13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

1. mál, fjárlög 1985

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1985 er komið til 2. umr. hér á hv. Alþingi. Þótt óvenjuskammur tími hafi að þessu sinni liðið á milli 1. og 2. umr., sem stafar af ýmsum ástæðum sem áður hafa verið raktar, hefur fjvn. Alþingis haft frv. til umfjöllunar í álíka langan tíma og verið hefur undanfarin ár. Rætt hefur verið við fjölda fólks sem hefur verið fulltrúar rn. og stofnana, fyrirtækja, félaga og einstaklinga sem hafa talið sig eiga brýnt erindi við fjárveitingavaldið. Þá höfðu nm. einnig skv. venju átt viðræður við fulltrúa sveitarstjórna fyrstu dagana í október áður en þing kom saman til að létta aðeins á þeirri miklu vinnu sem alltaf er í fjvn. þann tíma sem frv. er þar til umfjöllunar.

Einnig má geta þess að undirnefnd fjvn. hélt allmarga fundi síðari hluta sumars með fulltrúum frá Rannsóknaráði ríkisins og hinum ýmsu rannsóknastofnunum atvinnuveganna, fulltrúum frá Háskóla Íslands og fleiri aðilum. Ég tel þetta hafa verið mjög gagnleg fundarhöld þar sem umræður fóru fram um starfsemi stofnana þessara, samstarf þeirra og ýmis önnur málefni, svo sem framtíðarverkefni þeirra og áform. Það var ekki eingöngu karpað um fjármál og fyrirhugaðar fjárveitingar til viðkomandi þar sem tími var rýmri en verið hefði ef þessi fundarhöld hefðu bæst við önnur á undanförnum vikum. Einnig var með þessu móti hægt að koma við nauðsynlegum leiðréttingum og breytingum sem samkomulag varð um fyrir endanlega gerð fjárlagafrv. Þetta leiðir hugann að því hvort ekki sé rétt og skynsamlegt að fjvn. Alþingis starfi allt árið og geti með því móti fylgst betur með bæði framkvæmd fjárlaga og fjármálum ríkisins almennt svo og undirbúningi að fjárlagagerð næsta árs. Gætu nm. jafnvel skipt á milli sín einstökum málaflokkum og haft þannig betri yfirsýn um stöðu þeirra hverju sinni. Þetta held ég að n. sú, sem nú fjallar um þingsköp Alþingis, ætti að taka til sérstakrar athugunar.

Þá vil ég árétta það, sem ég hef áður sett fram í umr. um fjárlög, að nauðsynlegt er að búa betur að þingnefndum hvað allan tækjabúnað og vinnuaðstöðu varðar. Ég hygg að vart sé til svo auvirðilegt fyrirtæki og illa búið að það hafi ekki betri og fullkomnari búnað til upplýsingaöflunar og upplýsingavörslu en Alþingi Íslendinga. Ég býst við því að jafnvel verslanir fyrir svissneskt konfekt séu betur búnar á tölvu- og tækniöld að þessu leyti en sjálft Alþingi.

Ég vil taka skýrt fram að hér er að sjálfsögðu ekki við starfsfólk Alþingis að sakast, sem vinnur mikið verk með ágætum við erfiðar aðstæður, heldur fyrst og fremst okkur alþm. sjálfa sem höfum búið svona um hnútana og ekki verið nægjanlega vel á verðinum hvað alla starfsaðstöðu Alþingis varðar.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um störf fjvn. eða um þær brtt. sem hún leggur til að gerðar verði á frv. Það hefur formaður n., hv. 1. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson, gert í sinni ítarlegu ræðu. Ég vil þó segja að ég tel að störf n. hafi að þessu sinni verið með erfiðasta móti. Stafar það einkum af því hvað þröngt var um alla framkvæmdaliði sem fjvn. gerir till. um skiptingar á. Reynt var af fremsta megni að hafa brtt. sem allra minnstar og reyna að halda ríkisútgjöldum niðri því aukinn halli á fjárlögum þýðir aðeins auknar erlendar lántökur. Það er þó ljóst að æskilegt hefði verið að geta úthlutað meira fé til skólabygginga því staðreyndin er sú að mestur hluti fyrirhugaðrar fjárveitingar fer til að greiða sveitarfélögunum upp í skuldir vegna lögboðinnar þátttöku ríkissjóðs í framkvæmdum sem ekki hefur verið hægt að bíða með eða fresta. Fer því lítið af þeim fjárveitingum til greiðslu á raunverulegum framkvæmdum næsta árs. Þá er einnig sýnilegt að ekki er hægt að koma í veg fyrir að eitthvað af nýjum verkefnum fari af stað á næsta ári.

