17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft þörfu máli og vil ég taka undir margt af því sem hér hefur komið fram og þakka hv. flm. fyrir framlagningu þess.

Núverandi þjóðfélag gerir foreldrum ekki kleift að vera heima og annast sín börn nema að mjög takmörkuðu leyti. Verður því að huga að uppbyggingu á dagvistarheimilum fyrir börn meira en orðið hefur undanfarin ár og nægja þar ekki fögur fyrirheit. Það þarf fjármagn til að koma þessum húsum upp. En ég vil undirstrika það, sem kom fram hjá hv. flm. og kemur fram í grg. með frv., að það þarf ekki að reisa íburðarmikil mannvirki. Það hefur einmitt verið gallinn undanfarið að það virðist hafa verið lagt kapp á það í þessum efnum eins og öðrum, þegar um opinberar byggingar er að ræða, m.a. heilsugæslustöðvar, að hafa þetta sem stærst og dýrust hús vegna þess að það er kostað af einhverjum öðrum en fólkinu sem tekur ákvarðanirnar um það hvernig byggingin skuli vera. Og hvað hefur valdið því? Hvort við teiknistofurnar er að sakast, sem hanna viðkomandi hús, eða að arkitektarnir fái prósentur af því að hafa byggingarnar nógu dýrar, eða það eru byggingaraðilarnir sem framkvæma verkið, skal ég ekkert um segja, en mér finnst það mjög brýnt atriði að athuga þessi mál. Ég hef m.a. heyrt þá sögu, og ég ætla að segja hana hér, að þak á einni slíkri byggingu hafi verið álíka dýrt og heilt dagvistarheimili á öðrum stað. Þetta er kannske ýkt dæmi, en þessu er samt haldið fram. En höfuðverkurinn hlýtur ávallt að vera hvar á að ná í fjármagnið. Vil ég í því sambandi taka undir orð flm. um uppbyggingu seðlabankahallar og annað slíkt. Þar vil ég að sé skorið niður og klipið af fjármagni fremur en frá vegagerð. Ég er landsbyggðarmanneskja og kannast við hvað það er þreytandi að keyra sífelldar holur og þurfa að láta skipta um pústkerfi undir bílnum tvisvar, þrisvar á ári. Það er líka dýrt. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að bæta vegakerfið. Og við hefðum kannske efni á að byggja fleiri barnaheimili ef við værum með betri vegi. Við verðum því að íhuga vel hvar við skerum niður og hv. flm. fær mig ekki til að taka undir það með sér að skerða vegagerðarframlagið.

En af lestri mínum á fjárlagafrv. í gærkvöld minnist ég þess að lækkun á sköttum bankanna nemur einhvers staðar nálægt 100 millj. kr. Ég gæti bent á það, þó ég fari kannske ekki með nákvæmlega rétta upphæð, að hugsanlegt væri að fella niður þau ákvæði sem samþykkt voru á síðasta þingi varðandi skattlagningu bankakerfisins og veita því fé sem þannig fengist beint til þessara framkvæmda.

En ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni að ég er ekki tilbúin að taka afstöðu til vissrar prósentuákvörðunar af fjárlögum í þessu skyni. Þá fáum við bara til baka, eins og hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan benti á, þá fáum við bara ákvæði í lánsfjárlögum sem breyta þessari prósentu, þannig að það er til lítils unnið. Það er hugsunin á bak við þessi mál, hvað þarf og hvað við getum lagt mikið í þau, sem verður að liggja til grundvallar.