13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

1. mál, fjárlög 1985

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er ekki úr vegi að láta nokkur orð falla hér í hv. Alþingi við 2. umr. um frv. til fjárlaga fyrir komandi ár, 1985. Nefnd skulu örfá atriði auk almennra athugasemda um frv. í heild og horfur í efnahags- og fjármálum.

Fjvn. hefur á undanförnum vikum unnið baki brotnu að fjárlagagerðinni með venjubundnum hætti, en óneitanleg.a hefur oft verið erfitt um vik vegna þeirrar óvissu sem upp hefur komið hvað eftir annað í fjárhagslegum efnum og annarri framvindu mála.

Í grg. fjárlagafrv. segir m.a. að frv. einkennist af aðhaldi og viðleitni til að draga úr útgjöldum ríkisins og skapa þannig aukið svigrúm til athafna fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu.

Það er augljóst mál að frv. þessu er mjög þröngur stakkur skorinn. Landsmenn hafa á þessum misserum þurft að glíma við minnkandi þjóðartekjur, viðskiptahalla í vaxandi mæli og skuldasöfnun í útlöndum sem ekki má meiri vera að flestra dómi. Það er gott að geta fengið lán þegar nauðsyn krefur og hafa lánstraust, en hættulegt að safna skuldum því að allar skuldir falla í gjalddaga og verða að greiðast.

Sérhver ríkisstj., sem vinna vill sín skyldustörf í þágu lands og þjóðar, hlýtur að setja sér ákveðin meginmarkmið. Þar til má nefna í fremstu röð að treysta og efla íslenskt atvinnulíf og efnahag og sjá til þess að allir vinnufærir menn hafi örugga atvinnu og bærileg lífskjör og geti unað glaðir við sitt, eins og sagt er. Það getur verið erfitt fyrir stjórnendur landsins að ná þessu takmarki á hverju sem gengur, en að því verður að stefna undanbragðalaust.

Á undanförnum árum hefur yfirleitt tekist að halda uppi nægri atvinnu í landinu. Þetta er að sjálfsögðu alveg sérstaklega mikilvægt, en þó varla metið sem skyldi því að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Sumir telja þó að gott atvinnuástand, sem svo er nefnt, sé of dýru verði keypt, aðrir minnast á dulbúið atvinnuleysi. Heldur finnst mér slíkt tal hljómlítið. A.m.k. er víst að full atvinna er hið besta hnoss öllum til handa, en atvinnuleysi hið mesta böl. Það er því nokkuð mikið gefandi fyrir örugga atvinnu. Ég sé því ekkert sem mælir á móti því að ríkið styðji og styrki höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar að vissu marki, eftir mætti og getu, þegar þörf krefur og a.m.k. þegar sæmilega árar í ríkisbúskapnum.

Allar frjálsar og fullvalda menningarþjóðir hljóta að leggja kapp á að efla atvinnuvegi sína, enda er það óspart gert leynt og ljóst um lönd og álfur. síðast höfum við heyrt af ákvörðun norskra stjórnvalda um stórfelldan stuðning við norskan sjávarútveg. Það kom m.a. fram núna í kvöldfréttum í viðtali við hæstv. forsrh., en einmitt nú í dag og næstu daga þinga norrænir forsrh. hér í Reykjavík. Hitt er svo annað mál að okkur þykir þessi stuðningur Norðmanna við sjávarútveg sinn ganga úr hófi fram og jafnvel brjóta eða ganga á snið við meginforsendur norrænnar samvinnu og það bróðurþel og vinarhug sem ríkja ber í samskiptum norrænna grann- og frændþjóða.

Fyrir nokkrum árum var talið hollt og nauðsynlegt að byggja upp og efla meginsjóði helstu atvinnugreina landsins, t.d. á þann veg að ríkið innti af hendi greiðslur á móti því fé sem atvinnugreinin sjálf legði fram. Þannig átti að myndast traustur lánasjóður, byggður upp af atvinnugreininni sjálfri með stuðningi ríkisvaldsins. Víða tókst vel til að þessu leyti um skeið, líklega allt til þess að verðbólgudraugurinn fór eyðandi höndum um allan sparnað og fyrirhyggju landsmanna. Nú er víða tekið svo til orða í grg. fjárlagafrv. að afnema beri öll framlög til slíkra hluta. Ég tek sem dæmi af handahófi Ferðamálasjóð. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki er um að ræða framlag til Ferðamálasjóðs, enda stefna frv. að draga úr og fella niður framlög til atvinnuvegasjóða.“

Þetta gildir um marga fleiri sjóði samkvæmt frv. Ég minnist þess að hv. 3. þm. Vestf., sem talaði hér í dag, hafði talið 21 sjóð sem undir þessa sök voru seldir. En þetta um Ferðamálasjóðinn er aðeins eitt dæmi af mörgum.