Hvað varðar rekstrarliði frv. álít ég hins vegar að auðveldara hafi verið að glíma við þá að þessu sinni en stundum áður og er það auðvitað því að þakka, þrátt fyrir allt og þrátt fyrir alla umr. um fjárlagagöt, að fjárlög þessa árs hafa reynst raunhæfari hvað varðar ýmsa rekstrarliði rn. og ríkisstofnana en oft áður. Þeirri stefnu var og reynt að halda við frv.-gerðina svo að fjárlög mættu verða það stjórntæki sem þeim er ætlað að vera.

Vissulega hefur n. þurft að gera ýmsar lagfæringar og breytingar í ljósi upplýsinga sem hún hefur fengið og leiðrétta nokkra liði sem ekki höfðu fengið nægilega ítarlega umfjöllun við gerð frv. af ýmsum ástæðum. Heildarupphæð brtt. ber þó með sér að reynt hefur verið að gæta ýtrasta aðhalds og sparnaðar þar sem aðeins er um að ræða upphæð sem svarar til u.þ.b. eins prósents af heildarútgjöldum ársins eða 230 millj. kr. Þess ber þó að gæta að enn er eftir að taka til athugunar nokkra liði fjárlagafrv., svo sem fram kom í framsöguræðu formanns n. Má þar sérstaklega nefna rekstur ríkisspítala og starfsemi heilbrigðisstofnana, rekstur Hafrannsóknastofnunar á nýju hafrannsóknaskipi, sem stofnunin hefur nýlega keypt, svo og allar B-hluta stofnanir og 6. gr. fjárlaga.

Af þeim breytingum sem nú er lagt til að gerðar verði á frv. vil ég sérstaklega nefna eftirfarandi:

Gert er ráð fyrir hækkaðri fjárveitingu til Háskóla Íslands. Formaður fjvn. greindi í ræðu sinni frá hugmyndum n. um að athuga og endurskoða stöðu og starfsemi Háskólans. Í ræðu minni við 1. umr. um fjárlagafrv. hér í þinginu gat ég um þær hugmyndir sem uppi eru um háskólanám á Akureyri. Í gær barst mér bréf frá bæjarstjórn Akureyrar þar sem greint er frá samþykkt er bæjarstjórn gerði á fundi sínum 4. des. s.l. um sama málefni. Ég tel eðlilegt að þetta mál, nám á háskólastigi á Akureyri, fái sérstaka umfjöllun í því nefndarstarfi sem formaður fjvn. gat um í ræðu sinni.

Till. er gerð um verulega hækkun á ýmsum liðum til lista- og menningarmála, svo sem leiklistarmála svo og til myndlistarskóla. Er með því reynt að styðja við heilbrigða og þroskandi tómstundastarfsemi og menningarlíf sem fjöldi fólks fær síðan að njóta. Til æskulýðsmála eru verulega hækkaðar fjárveitingar. Er bæði sjálfsagt og eðlilegt að styðja svo sem kostur er við starfsemi æskulýðs-, ungmenna- og íþróttafélaga, ekki síst nú þar sem næsta ár, árið 1985, hefur verið tilnefnt sem alþjóðaár æskunnar.

Varðandi landbúnaðarmálin er nú gert ráð fyrir því að standa við löggjöf um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum, en lög þau voru hluti af samkomulagi um kjaramál bænda.

Þá er og lagt til að hækka fjárveitingar til landgræðslu og landverndaráætlunar svo sem þáltill. um þau mál gerir ráð fyrir.

Hv. þm. Karvel Pálmason taldi litlar tekjur koma í ríkiskassann sem afgjald fyrir 1000 ríkisjarðir. Sannleikurinn er hins vegar sá að jarðirnar munu vera um 800 og þar af eru margar þeirra í eyði. Í sumum tilfellum mun ríkissjóður hafa keypt eða eignast þessar jarðir þegar bændur vildu hætta búskap og eins og málum er nú háttað í landbúnaði er vart ástæða til að fjölga verulega ábúendum.

Lagt er til að hækka nokkra liði er varða málefni fatlaðra. Þetta er orðinn stór málaflokkur og eru þó enn mörg verkefni óleyst á þessu sviði svo sem ég gat um í 1. umr. um fjárlög og fjölyrði því ekki frekar um að þessu sinni.

Ég hef drepið á nokkur atriði í brtt. fjvn. til áréttingar. Ég vil að lokum fara nokkrum orðum um fjárveitingar til hafnamála að gefnu tilefni. Hv. þm. Geir Gunnarsson tók þær sem dæmi um fjandsamlega byggðastefnu fjárlagafrv. og það sem hann kallaði breytta byggðastefnu Framsfl. og hv. þm. Karvel Pálmason tók í sama streng. Ljóst er að þegar þjóðartekjur dragast saman hlýtur það að koma niður á fjárveitingum ríkissjóðs til ýmissa nauðsynlegra málaflokka. Þar eru hafnir því miður ekki undanskildar. Hv. tilgreindir þm. telja líka að halli á ríkisrekstri sé óviðunandi og erlendar lántökur megi ekki hækka, hafi ég skilið málflutning þeirra rétt. En það er því miður nú eins og stundum áður að mönnum gengur misjafnlega vel að horfast í augu við staðreyndir og taka tillit til raunveruleikans. Það virðist mér einmitt koma fram í málflutningi þessara hv. þm. Það er auðvelt að slá um sig í orðræðu með óábyrgum málflutningi, en oft erfiðara að standa við stóryrði þegar á reynir. Það er einfalt að segja að gengisfelling hafi verið hefndarráðstöfun vegna nýgerðra kjarasamninga, en óskapast síðan yfir viðskiptahalla sem að sjálfsögðu er að verulegu leyti afleiðing ranglega skráðs gengis. Ég undrast slíkan málflutning.

