fyrr. Ég hef því sérstaka ástæðu til að færa meðnm. mínum þakkir fyrir mikil og tímafrek störf. Ég flyt þeim einnig þakkir fyrir sérlega ánægjulegt samstarf, lipurð í störfum og þolinmæði í minn garð. Gildir það jafnt um fulltrúa stjórnarandstöðunnar og stjórnarliða. Ég flyt einnig starfsmanni nefndarinnar, Jóni Rúnari Pálssyni, þakkir fyrir vel unnin störf svo og hagsýslustjóra, Magnúsi Péturssyni og starfsliði hans fyrir margvíslega aðstoð.

Vafalaust finnst ýmsum þeim, sem gengið hafa á fund fjvn. á undanförnum vikum eða sent hafa henni erindi, að árangurinn sé harla lítill. Yfirleitt er hér þó um góð og þörf mál að tefla sem nefndin reynir að meta á þeim knappa tíma sem hún hefur til umráða. Staðreyndin er hins vegar sú að nú er minna til skipta en fyrr og þegar stabbinn er lítill verður að gefa naumt á garðann. Í tillögum fjvn. er þó að finna verulega úrlausn ýmissa þeirra mála sem borin hafa verið upp við nefndina, ekki síst þar sem um hreinar leiðréttingar er að ræða.

Allir viðurkenna nú að íslenska þjóðarbúið hefur orðið fyrir miklum og alvarlegum áföllum á síðustu árum. Þessi mál eru það margrædd og kunn að ég sé ekki ástæðu til að taka tíma til þess að skýra í hverju þessi áföll eru fólgin, en sameiginlega koma þau fram í því að þjóðarframleiðsla okkar Íslendinga hefur dregist saman um sem svarar 12% á mann á þremur árum. Samdráttur þjóðartekna er að vísu ekki alveg jafnmikill og þjóðarframleiðslunnar en þó alvarlegur. Þessar efnahagslegu staðreyndir segja okkur einfaldlega til um það hvað við höfum nú miklu minna til skipta en var áður en þetta samdráttarskeið hófst. Að sumu leyti hefur ekki verið tekið fullt tillit til þessara efnahagslegu staðreynda á undanförnum árum, sem komið hefur fram í því að halli hefur orðið alvarlegur á viðskiptum okkar við útlönd og erlendar skuldir þjóðarinnar fara stórum vaxandi. Þetta gerir stöðu okkar nú enn erfiðari en ella.

Þarflaust er að rekja það hvernig þessi samdráttur þjóðarframleiðslunnar hefur komið við atvinnuvegina í landinu, einstaklinga og heimili. Á hinn bóginn kann að vera fróðlegt að leitast við að gera grein fyrir því hvernig þessi samdráttur í þjóðarbúinu hefur komið við ríkisbúskapinn og hvaða áhrif hann hefur haft á gerð og afgreiðslu þess fjárlagafrv. sem hér er til umr. Oft heyrist um það rætt hve erfiðlega gangi að draga saman seglin í ríkisrekstrinum og að ríkissjóður hafi ekki að sínum hluta tekið þátt í þeim erfiðleikum sem að þjóðarbúinu steðja. Í þessu sambandi er vert að athuga það að árið 1982 voru skattheimtur ríkisins taldar nema 32.3% af þjóðarframleiðslu. Skv. því frv. sem hér er til umr. og eftir síðasta endurmat Þjóðhagsstofnunar á tekjuhlið frv., sem sýnir að Þjóðhagsstofnun áætlar að tekjur ríkissjóðs verði á næsta ári 24.9 milljarðar, er innheimtuhlutfall ríkissjóðs 28.1% af þjóðarframleiðslu. Hér hefur því þetta innheimtuhlutfall lækkað á þremur árum, frá 1982 til 1985, um 4.2%. Rétt er að hafa í huga að þessar tölur kunna að breytast við endanlega gerð fjárlaga eftir að tekjuhlið verður atgreidd við 3. umr. Sá mismunur verður þó væntanlega ekki veigamikill.

Ef þjóðarframleiðslan hefði staðið í stað frá árinu 1982, sem að vísu var fyrsta árið í því samdráttarskeiði sem enn stendur, væri hægt að meta þennan mismun í krónum talið á 4 milljarða, sem innheimtur ríkissjóðs áætlast minni á næsta ári en þær voru á árinu 1982. Hér er um gífurlegan mismun að ræða og sést að ríkissjóður hefur á þessu árabili, á árunum 1983 til og með ársins 1985, ýmist misst eða gefið eftir tekjur sem eru svo miklar að hann hefur fyllilega að sínum hluta tekið á sig þann mikla samdrátt sem orðið hefur í þjóðarbúinu.

Hluti af þeim tekjum, sem ríkissjóður hefur þannig gefið eftir á þessum árum, er vegna beinna ákvarðana hæstv. ríkisstj. og Alþingis með niðurfellingu skatta. Samtals virðist hægt að meta þessar skattalækkanir við afgreiðslu fjárlaga nú, þ.e. á verðlagi fjárlaga næsta árs, um 1200 millj. kr. Hefur þá verið dregin frá sú söluskattshækkun sem gert er ráð fyrir að verði lögfest nú fyrir jólaleyfi þm. Inn í þessa tölu er hins vegar ekki metin meint skattalækkun atvinnurekstrarins í landinu sem skortir ábyggilega tölur um. Skv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið og ég hef hér greint frá, virðist liggja ljóst fyrir að skattalækkanir hæstv. ríkisstj. nemi á verðlagi næstu fjárlaga a.m.k. 1200 millj. kr. og að tekjutap ríkissjóðs, ýmist vegna þeirra skattalækkana eða samdráttar sem orðið hefur í þjóðarbúskapnum, nemur samtals um 4 milljörðum kr. Er þá ekki búið að reikna inn í þetta dæmi 600 millj. kr. lækkun tekjuskatts og ca. 450 millj. kr. endurgreiðslu söluskatts til sjávarútvegsins sem enn hækkar þessa tölu um liðlega 1 milljarð. Þetta sníður hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. þröngan stakk við gerð fjárlagafrv. og þessar staðreyndir sníða einnig fjvn. og Alþingi þröngan stakk við afgreiðslu þessa máls.