Gott er að spara sem víðast þegar að kreppir, en að þrástagast á þessu atriði sem stefnumarkandi meginmáli, væntanlega til frambúðar, gengur ekki athugasemdalaust nema um sinn.

Það er kunnugt að víða um land eiga hinir hefðbundnu atvinnuvegir landsmanna, sjávarútvegur og landbúnaður, við mikla erfiðleika að stríða á sama tíma og þjónustu- og verslunargreinar á höfuðborgarsvæðinu hafa blómstrað. Hvað veldur þessu misgengi?

Miklir rekstrarörðugleikar eru í sjávarútvegi, fiskveiðiskip hafa verið boðin upp og líkur á því að fleiri fari sömu leið innan skamms. Rekstrarstöðvun í sjávarútvegi blasir við á nokkrum stöðum. Útgerð og fiskvinnsla hefur sennilega aldrei staðið verr, segir Soffanías Cecilsson útgerðarmaður og fiskverkandi í Grundarfirði í ræðu sem birtist í Morgunblaðinu 28. þ.m. Við staðhæfingum af þessu tagi, sem koma frá þrautreyndum aflamönnum til sjós og lands, er ekki hægt að skella skollaeyrum. Hingað til hefur þótt lífvænleg.t að draga fisk úr sjó og verka hann. Og sjávarútvegurinn hefur byggt upp land okkar og breytt því í nútímahorf að segja má. Nú eru það víst þjónustugreinarnar sem þarf að efla sem allra mest, þetta að lifa hver á öðrum. Jafnvel er ekki of mikið gert úr iðnaði sem talinn var árum saman sú atvinnugrein sem taka átti við vaxandi fjölda vinnandi handa á Íslandi á komandi árum.

Dregið hefur verið úr stuðningi við landbúnað að verulegu marki í fjárlagafrv. Sem dæmi má nefna að útflutningsbætur verða á næsta ári einungis um 0.4% af þjóðarframleiðslu. (Gripið fram í: Það er nú ekki búið að afgreiða fjárlagafrv. enn.) Við vitum vel að þetta er 2. umr. — Útflutningsbæturnar hafa oftast numið u.þ.b. helmingi hærra hlutfalli og niðurgreiðslur eru nú um 0.7%. Samtals nema þessir tveir málaþættir skv. frv. rétt rúmlega 1% af þjóðarframleiðslunni. Um þessi mál öll mætti að sjálfsögðu margt ræða, en nú virðist vera svo komið, að mér finnst, að flestir telji ráðlegra að segja sem allra fæst um landbúnaðarmálin.

Það er mikill áróður rekinn í þá átt að innprenta öllum almenningi að þessi forna atvinnugrein njóti allt of mikils stuðnings frá því opinbera. En ég spyr: Hver lifir á hverjum þegar grannt er skoðað? Ég hygg að allar menningarþjóðir heims styðji landbúnað sinn af fremsta megni, sennilega mest þær sem hafa frelsi og framtak í hæstum hávegum eins og Bandaríkjamenn. Okkur vill stundum gleymast að við sem búum á Íslandi höfum aðallega lifað á landbúnaði fram á þennan dag. Við búum á Íslandi sem er norðlægt land, miklu erfiðara til búsetu en mörg af nágrannalöndum okkar eru. Bjarni Benediktsson segir á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessari ákvörðun okkar að vilja byggja okkar land, vilja halda byggðinni við, eftir því sem föng eru á, vilja halda uppi sjálfstæðu frjálsu þjóðfélagi, fylgir svo margvíslegur og mikill kostnaður, að hann hlýtur að verða til þess á ýmsan veg að draga úr þeim efnahagslega hag, sem hægt væri að hafa af allt annarri skipan og ef við gæfumst upp við þetta, sem engum manni dettur í hug að gefast upp við.“

Og hann bætir við og herðir á:

„Það er alveg óhagganlegt, að án íslensks landbúnaðar heldur íslensk þjóð ekki eðli sínu og glatar mörgu því besta, sem í henni er, og við getum með vissu efast um, hvort hún haldi áfram að vera til sem sjálfstæð þjóð, ef íslenskur landbúnaður væri niður lagður.“

Þó að hér sé aðeins vikið að tveim höfuðatvinnugreinum okkar mætti sjálfsagt sitthvað segja um ýmsa þætti iðju og iðnaðar og þjónustugreinar sumar. En mér er fyllilega ljóst að það er meginskylda ríkisstj., ráðherranna, höfunda fjárlagafrv. að stuðla að hagsýni og sparnaði og koma í veg fyrir hallabúskap hjá því opinbera. Halli á ríkisbúskap hefur á undanförnum árum verið eitt af stórmálum hagstjórnar í flestum ríkjum hins vestræna heims. Fullt aðhald í fjárlagagerð er því skylt að viðhafa.