Í umr. um fjárlagafrv. á dögunum gerði ég m.a. grein fyrir viðhorfum mínum til framkvæmda fjárveitinga, þ. á m. til hafnaframkvæmda og vil því, með leyfi forseta, fá að fylgja fordæmi hv. þm. Geirs Gunnarssonar og lesa upp úr þeirri ræðu minni sem hlýtur að hafa verið harla góð fyrst nauðsynlegt er að endurtaka svo mikið úr henni. Þar segir:

„Um aðra framkvæmdaliði [þ.e. aðra en vegagerð og húsnæðismál] verður því miður að segjast að vegna þeirrar aðhaldsstefnu sem frv. gerir ráð fyrir var óhjákvæmilegt að draga mjög úr framlögum til þeirra þátta. Sérstaklega vil ég nefna fyrirhugaða fjárveitingu til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, en frv. gerir aðeins ráð fyrir að til þeirra verkefna verði veittar 55 millj. kr. sem er helmingi minni upphæð í krónum talið en á fjárlögum þessa árs. Sjálfsagt má telja að skynsamlegt sé að fresta nánast alveg framkvæmdum við einn framkvæmdalið og reyna þá frekar að gera ívið betur við annan heldur en að hafa alla liði allt of þrönga. Ýmsum finnst sjálfsagt einkennilegt að þá skuli einmitt hafnarmannvirki hafa orðið fyrir valinu þar sem framkvæmdir í höfnum eru svo geysiþýðingarmiklar fyrir sjávarplássin, útgerðarstaðina allt í kringum land. Á það ber hins vegar að líta að verulegar framkvæmdir hafa átt sér stað víðast hvar á undanförnum árum og öflug og traust hafnarmannvirki risið svo varla er hægt að segja að neyðarástand ríki nokkurs staðar miðað við það sem var sé litið nokkur ár til baka. Framkvæmdum á nokkrum stöðum er þó nánast útilokað að fresta vegna stöðunnar í einstökum verkáföngum. Einnig má benda á að framkvæmdir við hafnarmannvirki eru allajafnan ekki eins atvinnuskapandi heima í byggðarlögum og t.d. framkvæmdir við skólabyggingar, byggingar heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa eða dagvistarstofnana, svo að eitthvað sé nefnt. Að því leytinu til ætti samdráttur í fjárveitingum til hafnarmannvirkja ekki að hafa eins mikil áhrif á atvinnuþróun og atvinnulíf hinna ýmsu staða og ef dregið væri meira úr öðrum framkvæmdaliðum.“

Hér tel ég mig hafa skýrt nokkuð afstöðu mína til þessa málaflokks. En í brtt. n. er gerð till. um hækkun á liðnum Hafnarmannvirki og lendingarbætur úr 55 millj. kr. í 69 millj.

Herra forseti. Ég ætla ekki að öðru leyti að munnhöggvast við meðnm. mína úr fjvn. eða taka upp almenna pólitíska umr. um efnahagsmál. Tekjuhlið frv. og lántökur, innlendar sem erlendar, verða til umfjöllunar við 3. umr. um fjárlagafrv. svo sem venja hefur verið og eðlilegt að svör við spurningum varðandi þau mál komi fram í þeirri umr.

Ég vil að lokum ítreka það sem ég hef áður sagt um nauðsyn þess að beina fjármagni til frekari uppbyggingar á landsbyggðinni og tel að ekki hefði veitt af öllu því fjármagni, sem nú á að verja t.d. til grunnskólabygginga, til byggingarframkvæmda úti um land, en ég tel mig raunsærri en svo að ég álíti það framkvæmanlegt og ég vil vinna á málefnalegri hátt en að gera slíkar till. Því samþykki ég það að sjálfsögðu að hæsta fjárveiting til skólabygginga í einu kjördæmi renni til Reykjaneskjördæmis og sú næsthæsta til Reykjavíkur, jafnvel þó að ég viti að það hljóti að leiða til aukinnar þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Hjá þessu verður ekki komist. Það er því miður æðioft svo að gera þarf fleira en gott þykir og ekki er alltaf hægt að beina málum í þann farveg sem maður helst vildi.

Að lokum vil ég þakka gott og ánægjulegt samstarf við alla meðnm. mína, ritara n. svo og starfsfólk fjárlaga- og hagsýslustofnunar.