Samtímis þessum staðreyndum er rétt að hafa í huga að ríkissjóður hefur haldið uppi mikilsverðri og kostnaðarsamri þjónustu við borgarana, svo sem eins og tryggingabótum að fullu, og ýmis félagsleg þjónusta hefur verið aukin. Má þar nefna til að mynda fjármagn sem gengur til málefna fatlaðra, en sá liður fjárlagafrv. og þar með ríkisútgjaldanna hefur stórkostlega aukist á allra síðustu árum. Á hinn bóginn hefur orðið að mæta þessu með samdrætti á öðrum liðum. Má þar nefna niðurskurð á framlögum til sjóða, lækkun niðurgreiðslna, minnkandi framlög til atvinnuvega og niðurskurð á fé til verklegra framkvæmda. Við þessar aðstæður hefur reynst erfitt að ná endum saman í ríkisrekstrinum. Svo er enn við afgreiðslu þessa fjárlagafrv.

Horfur um rekstrarniðurstöðu fjárlagafrv. verða hins vegar ekki ræddar hér frekar vegna þess að tekjuhlið frv. verður tekin til meðferðar fyrir 3. umr. og til 3. umr. bíða einnig ýmsir aðrir veigamiklir þættir frv. Ég tel hins vegar rétt að leggja áherslu á þá skoðun mína að við núverandi aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar, með tilliti til hins alvarlega viðskiptahalla og vaxandi greiðslubyrði vegna erlendra lána, sé það afar mikilvægt að ná endum saman í ríkisrekstrinum eða a.m.k. að rekstrarhalli verði sem allra minnstur.

Margir kunna að segja að þetta sé sjálfsagt mál og leiðin til þess að ná þessum markmiðum sé að skera niður útgjöld ríkisins meira en þegar er orðið. Allt má þetta vera rétt. En nauðsynlegt er að taka tillit til þess að mikill niðurskurður hefur orðið á útgjöldum ríkisins í tíð núv. ríkisstj., eins og ég hef hér sýnt fram á að framan. Enn fremur þarf um slíkar aðgerðir að nást pólitísk samstaða, a.m.k. þeirra sem standa að núv. hæstv. ríkisstj.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var ákveðið að skera niður rekstrarútgjöld og laun í ríkiskerfinu miðað við fastar hlutfallstölur. Fullyrða má að þetta hafi í mörgum eða flestum tilfellum tekist. En þannig er ekki hægt að halda áfram og ekki eru tillögur uppi um það af hálfu hæstv. ríkisstj. né af hálfu fjvn. að viðhafa þá aðferð nú við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. Nú eru mál komin þannig að lengra verður tæpast gengið í því að skera niður fé til verklegra framkvæmda. Niðurskurður á útgjöldum ríkisins frá því sem nú er verður að felast í því að fella niður einhverja þá starfsemi sem ríkið hefur með höndum og fækka þannig starfsliði hjá ríkinu og minnka rekstrarútgjöld.

Oft hefur verið talað um það að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga og jafnvel til einstaklinga. Miklu minna hefur orðið úr framkvæmdum á þessu sviði en menn hafa hugsað sér. Í því sambandi verður að sjálfsögðu að hafa það hugfast að til þess að gera sveitarfélögum kleift að taka við verkefnum úr hendi ríkisins verður að veita þeim fjárhagslegt bolmagn til þeirra hluta. Eigi að síður er það í mörgum tilfellum skoðun mín að æskilegt væri að koma fram meiri tilfærslum frá ríki yfir til sveitarfélaganna, tilfærslum á verkefnum sem eru þess eðlis að ætla má að þeim verði betur stjórnað eftir því sem stjórnvaldið er nær borgurunum sjálfum.

Hæstv. ríkisstj. og Alþingi standa nú frammi fyrir þeirri staðreynd að hafa ekki fjármagn til ráðstöfunar til að geta staðið við fjölmarga lagabálka sem Alþingi hefur sjálft afgreitt. Þannig hefur staðan einnig verið á allmörgum síðari árum. Allt frá árinu 1978 hefur árlega verið veitt heimild í lánsfjárlögum til að skerða lögbundin framlög til ýmissa verkefna og þar með skerða ákvæði laga sem Alþingi hefur sett. Með fjárlagafrv. nú er prentuð skrá yfir meira en 20 lagabálka sem nauðsynlegt er að skerða með þessum hætti. Þarna mun hvergi nærri allt vera talið.

Ég vek athygli á þessu hér vegna þess að það er út af fyrir sig alvarleg staðreynd að Alþingi og hæstv. ríkisstj. skuli ekki nú fremur en í mörg ár að undanförnu hafa fé til ráðstöfunar til að standa við lagaákvæði sem Alþingi hefur sjálft afgreitt. Að sjálfsögðu er það þó einnig svo að ekki er fé til ráðstöfunar til þess að standa straum af ýmsum ályktunum Alþingis, enda eru lagaákvæði oftast talin ályktunum æðri. Með tilliti til þessarar stöðu hefur mér oft fundist á undanförnum árum að Alþingi tæki því furðu lipurlega að afgreiða lagafrv. og þáltill. sem fela í sér aukin útgjöld ríkisins, vitandi það að ekki finnst fé til aukinna útgjalda ríkissjóðs nema með aukinni skattlagningu, sem Alþingi sjálft vill ekki samþykkja.

Sjálfsagt eru mér þessi mál nú hugstæðari en ella vegna þeirra þrenginga sem við stöndum frammi fyrir við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. En ég hygg þó að það væri ekki að ófyrirsynju að Alþingi og hv. alþm. tækju þessi mál betur til athugunar en oft hefur verið gert. Sjálfsagt er þó að taka tillit til þess að í örum þjóðfélagsbreytingum nútímans bætast ný viðfangsefni sífellt við og margháttaðra lagabreytinga er því þörf.

Eins og fyrr er að vikið hefur verulegur árangur náðst í sparnaði og aðhaldi í ríkisrekstrinum í tíð núv. hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. Þetta var óumflýjanleg nauðsyn miðað við stöðu efnahagsmála og ríkisfjármála. Ljóst er að hvergi má slaka á í þessari viðleitni. Auk hins almenna aðhalds í einstökum stofnunum og rn., sem fylgt hefur verið og þarf að halda áfram, nefni ég örfá dæmi til athugunar nú og framvegis:

1. Takmörkun yfirvinnu.

2. Samdráttur í starfi stofnana meðan sumarleyfi standa yfir.

3. Eftirlit og hófsemi í utanferðum á kostnað ríkisins.

4. Athugun á að fella niður stöður þar sem starfsmenn hætta, þannig að ekki verði sjálfkrafa ráðið í þær að nýju.

5. Takmörkun aukafjárveitinga svo sem gert hefur verið á þessu ári.

6. Varúð í uppsetningu nýrra stofnana eða útibúa frá þeim.

7. Ákvarðanir og ábyrgð fari saman.