En ef við lítum aðeins nánar á þetta mál, hvar hefur fyrst og fremst verið tekið á málum? Hverjir hafa helst orðið fyrir barðinu á því aukna aðhaldi sem hefur verið í ríkisfjármálum okkar? Er í þessu efni nógu gaumgæfilega hugað að málum og þau nægilega vandlega undirbúin? Þetta eru stórar spurningar og við þeim eru engin einhlít svör. Eitt atriði vil ég þó nefna við þessa umr. sem ég tel að huga þurfi nánar að á næstunni. Hafa þær ráðstafanir sem eru á valdi stjórnvalda stuðlað að því jafnvægi í byggðum landsins sem að er stefnt?

Víða úti á landi er, eins og ég drap á, samdráttur í atvinnulífi og örlað hefur á flutningum fólks til Reykjavíkursvæðisins svo að ekki sé meira sagt, enda hefur þar verið mikil þensla í mörgum greinum. Sem dæmi hafa verið nefnd mikil umsvif í byggingarstarfsemi og á hið opinbera þar ekki lítinn hlut að máli. Það er spurning hvort ekki hefði náðst betri árangur í stjórn efnahagsmála ef þess hefði verið gætt að halda jafnvægi að þessu leyti milli Reykjavíkursvæðisins, höfuðborgar okkar og landsbyggðarinnar sem öllum landsmönnum er fyrir bestu þegar öllu er á botninn hvolft.

Hæstv. fjmrh. hefur lagt ríka áherslu á að fjárlögin gefi sem réttasta og raunhæfasta mynd af þeim viðfangsefnum sem við er að fást, framgangi þeirra, þróun og stundarhag. Vissulega er þetta réttmæt ósk og eðlileg krafa. Sannleikurinn er sá að fjárlagagerð frá fyrstu tíð hér á landi, að ég hygg, hefur oft og iðulega verið harla ónákvæm að þessu leyti. Nú er víða breytt um til batnaðar í fjárlagafrv. hvað þetta varðar.

Sem dæmi má nefna embætti sýslumanna og bæjarfógeta, sem formaður fjvn. gat um í framsöguræðu sinni í dag og vissulega er hægt að vekja athygli á, sem og ýmsum öðrum greinum af þessum sama meiði. Hitt er annað mál að þó að lögð verði rík áhersla á að ákvarða fjárlög út frá þessu sjónarmiði hverju sinni, þá hygg ég að erfitt verði að komast hjá aukafjárveitingum í framtíðinni. Það er sjálfsagt að hafa þær í hófi, en við sjáum það lítið fram til komandi daga að til aukafjárveitinga hlýtur að mínum dómi alltaf að þurfa að grípa öðru hvoru. En eins og ég sagði, það er sjálfsagt að þær séu í hófi.

Þá hefur hæstv. fjmrh. lagt þunga áherslu á aðhald, hagsýni og sparnað við gerð þessara væntanleg.u fjárlaga. Þetta er sjálfsögð og eðlileg ósk sem hafa ber í huga og virða til fulls. Allir hv. alþm., bæði innan og utan fjvn., gera sér áreiðanlega fulla grein fyrir þröngri stöðu ríkisbúsins og erfiðum efnahag um þessar mundir. Þegar smátt er skammtað verða álitamálin mörg, sagði hv. formaður fjvn., 1. þm. Norðurl. v., í ræðu sinni í dag og eru það orð að sönnu. Það má því sjálfsagt gagnrýna fjölmargar ákvarðanir fjvn. að þessu sinni um það er lýkur.

Eigi að síður er mér kunnugt um að hæstv. fjmrh. hefur brugðist vel við og ljúfmannlega þegar leita hefur þurft til hans með þau mál þar sem stefnt hefur í vanda og hefur hann greitt úr þeim af góðum vilja í samráði við fjvn., enda finnst mér þrátt fyrir allt að grundvallarskilningur ríki í röðum fjvn.-manna um þau höfuðvandamál sem við er að fást. Mun því áhersla verða lögð á að vel og samviskusamlega verði unnið að þessari fjárlagagerð svo sem framast eru föng á og allar aðstæður leyfa.