13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

1. mál, fjárlög 1985

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka samstarfsfólki mínu í fjvn., ritara og svo starfsfólki fjárlaga- og hagsýslustofnunar fyrir gott og ánægjulegt samstarf.

Þegar mælt var fyrir frv. til fjárlaga á s.l. ári var það talið raunhæft aðhalds- og sparnaðarfrv. af hæstv. ríkisstj. Annað kom á daginn fljótlega eftir að frv. varð að lögum. Það vantaði hvorki meira né minna en 2200 millj. til að endar ríkisfjármálanna næðu saman. Þetta er dágóð fjárupphæð sem mundi nægja til að byggja fjögur útvarpshús sambærileg við það sem nú er í byggingu, en flestum finnst nóg um stærð þess og íburð. Mestum hluta þessarar fjárvöntunar var mætt með erlendri lántöku, enda fokið í flest skjól á innlendum lánamarkaði.

Í frv. til fjárlaga sem hér er til umr. segir í aths. að það sem af er starfstíma núv. ríkisstj. hafi mikið áunnist á sviði efnahagsmála. Ekki standast þessi orð tímans tönn. Það eru ekki nema tveir mánuðir síðan þetta frv. var lagt fram. Samt eru allar forsendur þess brostnar vegna gengisfellingar og aukinnar verðbólgu. Ekki er því hægt að taka stefnuyfirlýsingar hæstv. fjmrh. alvarlega þar sem þær standast ekki nema að hámarki í tvo mánuði.

Í aths. segir enn fremur að í fjárlögum yfirstandandi árs hafi verið gripið til ýmissa sparnaðarráðstafana í rekstri hins opinbera. Því miður hefur umtalsverðum sparnaði ekki verið náð, enda er sjálfvirkni í fjárlagagerð með sama hætti ár eftir ár. BJ leggst eindregið gegn sjálfvirkni sem ræður gerð fjárlaga og telur að leita verði færra leiða til að endurskoða mikilvægi ýmissar starfsemi sem ríkið hefur nú um hönd. Þessari endurskoðun verður ekki einvörðungu við komið við gerð fjárlaga heldur þarf að verða stefnubreyting af hálfu ríkisvaldsins. Við teljum nauðsynlegt að setja sólarlagsákvæði í lög sem krefjast útgjalda úr ríkissjóði. Með þessu er ég ekki að segja að lög um stóra málaflokka eins og lög um málefni aldraðra, fatlaðra, öryrkja eða almannatrygginga þurfi að vera í árlegri endurskoðun. Ég á við að nokkrir útgjaldaþættir væru teknir sérstaklega fyrir á hverju ári og skoðaðir til hlítar, hvernig fjármagni almennings hefur verið varið, hvort breyta megi eða bæta eða hreinlega leggja starfsemi niður.

BJ hefur lagt fram nokkrar þáltill. á yfirstandandi þingi um starfsemi á vegum ríkisins sem við teljum að megi leggja niður sem ríkisfyrirtæki. Eitt af þessum fyrirtækjum er Ríkismat sjávarafurða. Á næsta ári er gert ráð fyrir að útgjöld úr ríkissjóði vegna þessarar starfsemi muni nema yfir 40 millj. kr. Í brtt. leggjum við þm. BJ til að sértekjur Ríkismats sjávarafurða verði tífaldar frá því sem þær eru í frv. Þessar sértekjur næmu samt sem áður ekki helmingi af rekstrarkostnaði viðkomandi stofnunar. Enn fremur leggjum við til að útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir verði skertar um 20% og því fé varið til eflingar á rannsóknum í þágu fiskiræktar og menntunar vegna breytinga á atvinnuháttum. Eins og öllum er kunnugt hefur atvinnuleysi aukist verulega á s.l. ári eða um 33%. Mikilvægt er að því fólki sem þess óskar gefist kostur á viðbótarmenntun í sínum heimabyggðum. Það mundi auðvelda því að taka þátt í uppbyggingu nýrra atvinnuvega.

Í málefnum fatlaðra hafa orðið umtalsverðar framfarir á undanförnum árum sem ekki ber að vanmeta. En þörfin er mikil og allar úrbætur kostnaðarsamar. Fé til Framkvæmdasjóðs fatlaðra er í frv. skorið verulega niður frá lögbundnu framlagi, en það leiðir af sér að framkvæmdir í þágu fatlaðra dragast mjög saman verði ekki úr bætt.

Einn liður öðrum fremur leggjum við til að verði verulega hækkaður umfram aðra varðandi málefni fatlaðra, en það er liðurinn vegna 10. gr. laga um málefni þroskaheftra. Þar er gert ráð fyrir greiðslu til foreldra eða forráðamanna fattaðra barna upp að 18 ára aldri sem búa heima. Það er óumdeilanlegt að mjög æskilegt er að fötluð börn geti dvalið á sínum heimilum sé þess nokkur kostur vegna aðstæðna. Er því mjög mikilvægt að létt sé undir með fjárframlögum til þeirra fjölskyldna sem hafa fötluð börn á sínu framfæri, enda þurfa þau mun meira eftirlit og umönnun en heilbrigðir einstaklingar.

Með brtt. leggjum við til að þessi liður hækki úr 10 millj. og 900 þús. í 20 millj. kr. Enn fremur teljum við mikilvægt að breyta áherslu varðandi fleiri liði þótt þess gefist ekki kostur hér og nú.