Sumt af þessu kann að virðast minni háttar, en hefur þó allt sitt gildi. Eftir ýmsum af þessum leiðum hefur verið starfað, en ég minni á þær til þess að þær verði áfram til athugunar.

Varðandi 6. og 7. tölul. vil ég fara nokkrum orðum. Við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári var gert ráð fyrir að mörg heimili og stofnanir á vegum málefna fatlaðra hæfu rekstur á árinu 1984. Í ýmsum tilvikum var þessu hagað þannig að gert var ráð fyrir að þessi rekstur gæti hafist seint á yfirstandandi ári, jafnvel undir árslok, og kostaði því lítið í fjárlögum þessa árs. Hins vegar koma þessar stofnanir inn á fjárlög næsta árs af fullum þunga. Afleiðingin er sú að í fjárlagafrv. nú verður að fjölga reiknuðum stöðugildum varðandi þessar stofnanir um 39.4 frá fjárlögum 1984 og kostnaður vex skv. því. Eins og áður sagði hefur þessi fjárlagaliður vaxið mjög á allra síðustu árum og hækkar nú um 44.4% í fjárlagafrv. Hér er um mjög þýðingarmikla starfsemi að ræða og í raun brýn þörf að koma til móts við þá einstaklinga sem þessarar starfsemi njóta. Eigi að síður hlýtur að vera umhugsunarefni hversu langt við skulum ganga á þessari braut.

Lög um málefni fatlaðra eru tiltölulega ný. Ástæða kynni að vera til að gera eins konar úttekt á því hvernig þau lög hafa reynst og hvort ástæða sé til að ætla að þau megi bæta. Það er einnig vafasamt fyrirkomulag að ákvarðanir um byggingu nýrra stofnana eða heimila fyrir fatlaða og aldraða séu teknar án aðildar fjárveitingavaldsins þar sem ríkissjóði er síðan ætlað að taka við þessum stofnunum til rekstrar eftir að þær hafa verið byggðar.

Hæstv. heilbrmrh. hefur nú lagt fyrir Alþingi frv. till. um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra, þar sem gert er ráð fyrir því að Alþingi hafi að verulegu leyti tök á úthlutun á fé til hjúkrunarheimila. Þetta tel ég til bóta og eru brtt. um ráðstöfun á fé til hjúkrunarheimila í brtt. n. byggðar á því að frv. þetta verði að lögum.

Ég tel ástæðu til að benda á í sambandi við 7. tölul. hversu mikilvægt það er að innan stjórnkerfisins fari ákvarðanir og ábyrgð saman. Ég tek sem dæmi ákvarðanir um að færa nám hjúkrunarnema á háskólastig. Í kjölfarið hefur fylgt önnur ákvörðun um að fella niður starfsskyldu hjúkrunarnema og ljósmæðranema á sjúkrahúsum. Ég skal ekki dæma um þessar ákvarðanir út af fyrir sig, en mér sýnast þær þó vera vafasamar. Á hinn bóginn hefur þetta haft í för með sér að um leið og felld er niður starfsskylda þessara nema á sjúkrahúsunum hefur þurft að fjölga starfsliði heilbrigðisstofnana um alls 100 stöður. Þar af eru 34 stöður á næsta ári sem er lokaáfangi í þessari tilfærslu. Allt kostar þetta stóraukið fé og þó er sagan ekki öll sögð, því að samhliða gerist það að þessir nemar, sem í sjálfu sér eiga allt gott skilið, koma með sínar bækur og undir leiðsögn sinna kennara inn á sjúkrahúsin til þess að leitast við að sækja þangað einhverja verklega fræðslu og það án þess að bera nokkrar skyldur. Hér hafa ákvarðanir, sem teknar eru á vegum eins rn., orðið til þess að stórauka útgjöld í stofnunum á vegum allt annars rn. og valda þar miklum erfiðleikum.

Ég nefni ekki fleiri dæmi um ákvarðanir og ábyrgð til að sýna fram á hvað ég á við í þessum efnum. En mál af þessu tagi geta auðvitað átt verulegan þátt í því að auka útgjöld og erfiðleika í ríkiskerfinu.

Við þessa umr. flytur fjvn. margvíslegar till. um breytingar á fjárlagafrv. Þ. á m. eru tillögur um skiptingu fjármagns til allra helstu framkvæmdaliða frv., en einnig um mörg önnur mál. Mikils aðhalds hefur verið gætt við þessa tillögugerð. Þó er í till. að finna ýmsar leiðréttingar, sumpart vegna þess að þegar frv. var samið var ekki lokið athugun á einstökum stofnunum, sem upplýsingar lágu síðar skýrt fyrir um, og vegna tæknilegra erfiðleika af völdum prentaraverkfalls í haust er sums staðar í frv. ekki samræmi í tölum miðað við það sem stendur í texta grg. Eru allnokkrar leiðréttingar á frv. af þessum toga.

Tillögur n. við þessa umr. fela í sér aukin útgjöld um liðlega 231 millj. sem er rétt rúmlega 1% af heildarútgjöldum fjárlagafrv. Nefndin stendur að þessum till. sem heild. Þó hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar eftir venju óbundnar hendur um að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Afgreiðsla mála er að sjálfsögðu, svo sem venja er til, fyrst og fremst á ábyrgð meiri hl. og minni hl. nefndar. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna munu skila séráliti um frv.

Í ýmsum tilvikum fela brtt. n. það í sér að leitast er við að gefa sem réttasta mynd í fjárlögum af nauðsynlegum útgjöldum einstakra stofnana til þess að styðja þá heildarstefnu núv. hæstv. fjmrh. að fjárlögin gefi sem réttasta heildarmynd af umfangi ríkisbúskaparins og um leið útgjöldum einstakra stofnana og ráðuneyta. Þessu fylgir alla jafna nauðsyn þess að hækka útgjöld á fjárlögunum sjálfum en losna við aukafjárveitingar og geta þá beitt fjárlögunum sem virku stjórntæki til sparnaðar og aðhalds svo sem nú er óhjákvæmilegt í ríkisrekstrinum fremur en nokkru sinni fyrr.

