13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

1. mál, fjárlög 1985

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mikil vinnuskorpa fjvn. er nú senn á enda. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öðrum nm. samstarfið, sérstaklega formanni okkar, sem stjórnað hefur erfiðu verki af festu, sanngirni og lipurð, svo og öllum þeim sem aðstoðað hafa n. þær vikur sem hún hefur setið að störfum svo til hvern einasta nýtan dag. Þeir sem meiri hl. skipa geta víst einnig minnst næturfunda.

Ólíklegt þykir mér að hv. fjvn. Alþingis hafi nokkru sinni fundist hún hafa nóg til skiptanna á hin ýmsu verkefni, framkvæmdir og rekstrarliði sem undir ríkissjóð heyra. En víst er að nú er þrengra í búi en oftast áður síðustu tvo áratugina a.m.k., ýmist af óviðráðanlegum orsökum eða mannavöldum. Enn um sinn súpum við seyðið af fjárfestingarmistökum fyrri ára þar sem Kröfluævintýri og offors í virkjanaframkvæmdum binda okkur þyngstu skuldabaggana.

Um 5 milljarðar kr. eru greiddir í vexti af öllum erlendum skuldum á þessu ári, þar sem hið opinbera hefur um 2/3 hluta á sínum herðum. Enn eitt árið horfum við fram á nokkrar þrengingar í þjóðarbúskapnum og útlit ótryggt þótt horfur séu á að botni hafi nú verið náð í hagsveiflunni svo vitnað sé beint í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1985. Freistandi væri að fjalla allítarlega um það merka skjal sem þjóðhagsáætlun nefnist. Að öllu samanlögðu er nefnilega í henni fólgin töluverð bjartsýni sem okkur veitir sannarlega ekki af á þessum síðustu og verstu tímum. Því miður er þó raunsæið oft látið lönd og leið í því plaggi og veikir það auðvitað trúna á að þessi bjartsýni styðjist við raunhæfar forsendur, auk þess sem forsendur hafa breyst verulega frá því að þessi áætlun var lögð fram. Ég vil aðeins vekja athygli á einum kafla þjóðhagsáætlunar sem ber yfirskriftina „Atvinnuöryggi“. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Áætlað er að hlutfall þeirra, sem skráðir eru atvinnulausir á þessu ári, verði að meðaltali rúmlega 1% af mannafla ef ekki koma til meiri háttar truflanir á síðustu mánuðum ársins. Þessi hundraðstala atvinnulausra er með þeim allra lægstu sem þekkjast í nálægum löndum. Reyndar má segja að í vor og sumar hafi mátt sjá ýmis merki um umframeftirspurn á vinnumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að þegar á heildina er litið hefur tekist að tryggja viðunandi atvinnuástand. Ríkisstj. setur áframhaldandi atvinnuöryggi sem meginmarkmið í efnahagsmálum á næsta ári.“

Ekki er ég viss um að margir vilji taka undir það að tekist hafi að tryggja viðunandi atvinnuástand, svo sem hér segir. Það gera a.m.k. ekki þeir fjölmörgu og að miklum meiri hluta konur, sem bætast í hóp atvinnulausra þessa dagana. Hér er talað um 1% atvinnulausra og hælst um að sú hundraðstala sé með þeim lægstu sem þekkjast. En 1% er mikið á Íslandi, mjög mikið. Þegar við minnumst þess að fjöldi atvinnulausra var um árabil 0.3–0.5% fer glansinn af lágu hundraðstölunni. Fjöldi atvinnulausra hefur aukist um 100% á örfáum árum og það er alvarleg þróun. Við höfum engin efni á því að nýta ekki starfskrafta vinnufúsra manna. Þá staði, sem nú búa við 20% atvinnuleysi og þar yfir, varðar ekki nokkurn skapaðan hlut um meðaltöl, það eitt er víst.