Með því að gera fjölskyldu og einstaklingum fjárhagslega kleift að hafa fattaða eða aldraða heima, sem þess óska, gerum við þörfina fyrir stofnanir minni og einstaklingana ánægðari með sitt hlutskipti. Framlag til dagvistarstofnana er eitt af því sem hefur hlotið verulegan niðurskurð. Þar sem vöntun á dagvistarrýmum er veruleg teljum við í BJ að ekki verði við það unað að ganga svona freklega á þessi framlög. Í dag barst bréf frá hæstv. borgarstjórn í Reykjavík þar sem þessu er harðlega mótmælt. Standa því vonir til að hæstv. ríkisstj. taki mark á borgarstjóra, eða svo má a.m.k. ætla þar sem hæstv. fjmrh. og borgarstjóri eru samflokka. Við leggjum til að þessi hækkun verði úr 30 millj. kr. í 50 millj.

Á sama hátt og sértekjur Ríkismats sjávarafurða eru tífaldaðar í okkar till. leggjum við til að Búnaðarfélag Íslands fái sömu meðferð, þ.e. að sértekjur hækki í 16 millj. 970 þús. Samt sem áður verður framlag úr ríkissjóði 7 millj. 194 þús. kr. Við teljum raunhæft að þjónusta, sem þessar stofnanir veita, sé verðlögð í samræmi við það sem hún kostar. Hér er aðeins gengið stutt skref í þá átt.

Í frv. er rekstrarfé skorið niður til ýmissa skóla og heilbrigðisstofnana. Þetta tel ég í hæsta máta óraunhæft á sama tíma og framlög til aðalskrifstofu ráðuneyta, Hagstofu Íslands, ríkisendurskoðunar og fjárlaga- og hagsýslustofnunar hækka að meðaltali um 10% að raungildi. Það er ekki nokkur von til þess að þjóðartekjur nægi fyrir útgjöldum eða dregið verði verulega úr erlendri skuldasöfnun með slíkum hætti.

Ef frv. er fram sett skv. reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins munu erlendar lántökur aukast á milli áranna 1984 og 1985 um 75.9%. Halli á ríkissjóði mun áætlaður eftir sömu framsetningu 3 milljarðar 183 millj. Það er ekki ofsögum sagt að hæstv. ríkisstj. hefur misst alla stjórn á fjármálum ríkisins og stefna hennar hrunið til grunna.

Við þessar aðstæður situr fjvn. og reynir að fylla göt og eyður. Ég skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem því fylgir að sitja í þeirri nefnd. Við í BJ leggjum áherslu á að einstaklingum og samtökum þeirra, hvort sem er á sviði sveitarstjórna, viðskipta- eða áhugafélaga, verði með breytingum á stjórnarháttum gert mögulegt að sinna áhugaefnum sínum og skyldum án þess að eiga allt sitt að sækja undir pólitískt duttlungavald.

Við afgreiðslu fjárlaga á s.l. ári lögðum við í BJ fram allmargar brtt. sem allar mætti flytja aftur við þetta frv. En þar sem við teljum að ef ætti að gera viðunandi breytingar við þetta frv., sem hér liggur fyrir, þyrfti að vinna það allt upp á nýtt, en það er ekki á færi stjórnarandstöðu að koma slíku fram, látum við það ógert.

Á síðasta þingi svo og á yfirstandandi þingi hafa nýjungar í atvinnuháttum oft komið til umr. Allir hafa virst vera því sammála að eitthvað þyrfti að gera til að auðvelda einstaklingum og hvetja þá og samtök þeirra til að hefja nýja atvinnustarfsemi. Lítið hefur verið gert af hálfu hæstv. ríkisstj. til að sinna þessum þáttum. BJ leggur fram tvær brtt. við 6. gr. frv. Við liðinn „ríkisstjórninni er heimilt“ bætist nýr liður, 1.4, sem orðist svo:

Að greiða iðnþróunarsjóðum í landshlutum upphæð sem svarar framlagi sveitarfélaga til hvers sjóðs. Framlag ríkissjóðs til Byggðasjóðs skerðist sem þessu nemur.

Iðnþróunarsjóði landshluta þarf að efla og styrkja og fer vel á því að efla byggðastefnu með því móti að heimamenn á hverjum stað hafi meira um það að segja til hvaða verkefna þeir telja fjármunum sínum vel varið.

Enn fremur leggjum við til að nýr liður bætist við 6. gr. frv., 7.4, undir liðnum Ýmsar heimildir og orðist svo:

Fjmrh. er heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs áhættulán til nýrra fyrirtækja í iðnaði. Ábyrgðir þessar nemi allt að 80% af lánsupphæðum. Iðnrn. setji nánari reglur um ábyrgðir þessar.

Með flutningi till. þessarar viljum við undirstrika þörf þess að efla atvinnulíf með stuðningi við stofnun og rekstur smáfyrirtækja. Þar sem 6. gr. er ekki frágengin í meðferð fjárlaga mun ég ekki fara nánar út í þetta og hyggst því draga þessar till. til 3. umr.

Ég hef látið æði margt ósagt við þessa umr., enda er frv. ekki fullfrágengið. Lánsfjáráætlun liggur ekki fyrir. Launaforsendur frv. eru í engu samræmi við þarfir launþega. Ég ætla ekki að halda eins langa tölu og hæstv. ræðumaður sem á undan mér talaði og lýk máli mínu með þeirri von að till. BJ fái jákvæða athugun og raunsæi og velvilja.