13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

1. mál, fjárlög 1985

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til breytinga við frv. til fjárlaga fyrir árið 1985, sem er reyndar annar liður á þskj. 298, en hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur þegar mælt fyrir till. sem er 1. liður, um Háskóla Íslands og fyrir till. sem er 3. liður, um stofnkostnað við dagheimili.

En allar þessar till. eru bornar fram af þm. Kvennalista og sú sem ég ætla að mæla fyrir hér er borin fram af Guðrúnu Agnarsdóttur, Kristínu Halldórsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Við leggjum til að fjárveiting verði hækkuð til þriggja rekstrarliða Námsgagnastofnunar, þ.e. til Fræðslumyndasafns úr 3 millj. 350 þús. kr. í 6 millj., til Kennslumiðstöðvar úr 754 þús. í 1 millj. og 500 þús. og til námsefnisgerðar úr 4 millj. 207 þús. í 5 millj.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því og leggja ríka áherslu á það að hér er einungis um raunsæjar og mjög hógværar hækkunarkröfur að ræða. Hitt er svo annað mál hvort okkur sæmir, alþm. og þeim okkar sem eru foreldrar eða forráðamenn barna og unglinga, að gera hógværar kröfur um aðstöðu þeirra til menntunar. Reyndar finnst mér að þar ættum við að vera metnaðargjörnust þegar við búum í haginn fyrir börnin okkar, hlúum að menntun þeirra og undirbúum þau til þess að erfa landið.

Í Námsgagnastofnun hefur lengi verið unnið þarft og merkt starf af alúð og hugsjón, en ævinlega af litlum efnum miðað við kröfur og þörf fyrir námsefni. Til fræðslumyndadeildar eru á fjárlögum yfirstandandi árs áætlaðar 3 millj. 650 þús. kr. Námsgagnastofnun áætlaði þörf sína 9 millj. 648 þús. fyrir árið 1985. Þessi brtt. leggur til að upphæðin verði hækkuð upp í 6 millj. kr. Í þessu sambandi vil ég minna á það að kennsla nýtur í vaxandi mæli góðs af nýrri tækni. Sjálf man ég eftir því að hafa í skóla séð fræðslukvikmyndir einu til tvisvar sinnum á ári við sérstök tækifæri og ekki síst ætlað til skemmtunar fyrir okkur börnin, bíó í söngstofunni. Nú eru sjónvörp og myndbönd snar þáttur af daglegu lífi barna og ómissandi kennslugögn við margháttaða kennslu í ýmsum námsgreinum. Fram til þessa hafa kennarar hér á landi svo til eingöngu átt kost á erlendum fræðslumyndum. Bæði er það vegna þess að Fræðslumyndasafn ríkisins og síðar Námsgagnastofnun hefur ekki haft fjármagn til að láta gera fræðslumyndir eða kaupa slíkt efni af innlendum framleiðendum. Annars vegar kemur það til að Ríkisútvarpinu hefur ekki verið ætlað að framleiða kennsluefni og það efni sem íslenska sjónvarpið hefur framleitt og þykir eftirsóknarvert til notkunar við kennslu hefur enn ekki fengist til dreifingar. Það er því ljóst að framleiðsla og úrval íslenskra fræðslumynda er enn í algeru lágmarki og á því verður að verða breyting. Það er með öllu óverjandi að skólarnir eigi ekki kost á góðu íslensku efni til afnota þar sem m.a. er fjallað um íslenska náttúru, menningu og atvinnulíf svo eitthvað sé nefnt.

Í fræðslumyndadeild Námsgagnastofnunar er endurskoðun á filmuefni í fullum gangi og nýtt efni á myndböndum bætist stöðugt við í safnið. Nú um n.k. áramót munu verða um 1300 titlar í safninu, þar af um 100 á myndböndum, flestir með íslensku tali.

Vert er að minnast enn fremur á það að fræðslumyndadeild sér ekki einungis grunnskólum fyrir myndefni heldur líka framhaldsskólum. Er það auðvitað sjálfsögð þróun, en hún gerir jafnframt meiri kröfur um efni, tíma og fjármagn.

Skólar landsins eignast nú jafnt og þétt myndbandstæki til að nota við kennslu og allir hv. þm. hljóta að sjá og skilja mikilvægi þess að gott úrval íslenskra kennslumynda standi nemendum og kennurum til boða.