Ráðleysi og máttleysi núv. ríkisstj. til uppbyggingar í atvinnulífinu er verulegt áhyggjuefni og furðulegt hversu illa hún hefur nýtt það ráðrúm, sem almennt launafólk gaf henni með því að taka á sig stórfelldar kjaraskerðingar í von um að með því legði það sitt af mörkum til að byggja upp betri framtíð. Því miður ber frv. til fjárlaga 1985 þess lítil merki að ríkisstj. hyggi á átak í þessum efnum.

Á landsfundi Kvennalistans 3.–4. nóv. s.l. var samþykkt svohljóðandi ályktun, með leyfi forseta: „Landsfundur Kvennalistans ályktar að gera þurfi stórátak til eflingar íslenskum atvinnuvegum og skorar á stjórnvöld að efna til samráðs atvinnuveganna í hverjum landsfjórðungi þar sem fulltrúar atvinnuveitenda, verkalýðsfélaga, skóla, rannsóknastofnana, samtaka sveitarfélaga og aðrir aðilar vinnumarkaðarins komi saman og geri heildarúttekt á aðstæðum í hverjum landsfjórðungi og marki langtímastefnu í atvinnumálum þar sem skammtímalausnir víki fyrir aðgerðum til raunverulegra úrbóta, hagræðingar og endurskipulagningar. Við hvetjum til þess að leitað sé lausna í verki, en pappírslausnahaugum hent.“

Þetta hefði raunar þurft að gera strax fyrir ári þegar ljóst var að um mikinn samdrátt yrði að ræða í sjávarútvegi. En betra er seint en aldrei. Þessu kem ég hér með á framfæri því að mér vitanleg.a hefur þessi ályktun hvergi birst opinberlega nema í fréttabréfi Kvennalistans þótt hún væri á sínum tíma send öllum dagblöðum og ríkisfjölmiðlunum ásamt ýmsum öðrum ályktunum landsfundarins, sem einnig virðast hafa dottið niður á milli stóla. Er það þeim mun leiðara sem ýmsir hafa kosið að halda því fram í ræðum og rituðu máli að Kvennalistinn hafi engan áhuga á atvinnumálum landsmanna.

Um tekjuhlið frv. til fjárlaga er best að hafa sem fæst orð, enda ekki öll kurl komin til grafar þeim megin á reikningnum. Stöðugar vangaveltur um mikinn eða lítinn halla á fjárlögum eru í rauninni út í hött þar eð hér er ekki um heildardæmi að ræða. Lánsfjárlögin fylla upp í það dæmi og enn einu sinni er sá ósiður viðhafður að fjalla um þau eftir afgreiðslu fjárlaga og meira að segja er ekki enn búið að leggja lánsfjáráætlun fram og ekkert um hana vitað þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Við 1. umr. vakti ég athygli á því að skv. vinnuplaggi fjmrn., sem lagt var fram daginn áður, væri gert ráð fyrir 600 millj. kr. hækkun söluskatts frá því sem boðað var í frv. til að mæta tekjutapi ríkissjóðs af lækkun tekjuskattsins. Ég spurði hæstv. fjmrh. hvað orðið hefði um þau áform. Í svari sínu sagði hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi forseta:

„En það hefur verið horfið frá því. Þær 600 millj. verða ekki innheimtar þannig að söluskattshækkunin verður ekki, en 600 millj. tekjuskattslækkun verður. Ég vil bara leiðrétta það.“

Tveimur vikum síðar var svo þessi leiðrétting leiðrétt og staðhæfingin að engu orðin þar sem stjórnarflokkarnir ákváðu að hækka söluskattinn um 0.5% til að mæta halla ríkissjóðs að hluta. Að vísu reyna menn að klóra í bakkann þar sem þeim svelgist greinilega á fyrri fullyrðingum og skil ég vel erfiðleika t.d. hv. þm. Gunnars Schram í þeim efnum. Menn segja að þessi ráðstöfun sé vegna endurgreiðslu söluskatts í sjávarútvegi. En sama er hvað barnið er látið heita, eftir stendur að söluskattur á að hækka þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um hið gagnstæða.