Til 3. umr. bíður eftir venju tekjuhlið frv. Einnig verða við þá umr. lagðar fram brtt. vegna nýrra verðlags- og launaforsendna sem ríkisstj. hefur ákveðið. Við 3. umr. munu einnig verða lagðar fram brtt. vegna uppfærslu á fjárfestingarliðum skv. ákvörðun ríkisstj., þ.e. vegna húsnæðismála, vegagerðar og þyrlukaupa. Enn fremur bíða 3. umr. tillögur n. varðandi B-hluta stofnanir, heimildir skv. 6. gr. og ýmis viðfangsefni, t.d. Vegagerð ríkisins, ríkisspítalar, stöðuheimildir á heilbrigðisstofnunum, Landhelgisgæslan, Hafrannsóknastofnun o. fl.

Tillögur n. birtast á þskj. 268 en í nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 280 er einnig gefið ífarlegt yfirlit yfir þessar brtt. allar. Ég bið velvirðingar á því að inn í þessi þskj. bæði hafa slæðst villur sem oft endranær við prentun þessara þskj. í miklum önnum starfsliðs þingsins og prentsmiðju. En a.m.k. annað þessara þskj. mun verða prentað upp, þ.e. brtt. fjvn. Þrátt fyrir þær skýringar, sem fylgja með í þessum þskj. tel ég eigi að síður rétt eftir venju að flytja hér skýringar við þær brtt. sem birtast í þessum þskj. og vísast að öðru leyti til þeirra.

Embætti forseta Íslands: Lagt er til að önnur gjöld hækki um 3 millj. og 200 þús. og verði 7 millj. 326 þús. Þessi hækkun skiptist þannig að liðurinn Opinberar heimsóknir hækkar um 1200 þús. og verður 1755 þús. og liðurinn Viðhald hækkar um 2 millj. og verður 3 millj. Ástand húsa á forsetasetrinu er með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að fara þar í allkostnaðarsamar viðhaldsframkvæmdir og er lagt til að þetta verði fyrsta fjárveitingin til þeirra viðhaldsaðgerða sem síðan verði fram haldið á næstu árum. Óviðunandi er að húsnæði á þessu virðulegasta heimili þjóðarinnar sé ekki haldið við þannig að sómasamlegt sé og við hæfi embættisins.

Alþingi: Liðurinn hækki alls um 10 millj. kr. sem skiptist þannig að skrifstofu- og alþingiskostnaður hækkar um 4 millj. kr. sem er aðallega vegna 1. áfanga í tölvuvæðingu Alþingis. Liðurinn Útgáfukostnaður Alþingistíðinda hækkar um 2 millj. 820 þús., Sérfræðileg aðstoð fyrir þingflokka um 180 þús. og Norðurlandaráð hækki um 3 millj. kr. Er það m.a. vegna þess að Norðurlandaþing verður haldið í Reykjavík nú í vetur.

Ríkisstjórn: Lagt er til að laun hækki um 450 þús. vegna nýs aðstoðarmanns ráðh. í heilbrmrn.

Forsætisráðuneyti.

Þjóðhagsstofnun: Gjöld hækki alls um 1772 þús. kr. sem skiptist þannig að laun hækki um 576 þús. og önnur gjöld um 1196 þús., en á móti hækki sértekjur um 886 þús. kr. þannig að nettóhækkun á liðnum er 886 þús. Menntamálaráðuneyti.

Háskóli Íslands: Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar: Launaliður hækki um 3.5 millj. vegna stundakennslu við skólann sem talin er óumflýjanleg. Aftur á móti lagði skólinn einnig áherslu á að fá heimild til ráðningar kennara til að hefja kennslu í útvegsfræðum. Fjvn. hefur mikinn skilning á þessu máli, en telur að á árinu 1985 þurfi að vinna að undirbúningi málsins m.a. með samræmingu og samstarfi við aðra skóla sem að fiskvinnslu og tækniþróun á þessu sviði vinna. Nefndin ætlar því ekki framlag í þetta verkefni á árinu 1985.

Lagt er til að önnur gjöld hækki um 2.2 millj. kr. og er það til stuðnings við almennan rekstur o. fl. í Háskólanum.

Í frv. eru 57 millj. kr. ætlaðar til viðhalds og stofnkostnaðar allra eigna skólans. Er þessi fjárhæð áætlaður hagnaður af Happdrætti Háskóla Íslands. Húsnæðismál skólans eru af yfirvöldum talin eitt brýnasta verkefnið til úrlausnar. Til þess að leysa yfirvofandi húsnæðiserfiðleika vegna uppsagnar á leiguhúsnæði frá og með hausti 1985 leggur nefndin til að veittar verði 10 millj. kr. til viðhalds svo rýmra verði um verklegar framkvæmdir, en tvær aðalframkvæmdir Háskólans eru nú nýbygging verkfræði- og raunvísindadeildar og nýbygging læknadeildar við Hringbraut.

Málefni Háskóla Íslands og þar með möguleikar skólans að rækja sitt hlutverk hafa komið til athugunar hjá fjvn. nokkrum sinnum á þessu hausti. Áður en Alþingi kom saman í okt. starfaði og undirnefnd fjvn. að nokkrum völdum málefnum, þ. á m. málefnum Háskólans.

Skv. fjárlagafrv. nema heildarútgjöld Háskólans 1985 350 millj. 692 þús. kr., þar af er framlag úr ríkissjóði 278 millj. 236 þús. kr. Í skólanum eru nú skráðir stúdentar um 4250. Þetta jafngildir um 65 þús. kr. fjárveitingu á hvern stúdent. Til fróðleiks athugaði ég hvað hliðstæð fjárveiting væri í öðrum skólum. Í menntaskólum eru þetta 45 þús. kr. og í héraðsskólum 75 þús. kr. á hvern nemanda.

Að síðustu vil ég segja það um málefni Háskóla Íslands að þeirri hugmynd hefur verið skotið fram að fulltrúar til að mynda úr fjvn. og menntamálanefndum Alþingis, frá Háskóla Íslands og frá ráðuneytum settust á rökstóla og fjölluðu um málefni Háskólans. Það er vel við hæfi að hrinda þessu starfi úr vör eftir áramótin, ekki síst vegna þess að Háskólinn hefur látið vinna skýrslu um þróun skólans til næstu ára og á Alþingi hafa orðið umræður um það að háskóladeildir yrðu starfræktar á Akureyri. Nefndin styður þessa hugmynd og er tilbúin að leggja málinu lið.