Fæst okkar geta verið ánægð með menningar- og fræðslugildi þess afþreyingarefnis sem streymir eins og sjávarföll um mýmargar myndbandaleigur og ekki síður um tómstundir og hugi íslenskra barna og unglinga. Hér er brýn þörf á mótvægi því að þessi miðill býður upp á ómæld tækifæri, ekki bara til afþreyingar heldur líka til kennslu og fróðleiks. Mér finnst það skylda okkar að tryggja fjármagn til þess.

Sú kennslumiðstöð sem Námsgagnastofnun hefur rekið s.l. þrjú ár á sér fyrirmyndir víða erlendis þar sem slíkar stofnanir hafa verið reknar um áratuga skeið. Það er óhætt að segja að kennslumiðstöðin gegnir nú lykilhlutverki hvað varðar kynningu á innlendu og erlendu kennsluefni, gagnasöfnun og myndun verkefna og hugmyndabanka. Þarna hefur farið fram þróttmikið kynningar- og fræðslustarf sem kennarar og aðrir hafa notað sér í sívaxandi mæli. Er óhætt að draga þá ályktun af viðbrögðum skólamanna að brýn þörf hafi verið fyrir slíka starfsemi, svo vinsæl og fjölsótt er stofnunin. Þar fara fram kynningardagskrár og fræðsla, auk þess sem kennarar koma þangað til að leita sér hugmynda og útbúa eigið námsefni. Er miðstöðin ekki síður sótt af kennurum úr dreifbýli en úr þéttbýli og er þeim mikill stuðningur.

Það eru brýn framtíðarverkefni fyrir kennslumiðstöðina að útbúa aðgengilega skrá yfir gagnasafn og verkefna- og hugmyndabanka til að auðvelda upplýsingaöflun fyrir þá sem heimsækja miðstöðina. Starfsemi þessarar ungu stofnunar er í stöðugri mótun og þörfin fyrir hana er ótvíræð. Því er afar mikilvægt að henni verði fram haldið en hún ekki svæfð vegna ónógrar fjárveitingar. Til kennslumiðstöðvarinnar eru ætlaðar 754 þús. kr. á fjárlögum fyrir árið 1985, en áætlun Námsgagnastofnunar fyrir sama ár hljóðar upp á 2 millj. 261 þús. Þessi brtt. gerir ráð fyrir hækkun upp í 1.5 millj. kr. Þetta þykir mér hógvær beiðni. Námsefnisgerð var áður hluti af verkefnum skóla rannsóknadeildar menntmrn., en hefur nú verið flutt til Námsgagnastofnunar. Það er nauðsynlegt að nægilegt fjármagn sé tryggt til þess að stofnunin geti sinnt þessu hlutverki. Það vita þeir sem vilja, að mestu vandræði hafa ríkt í námsgagnagerð og útvegun námsefnis til skóla vegna fjárskorts. Hefur það verulega tafið og hindrað eðlilega kennslu. Þetta verkefni hefur auk þess orðið að vandræðabarni láglaunaðra kennara að þurfa auk annars annríkis og vanbúnaðar í starfi að útbúa námsefni fyrir nemendur sína langt umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt mætti teljast. Er þetta fyrst og fremst vegna þess að ekkert námsefni hefur verið á boðstólum vegna fjárkreppu. Það er auðvitað algerlega óviðunandi að námsefni barnanna okkar byggist á örþrifaráðum þreyttra kennara í stað þess að vera ávöxtur yfirvegaðrar og vandlega rannsakaðrar vinnu þeirra sem að námsefnisgerð starfa. Það er mjög mikilvægt að tryggja fjárhagsgrundvöll slíkrar undirbúningsvinnu, bæði í nútíð og framtíð og ekki síst að tryggja það að afrakstur slíkrar vinnu berist á fljótan og skilvísan hátt til nemenda og kennara. Til þess ættum við öll að hafa metnað.

Í fjárlögum ársins 1985 eru Námsgagnastofnun ætlaðar 4 millj. 207 þús. kr. til námsefnisgerðar, en áætlun um þörf stofnunarinnar fyrir sama ár eru 7 millj. 770 þús. kr. Þessi brtt. fer fram á hækkun upp í 5 millj.

Eins og sjá má af þessari till. höfum við þm. Kvennalistans stillt metnaði okkar mjög í hóf og er það gert fyrst og fremst til þess að tryggja það að hógværar en bráðnauðsynlegar hækkanir nái fram að ganga. Ég skora því á hv. þm. að styðja þessar till. og satt að segja get ég ekki ímyndað mér einn einasta þm. á þessu löggjafarþingi sem gæti staðið gegn þessum hógværu hækkunum til að tryggja menntun barna okkar.