Hins vegar skal ég fúslega kannast við að hafa við 1. umr. um fjárlagafrv. sakað ríkisvaldið ranglega um skerðingu lögbundins framlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 140 millj. kr. Hið rétta mun vera að skerðingin er um 38 millj., eins og hæstv. ráðh. benti á. Eru mín mistök fólgin í því að ég hélt að sama prósentutala gilti við útreikning á hlut Jöfnunarsjóðsins af aðflutningsgjöldum og sölugjaldi. Þetta leiðréttist hér með og er af nógu að taka þó ekki sé verið að veitast að hæstv. ríkisstj. á röngum forsendum.

Þegar þröngt er í búi er meira um vert en nokkru sinni að fara vel með það sem til skiptanna er. Áherslurnar eru vitanlega misjafnar eftir því hver á í hlut. Núv. ríkisstj. kýs að auka rekstrarkostnað miðstýringarstofnana og halda sínu striki við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli meðan Kvennalistinn vill leggja áherslu á uppbyggingu þjónustu við almenning og eflingu menntunar og rannsókna. Þetta síðarnefnda hefur reyndar upp á síðkastið heyrst æ oftar í máli ýmissa forustumanna stjórnarflokkanna, þ. á m. formanns Sjálfstfl. En það eru að sjálfsögðu verkin sem tala og áherslurnar í þessu fjárlagafrv. tala sínu máli.

Margoft hefur verið minnt á fullyrðingar stjórnarliða á síðasta ári um sérstaklega raunhæf fjárlög þessa árs. Við gerð þeirra vartekið mið af raunverulegum rekstrarkostnaði hinna ýmsu rn. og ríkisstofnana, að því er sagt var, sem í flestum tilfellum leiddi til mikillar prósentuhækkunar frá fjárlögum 1983. Því hefði mátt ætla að í frv. til fjárlaga næsta árs yrði yfirleitt aðeins um eðlilegar verðlagshækkanir að ræða í rekstrarútgjöldum rn. og ríkisstofnana, ekki síst þar sem stór orð voru höfð um samdrátt í mannahaldi og sparnað í rekstri. En eins og nákvæmlega er útlistað í áliti minni hl. fjvn. og hv. þm. Geir Gunnarsson gerði grein fyrir hér áðan, er raunin allt önnur. staðreyndirnar eru þær að skrifstofu-, ferða- og risnukostnaður hins opinbera þenst stöðugt út á þessum margnefndu þrengingartímum okkar um leið og framlög ríkisins til uppbyggingar þjónustustofnana við almenning eru skorin niður af fullkominni hörku.

Ein af þeim ríkisstofnunum, sem hækka langt umfram eðlilegar verðlagshækkanir, er Ríkismat sjávarafurða, eins og hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir kom inn á hér áðan. Ríkismat sjávarafurða er arftaki framleiðslueftirlitsins og skildist manni að endurskipulagning starfseminnar mundi m.a. hafa sparnað í för með sér fyrir ríkið. En það er nú eitthvað annað því að í krónutölu nemur aukið framlag ríkissjóðs til reksturs stofnunarinnar um 12.5 millj. kr. meðan liðurinn 05298, Fiskleit, markaðsöflun og tilraunir við útgerð og fiskvinnslu, fær sömu tölu í fjárveitingu á næsta ári og í fjárlögum þessa árs. Segir það sína sögu. Ég nefni þessa stofnun vegna þess hversu áberandi þetta dæmi er en ekki vegna meinbægni í hennar garð. Til þess skortir mig meiri kunnugleika, en eins og allir hér vita eru mjög skiptar skoðanir um nauðsynlegt umfang Ríkismatsins.

Það vakti einnig athygli mína að í viðtölum við fjvn. töluðu stjórnendur stofnana iðulega um aukinn kostnað vegna tölvunotkunar sem menn vilja þó oft réttlæta með því að slíkt hafi sparnað í för með sér, sérstaklega í mannahaldi.