Tilraunastöð Háskólans á Keldum: Lagt er til að liðurinn hækki um 500 þús. kr. sem skiptist þannig að laun hækka um 350 þús. vegna nýrrar stöðu fisksjúkdómafræðings og önnur gjöld hennar vegna um 250 þús. kr. Á móti eru hækkaðar sértekjur stofnunarinnar um 100 þús.

Raunvísindastofnun Háskólans: Liðurinn Eðlisfræðistofa hækkar úr 4 millj. 364 þús. í 4 millj. 642 þús. til að mæta auknum launakostnaði vegna starfrækslu massagreinis sem stofnunin hefur þegið að gjöf erlendis frá.

Orðabók Háskólans: Önnur gjöld hækki um 300 þús. kr. vegna reksturs tölvukerfis stofnunarinnar. Menntaskólinn við Sund: Lagt er til að stofnkostnaður lækki um 11.2 millj. kr. og verði 400 þús. kr. Er þetta leiðrétting til samræmis við það sem greinir í texta grg. frv.

Menntaskólinn á Egilsstöðum: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 500 þús. kr. vegna hönnunar skólahúsnæðis.

Menntaskólinn í Kópavogi: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 4 millj. kr. sem ætlast er til að menntaskólinn greiði til grunnskóla í Kópavogi vegna yfirtöku menntaskólans á grunnskólahúsnæði. Verður þetta liður í því að standa við samning bæjarstjórnar Kópavogs og menntmrn. varðandi skipti á þessu húsnæði og ásamt öðrum fjárveitingum til grunnskóla í Kópavogi er að fullu staðið við þann samning.

Framhaldsskólar almennt: Lagt er til að liðurinn hækki um 30 þús. kr. sem notaðar verði til þess að ljúka könnun sem hófst á þessu ári á því hvort hagkvæmt sé að efna til fiskvinnsluskóla á siglufirði.

Kennaraháskóli Íslands: Lagt er til að liðurinn hækki alls um 4.3 millj. kr. sem skiptist þannig: laun hækki um 600 þús., viðhald hækki um 400 þús. sem er vegna Æfinga- og tilraunaskólans, lagt er til að stofnkostnaður hækki um 2 millj. og rekstrargjöld um 1300 þús.

Æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskólans: Lagt er til að önnur gjöld hækki um 300 þús. kr. Fjölbrautaskóli Suðurnesja: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 400 þús. kr. og verði 1 millj. sem ætluð er til tækjakaupa.

Framhaldsskóli í Vestmannaeyjum: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 500 þús. kr. og verði 1 millj. sem er vegna tækjakaupa.

Fjölbrautaskólinn á Selfossi: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 6.5 millj. kr. og verði 8.5 millj. kr. Hér er einnig um hreina leiðréttingu að ræða miðað við það sem segir í grg. frv.

Námsgagnastofnun: Lagt er til að önnur gjöld hækki um samtals 900 þús. kr. sem skiptist þannig að til Fræðslumyndasafns verði hækkun um 650 þús. og til liðarins Kennslumiðstöð verði hækkað um 250 þús. kr.

Tækniskóli Íslands: Lagt er til að laun hækki um 500 þús. og verði 21 millj. 698 þús. kr. Er þetta nauðsynleg hækkun til þess að unnt sé að standa við ákvörðun um að stofna nýja deild rekstrariðnfræði við skólann á næsta ári.

Iðnskólinn í Reykjavík: Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Viðhald, sem verði 1800 þús. kr. Iðnskólar almennt: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 800 þús. kr. og verði 4.5 millj. sem skiptist skv. sérstöku yfirliti á þskj. 268.

Hússtjórnarskólar: Lagt er til að viðhald hækki um 1 millj. og verði 3 millj. kr., en þessum lið hefur ekki verið skipt. Rétt er að vekja athygli á því að þetta skólahúsnæði ríkisins er víða hvar í mjög mikilli niðurníðslu.

Héraðsskólar almennt: Lagt er til að gjöld hækki alls um 2.1 millj. kr. sem skiptist með eftirfarandi hætti: Viðhald hækki um 600 þús. kr. og verði 3 millj., stofnkostnaður hækki um 1.5 millj. og verði 9.5 millj. kr. Sundurliðun á stofnkostnaðarfé birtist á sérstöku yfirliti á þskj. 268.

Bygging grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra, framlög: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 16 millj. 368 þús. og verði 116 millj. 368 þús. Sundurliðun kemur fram í brtt. nefndarinnar á þskj. 268.

Heyrnleysingjaskólinn: Lagt er til að viðhald hækki um 270 þús. og verði 445 þús.

Dagvistarheimili: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 4 millj. 901 þús. Sundurliðun kemur fram í brtt. n. á þskj. 268.

Náms- og fræðimenn, framlög: Lagt er til að liðurinn hækki alls um 2 millj. kr. sem skiptist þannig að styrkur til útgáfustarfa hækki um 1 millj. og liðurinn stúdentagarðar, viðhald hækki um 1 millj. og verði 6.5 millj. Er þá ætlast til að unnt sé að ná hagkvæmum verkáfanga í viðhaldi stúdentagarðanna og auka hagkvæmni þeirrar stofnunar í framtíðinni.

Landsbókasafn: Lagt er til að laun hækki um 100 þús. kr.

Listasafn Íslands: Lagt er til að gjöld hækki um 1265 þús. sem skýrist með því að Önnur gjöld hækki um 1 millj. kr., en Sértekjur lækki um 265 þús. kr.

Blindrabókasafn Íslands: Lagt er til að gjöld hækki alls um 1 millj. 244 þús. sem skiptist þannig á gjaldaliði að lagt er til að laun hækki um 380 þús., önnur gjöld um 700 þús., en sértekjur 164 þús. verða felldar niður úr frv. Stofnunin hefur ekki treyst sér til þess að innheimta sértekjur af starfsemi sinni.

Listskreytingasjóður ríkisins: Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 2.7 millj. og verði 3.7 millj. Hér er um hreina leiðréttingu að ræða á útgjöldum frv. miðað við það sem segir í texta í grg. en ekki kom fram í tölum frv.

Listir, framlög: Lagt er til að liðurinn hækki alls um 6 millj. og 210 þús. sem skiptist þannig: Til Leikfélags Reykjavíkur verði hækkað um 1 millj. kr. og verði 4.2 millj. Til Leikfélags Akureyrar verði einnig hækkuð framlög um 1 millj. og verði 3.7 millj. Liðurinn Leiklistarstarfsemi hækki einnig um 1 millj. og verði 3.8 millj. Liðurinn Bandalag ísl. leikfélaga hækki um 100 þús. og verði 500 þús. Liðurinn Önnur leiklistarstarfsemi lækki um 1.1 millj. og verði 1.4 millj. Liðurinn Leiklistarráð hækki um 10 þús. og verði 100 þús. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Alþýðuleikhúsið, er verði 1500 þús. Lagt er til að liðurinn Tónlistarstarfsemi, styrkir hækki um 800 þús. og verði 1.8 millj.

Lagt er til að liðurinn Myndlistarskólar falli niður. Teknir verði upp nýir liðir: Félag ísl. myndlistarmanna er verði 500 þús., Myndlistarskólinn í Reykjavík er verði 1 millj. kr. og Myndlistarskólinn á Akureyri er fái 1.6 millj. kr.

Lista- og menningarmál ýmis: Liðurinn verði hækkaður úr 1.8 millj. kr. í 2.4 millj.

Vísindaleg starfsemi, styrkir: Lagt er til að liðurinn Vísinda- og fræðistörf hækki um 100 þús. kr. og verði 350 þús. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, surtseyjarfélagið, byggingarstyrkur er verði 500 þús. kr.

Bygging íþróttamannvirkja: Lagt er til að liðurinn hækki um 1 millj. 360 þús. og verði 31 millj. 360 þús. kr. Vísað er til sundurliðunar sem birtist á þskj. 268.

Æskulýðsmál: Lagt er til að liðurinn Æskulýðsráð ríkisins hækki um 100 þús. og verði 600 þús. Þá er lagt til að liðurinn Æskulýðssamband Íslands hækki um 20 þús. og verði 140 þús. Liðurinn Ungmennafélag Íslands hækki um 1400 þús. og verði 4.2 millj. Þá er lagt til að liðurinn Bandalag ísl. skáta hækki um 160 þús. og verði 500 þús. Lagt er til að Bandalag ísl. skáta vegna Úlfljótsvatns hækki um 40 þús. og verði 130 þús. Lagt er til að íslenskir ungtemplarar fái hækkun sem nemur 30 þús. og verði 160 þús. Starfsemi KFUM og KFUK: Lagt er til að liðurinn hækki um 80 þús. og verði 280. Lagt er til að liðurinn Alþjóðaár æskunnar hækki um 100 þús. og verði 750 þús.

Ýmis íþróttamál: Lagt er til að liðurinn Íþróttamál fatlaðra hækki um 175 þús. kr. og verði 850 þús. Liðurinn Farkennsla í íþróttum hækki um 30 þús. og verði 75 þús. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, þrekþjálfun ungmenna 1985 200 þús. kr. Hér er um að ræða samstarfsverkefni á vegum Evrópulanda sem efnt er til af hálfu Evrópuráðsins. Lagt er til að liðurinn skáksamband Íslands hækki um 80 þús. kr. og verði 210 þús. Þess má geta að Skáksamband Íslands verður 60 ára á næsta ári. Liðurinn Alþjóðaskákmót, styrkir hækki um 30 þús. og verði 160 þús.

Húsfriðun, byggða- og minjasöfn: Lagt er til að liðurinn hækki alls um 1587 þús. kr. og verði skipt af fjvn. með sérstöku yfirliti. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Torfusamtökin 700 þús. kr., og er þar um lokagreiðslu að ræða til þessara samtaka.

Liðurinn 999, Ýmislegt: Lagt er til að liðurinn hækki alls um 1300 þús. kr. Vísað er um skiptingu til brtt. nefndarinnar á þskj. 268. Þó má geta þess að liðurinn Landssamband hjálparsveita skáta hækkar um 150 þús. og verður 700 þús. kr. Liðurinn Landakotsskóli, rekstrarstyrkur hækkar um 160 þús. og verður 1 millj. Liðurinn Hlíðardalsskóli, rekstrarstyrkur hækkar um 120 þús. og verður 1200 þús. Enn fremur er lagt til að inn verði tekinn nýr liður, Viðhald á Hlíðardalsskóla, sem verði 300 þús. kr. Að öðru leyti vísast til skiptingar á þskj. 268.

Utanríkisráðuneyti.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands: Lagt er til að gjöld hækki um 7.5 millj. kr. og verði 20.5 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir að hægt verði að standa við þau verkefni sem Ísland hefur gert samkomulag um við aðrar þjóðir.

Landbúnaðarráðuneyti.

Jarðeignir ríkisins: Lagt er til að gjöld hækki um 1200 þús. kr. og verði 6 millj. 105 þús. Er þetta til að standa straum af lögákveðnum greiðslum vegna ábúðarskipta á jörðum.

Jarðasjóður: Lagt er til að gjöld hækki um 470 þús. og verði 900 þús.

Búnaðarfélag Íslands: Lagt er til að gjöld hækki um 370 þús. og stafar þessi hækkun af því að tekinn er upp nýr liður, Landþurrkun, sem verður 370 þús. kr. Sundurliðun birtist á sérstöku yfirliti á þskj. 268. Þessi liður var felldur niður í frv. til fjárlaga, en hefur verið inni á fjárlögum í fjölda ára.

Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum: Lagt er til að laun hækki um 2 millj. 240 þús. Er þetta gert til þess að hægt sé að standa við ákvæði laganna að fullu um laun allt að 60 starfsmanna við þessa þjónustu.

Skógrækt ríkisins: Lagt er til að liðurinn hækki um 800 þús. kr. og skiptist hækkunin þannig: Liðurinn Eignakaup hækkar um 500 þús. kr., Tilraunir með rótarskóga um 50 þús. kr. og framlög til nytjaskóga hækki um 250 þús. kr.

Veiðimálaskrifstofan: Til Laxeldisstöðvar ríkisins í Kollafirði: Lagt er til að liðurinn hækki alls um 1350 þús. kr. sem skiptist þannig að 850 þús. gangi til endurgreiðslu lána vegna borunarframkvæmda í Kollafirði, en 500 þús. kr. til kaupa á súrefnistæki til stöðvarinnar.

Landgræðslu- og landverndaráætlun: Liðurinn hækkar alls um 19 millj. 694 þús. kr. og verður 37 millj. 694 þús. Um skiptingu á þessu fé vísast til brtt. nefndarinnar á þskj. 268. Með þessari hækkun framlagsins er staðið við ályktun Alþingis frá 1982, en sú ályktun byggðist á tillögum nefndar sem í áttu sæti fulltrúar frá öllum þingflokkum og frá landbrn.

Bændaskólinn á Hvanneyri: Lagt er til að liðurinn hækki alls um 1 millj. 550 þús. sem skiptist þannig að viðhald hækkar um 650 þús., en stofnkostnaður um 900 þús. og er það til byggingar loðdýrahúss.

Bændaskólinn á Hólum: Liðurinn hækkar alls um 2 millj. kr. Lagt er til að liðurinn laun hækki um 500 þús. kr. vegna starfsmanns við loðdýrabú og skrifstofumanns, en stofnkostnaður hækki um 1 millj. 500 þús. kr. til að ljúka byggingu starfsmannaíbúða.

Garðyrkjuskóli ríkisins: Lagt er til að viðhald gróðurhúsa hækki um 400 þús. kr.

Sjávarútvegsráðuneyti.

Ríkismat sjávarafurða: Lagt er til að liðurinn hækki alls um 4 millj. 283 þús. kr. Þar af hækki laun um 4 millj. 592 þús. og önnur gjöld um 6 millj. 209 þús. Sértekjur verði hins vegar hækkaðar á móti um 6 millj. 518 þús. Þessi stofnun hefur verið til sérstakrar athugunar, m.a. hjá hagsýslustofnun ríkisins, og er talið að með þessum hækkunum komist hún á raunhæfan grundvöll þannig að ætla megi að bæði tekjur og gjöld verði í samræmi við fjárlög.

Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi: Lagt er til að gjöld hækki um 2.5 millj. kr. vegna liðarins Sjóvinnukennsla sem hækkar úr 500 þús. kr. í 3 millj. Hér er um að ræða samstarfsverkefni þriggja stofnana, Fiskifélags Íslands, líffræðideildar Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Gert er ráð fyrir að verja þessu fé þannig að 1 millj. kr. gangi til stofnkostnaðar við kaup á 15 tonna bát, en 1.5 millj. er fyrirhugað að nota til reksturs á þessum báti til sjóvinnukennslu og grunnsævisrannsókna á vegum þessara samstarfsaðila.

Dómsmálaráðuneyti.

Sýslumaður og bæjarfógeti, Selfossi: Lagt er til að laun hækki um 350 þús. og verði alls 20 millj. 373 þús. Hér er um leiðréttingu að ræða til þess að taka inn einn starfsmann við embættið sem fallið hafði niður í sambandi við endurskoðun þess nú á þessu ári.

Rétt er að vekja athygli á því að embætti sýslumanna og bæjarfógeta hafa verið til sérstakrar athugunar fyrir gerð þessara fjárlaga og í fjárlagafrv. eru þessi embætti sett á, að því er talið er, raunhæfan grundvöll, þannig að þau geti haldið starfsemi sinni gangandi miðað við fjárlagaáætlun og haldið henni aðskyldri frá innheimtu embættanna sem skilist þá jafnóðum til ríkissjóðs.

Dómsmál, ýmis starfsemi: Lagt er til að gjöld hækki um 25 þús. kr. vegna liðarins Orator, almenn lögfræðiaðstoð sem hækkar í 80 þús. kr.

Biskup Íslands: Lagt er til að gjöld hækki alls um 300 þús. kr. vegna viðfangsefnisins Æskulýðsstarfs sem hækkar í 2 millj. 156 þús. og er gert ráð fyrir stöðu æskulýðsfulltrúa á Austurlandi.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar: Önnur gjöld hækki um 150 þús. kr.

Prestaköll og prófastsdæmi: Lagt er til að liðurinn Byggingar á prestssetrum hækki um 1.5 millj. og verði 5.5 millj.

Ýmis kirkjuleg málefni: Lagt er til að liðurinn hækki um 699 þús. Um skiptingu á einstaka liði vísast til brtt. nefndarinnar á þskj. 268.

Félagsmálaráðuneyti.

Vatnsveitur: Lagt er til að liðurinn hækki um 3 millj. kr. og verði 8 millj. sem er þó lægra en í fjárlögum yfirstandandi árs.

Málefni fatlaðra: Lagt er til að gjöld hækki um 400 þús. kr. vegna þess að nýr liður, Starfsþjálfun, verður tekinn upp.

Málefni fatlaðra í Reykjavík: Lagt er til að gjöld hækki um 747 þús. vegna þess að tekinn er upp nýr liður, Verndaður vinnustaður.

Málefni fatlaðra á Vesturlandi: Lagt er til að gjöld hækki um 789 þús. er skiptist þannig að tekinn er upp nýr Íiður, Verndaður vinnustaður, með fjárveitingu nettó upp á 537 þús. kr. og liðurinn Sambýli á Akranesi hækki um 252 þús. kr., en þar er um mikla erfiðleika að ræða í sambandi við vistun tiltekinna einstaklinga.

Málefni fatlaðra á Norðurlandi eystra: Lagt er til að gjöld hækki um 4 millj. 68 þús. Hækkun þessi stafar af því að tekinn er upp nýr liður, Sumarbúðir í Botni, með fjárveitingu upp á 900 þús. kr. Liðurinn Svæðisstjórn hækkar um 380 þús. og sértekjur á liðnum Verndaður vinnustaður Hrísalundi lækki um 2 millj. 788 þús. kr. Þar er um hreina leiðréttingu að ræða vegna mistaka í prentun eða setningu frv.

Málefni fatlaðra á Austurlandi: Lagt er til að gjöld hækki um 700 þús. kr. vegna liðarins Sambýli á Egilsstöðum og er þetta hækkun á launalið vegna þess m.a. að þar hefur verið tekinn inn til vistunar sérstaklega erfiður einstaklingur.

Málefni fatlaðra á Suðurlandi: Lagt er til að liðurinn Svæðisstjórn hækki um 283 þús. kr.

Liðurinn 999, félagsmál, ýmis starfsemi: Lagt er til að gjöld hækki um 2.9 millj. kr. Um skiptingu á einstaka liði vísast til brtt. nefndarinnar á þskj. 268.

Landlæknir: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti: Lagt er til að laun hækki um 500 þús. kr. sem stafar af því að landlæknir er í fríi og settur landlæknir hefur þurft að taka sér aðstoðarmann.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands: Lagt er til að önnur gjöld hækki um 150 þús. kr. vegna hækkunar á húsaleigu.

Sjúkrahús og læknisbústaðir: Lagt er til að stofnkostnaður hækki alls um 22.1 millj. kr. sem skiptist þannig að liðurinn Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknabústaða hækki um 3.1 millj. og verði 103.1 millj. kr.

Tekinn verði upp nýr liður, Hjúkrunarheimili aldraðra, og verði hann 14 millj. kr. og er sú úthlutun í samræmi við frv. sem lagt hefur verið fyrir Alþingi af hæstv. heilbr.- og trmrh. þar sem gert er ráð fyrir að hluti af því fé sem áður hefur verið úthlutað af stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra verði nú úthlutað af Alþingi.

Í þriðja lagi er nýr liður, Sjúkrahús St. Franciskusarreglunnar í Stykkishólmi, byggingarstyrkur 5 millj. kr. Að öðru leyti vísast til sundurliðunar í brtt. nefndarinnar á þskj. 268.

St. Jósefsspítali, Landakoti: Lagt er til að launaliður hækki um 920 þús. kr., verði 193 millj. 722 þús., og er hér um hreina leiðréttingu að ræða.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri: Lagt er til að stofnkostnaður hækki úr 5.5 millj. í 21 millj. kr. sem skýrist af því að framlag til stofnkostnaðar sjúkrahússins er nú flutt af liðnum Sjúkrahús og læknisbústaðir og fært á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem er sérstakur liður í fjárlögum.

Heilbrigðismál, ýmis starfsemi: Liðurinn hækkar samtals um 5 millj. Um skiptingu á þessu fé vísast til brtt. n. á þskj. 268. Þess má geta að inn á þennan lið koma þrír nýir liðir, þ.e. Kvartananefnd með 100 þús., liðurinn Útbreiðsla atvinnusjúkdóma 250 þús. og Krabbameinsfélag Íslands, fræðslumál með 500 þús. kr.

Bindindisstarfsemi: Lagt er til að liðurinn Stórstúka Íslands hækki um 75 þús. kr. og verði 400 þús. kr. Skólar heilbrigðisstétta: Lagt er til að gjöld hækki um 713 þús. vegna þess að tekinn er upp nýr liður, Ljósmæðraskóli Íslands. Hér er um að ræða tilfærslu frá liðnum Ríkisspítalar, þjónustudeildir þannig að breyting þessi leiðir ekki til hækkunar á frv.

Vitastofnun Íslands: samgönguráðuneyti. Lagt er til að önnur gjöld hækki um 4.2 millj. kr., en hér er um leiðréttingar á frv. að ræða.

Hafnamál: Lagt er til að gjöld hækki alls um 28 millj. 525 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig: Liðurinn Ferjubryggjur hækkar um 300 þús. kr. og verður 3.3 millj. Liðurinn Hafnarmannvirki og lendingarbætur hækkar um 14 millj. kr. og verður 69 millj. kr. Sundurliðun birtist á sérstöku yfirliti á þskj. 268. Liðurinn Landshafnir, endurgreiðslur lána hækkar um 10 millj. kr. og verður 13.9 millj. Liðurinn Landshöfnin á Rifi hækkar um 1.5 millj. og verður 3 millj. og liðurinn Sjóvarnargarðar hækkar um 2 millj. 725 þús. kr. og verður 9 millj. 725 þús. kr. Rétt er að vekja athygli á því að inn á þennan lið færast 1375 þús. kr. af fé landgræðslu- og landverndaráætlunar þannig að liðurinn Sjóvarnargarðar verður í heild 11.1 millj. kr. Sundurliðun birtist í sérstöku yfirliti á þskj. 268.

Sjóslysanefnd: Lagt er til að gjöld hækki um 130 þús. kr. sem skiptist á tvo nýja liði, Hönnun björgunarbúnaðar Sigmunds Jóhannssonar 80 þús. kr. og Björgunarnetið Markús, fræðslukvikmynd 50 þús. kr.

Flugmálastjórn: Lagt er til að gjöld hækki um 6 millj. kr. vegna hækkunar á liðnum Flugvellir, framkvæmdir er verði þá samtals 61 millj. kr. Sundurliðun yfir fé til framkvæmda í flugvöllum birtist á sérstöku yfirliti á þskj. 268.

Ýmis framlög: Lagt er til að gjöld hækki um 200 þús. kr. sem skiptist þannig að lagt er til að liðurinn Fræðsluefni um öryggismál sjómanna hækki um 50 þús. kr. og verði 400 þús. og liðurinn Flugbjörgunarsveitir hækki um 150 þús. og verði 600 þús. kr.

Veðurstofa Íslands: Lagt er til að gjöld hækki alls um 5 millj. 842 þús. kr. og er þar um verulegar leiðréttingar að ræða og eru þær leiðréttingar til komnar eftir sérstaka athugun sem gerð hefur verið í meðferð fjárlagafrv., m.a. af fjárlaga- og hagsýslustofnun ríkisins. Skipting þessa fjármagns á einstaka liði kemur fram á sérstöku yfirliti í brtt. n. á þskj. 268.

Fyrirtæki og stofnanir, framlög: Iðnaðarráðuneyti. Lagt er til að gjöld hækki um 4 millj. 500 þús. kr. og er það vegna þess að tekinn er upp nýr liður, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Gert er ráð fyrir að þetta fé renni til sérstaks samstarfsverkefnis við utanrrn. og Iðnþróunarsjóð til að standa straum af kostnaði við stöðu viðskiptafulltrúa í New York og Færeyjum. Er gert ráð fyrir að hér sé um að ræða eins árs verkefni til reynslu sem síðan framlengist í tvö ár ef talið er að það gefi jákvæðan árangur.

Iðja og iðnaður, framlög: Lagt er til að gjöld hækki um 2 millj. kr. og skiptist hækkunin þannig, að liðurinn Iðnsaga Íslands hækkar um 1.5 millj. og verður 2 millj. Hér er um hreina leiðréttingu að ræða til samræmis við það sem segir í texta grg. frv. Reiknað er með að hér sé um að ræða verkefni er taki allt að fimm til sex ár. Þá er einnig tekinn upp nýr liður, Kynning á íslenskum iðnaðarvörum, og er lagt til að til hans verði varið 500 þús. kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir brtt. fjvn. við frv. til fjárlaga við þessa umr.