Þegar við metum áhrifin af þeirri stefnu ríkisstj. sem birtist í þessu frv., þ.e. þenslu í skrifstofu- og stjórnunarkostnaði við ríkisstofnanir og samdrætti í uppbyggingu þjónustustofnana um allt land, er auðséð hverjir verða helst fyrir barðinu á þeirri stefnu. Á sama tíma og íbúar landsbyggðarinnar mega þola samdrátt í atvinnulífinu vegna erfiðleika sjávarútvegsins er enn frekar þrengt að atvinnumöguleikum þeirra og lífsskilyrðum með stórfelldum niðurskurði til verklegra framkvæmda á vegum ríkisins. Þessi stefna á lengi eftir að draga dilk á eftir sér, enda mátti heyra í máli hv. formanns fjvn. hér áðan að lengra yrði ekki gengið í þessum efnum. Hann taldi einnig upp nokkra liði sem leggja þyrfti áherslu á til að ná fram sparnaði í ríkisrekstri, misjafnlega líklega til árangurs að mínu mati. En ég vil sérstaklega taka undir tvo liði, sem ég fjallaði reyndar nokkuð um í 1. umr. um þetta frv., þ.e. um aðhald í utanlandsferðum á vegum ríkisins og nauðsyn þess að ákvarðanir og ábyrgð fari saman.

Herra forseti. Sem vænta mátti reyndist það dæmi, sem blasti við þegar þetta frv. var lagt fram í okt.s.l., óleysanleg.t með öllu. Í rauninni er það óleyst enn þrátt fyrir svolitla hækkun en misjafnlega mikla til hinna ýmsu framkvæmdaliða. Alls staðar verður um að ræða lækkun að raungildi frá þessu ári.

Líklega kemur hv. þm. ekki á óvart að við Kvennalistakonur getum ekki horft þegjandi á þá meðferð sem dagvistarheimilin fá og flytjum brtt. við þann lið á þskj. 298. 1. flm. till., hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, mun mæla fyrir henni hér á eftir og einnig annarri till. um hækkun á framlagi til Háskóla Íslands sem á sífellt erfiðara með að gegna hlutverki sínu vegna fjárskorts.

Málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna eru geymd til 3. umr. og mun ég því einnig geyma mér umfjöllun um þann lið ef vera kynni að vandi hans yrði leystur með viðunandi hætti í fjvn. Að öðrum kosti mun Kvennalistinn gera brtt. við þann lið við 3. umr.

Þá gerum við einnig á þskj. 298 till. um hækkun framlags til Námsgagnastofnunar, sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir mun skýra hér á eftir.

En ég vil nota þetta tækifæri til að biðja hv. þm. að skoða þessar till. vel því að þær eru hógværar og aðeins bundnar við brýnustu þörf. E.t.v. þykir einhverjum gagnrýni vert að hér er um að ræða till. til hækkunar á gjaldahlið fjárlagafrv. um rúmar 50 millj. kr. án þess að tillögur séu gerðar til sparnaðar eða tekjuöflunar í staðinn. Sannast sagna töldum við þess ekki þörf, enda tekjuhlið frv. algerlega ófrágengin. Við hefðum að sjálfsögðu viljað gera fleiri tillögur til breytinga, en í þeim efnum sem öðrum verður að gæta hófs og halda sér við það sem líklegt er að náist fram.

Auk þeirra tillagna, sem við Kvennalistakonur stöndum einar að, erum við meðflm. á nokkrum öðrum og munum væntanlega bæta einhverjum við þegar að 3. umr. kemur.

En að lokum vil ég biðja hv. þm. um að líta með velvild á brtt. á þskj. 309 sem verið var að dreifa hér kl. rúmlega 4. Þar er um að ræða sameiginlega till. okkar kvenna hér á þingi um 1 millj. kr. framlag ríkisins til samstarfsnefndar í lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Sú nefnd hefur margt í bígerð sem vekja mun athygli. En af verkefnum nefndarinnar vil ég sérstaklega nefna tvö, þ.e. Listahátíð ísl. kvenna á næsta ári og úttekt á stöðu íslenskra kvenna með tilliti til þess hvað áunnist hefur í réttindamálum þeirra undanfarinn áratug, þ.e. kvennaáratug Sameinuðu þjóðanna. Slík úttekt er nauðsynleg og verður áreiðanlega hvatning til enn virkari sóknar íslenskra kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins.