13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

1. mál, fjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka stjórnarandstöðunni og þeim sem hafa tekið til máls fyrir málefnalegar umr. Vona ég að gott samstarf náist við lokaafgreiðslu á fjárlögum fyrir næsta ár. Ég sé ekki ástæðu til að fara yfir marga punkta sem komið hafa fram hjá þeim hv. þm. sem hafa talað, en vil þó stikla hér á stóru og reyna að fara fljótt yfir.

Ég fagna því að enn einu sinni skuli talsmaður minni hl. fjvn. halda hliðstæða ræðu og hann hefur gert áður, ég vil segja oft áður, málefnalega og upplýsandi þó að gagnrýninn hafi verið. Ég veit að hann er mér sammála þrátt fyrir þau orð sem hann viðhafði, fjárlög verða ekki raunhæf fyrr en aukafjárveitingar hafa verið skornar niður. Reyndar verða þær kannske aldrei alveg útilokaðar, en að það verði a.m.k. ekki þannig að fjmrh. verði til þess neyddur á milli fjárlagagerða að búa til ný fjárlög eins og átti sér stað á tímabili fyrri ríkisstj.

Hv. frsm. minni hl. talaði mikið um viðskiptahalla, hann talaði mikið um skuldir og prósentur af þjóðarframleiðslu. Að sjálfsögðu er sá mikli viðskiptahalli sem er og hefur verið áhyggjuefni. En spurningin er: Af hverju er þessi viðskiptahalli? Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir því. Er hann vegna þess að við seljum ekki afurðir okkar nægilega hratt til þess að standa undir þeim gríðarlega miklu kröfum sem við gerum til þæginda og þeirrar athafnasemi sem í íslensku þjóðinni býr? Eða er hann vegna þess að við framleiðum ekki nóg til að standa undir okkar þörfum? Ég er ekki alveg viss um hvað hér er á ferðinni. Sölukerfi okkar og útflutningsmarkaðsöflun er þó að mínu mati löngu úrelt og þarf að breytast.

Það er mikið talað um hin óraunhæfu fjárlög. Ég hef þó sem fjmrh. talið þau hin raunhæfustu sem lögð hafa verið fram allt til þess að fjárlög fyrir árið sem nú er að líða voru í bígerð. Ég vil biðja hv. alþm. að minnast þess að við gerð fjárlaganna fyrir þetta ár tók ég það sérstaklega fram að ég væri ekki viss um að fjárlögin væru það raunhæf að þau dygðu út árið og tilkynnti að ég mundi endurskoða fjárlögin og taka þau upp ef þörf reyndist. Og það reyndist þörf fyrir það og þau voru tekin upp. Mikið var talað og mikið skrifað um hið fræga gat fjárlaganna. En eftir að fjárlögin voru tekin upp held ég að enginn geti á móti því mælt að þau hafa reynst raunhæf, kannske raunhæfari en ég hafði búist við, eftir afgreiðslu fjárlaga í maí. Frá þeim tíma hefur rekstrarhlið ríkissjóðs komið betur út en áætlað var. Þetta vita þm. allir því að eins og ég gat um og lofaði þá hef ég gert stjórnarandstöðunni grein fyrir stöðu ríkisfjármála á þriggja mánaða fresti. Það fer því ekkert á milli mála að við það sem sagt var við gerð fjárlaganna fyrir þetta ár hefur verið staðið.

Hv. þm. Geir Gunnarsson talaði um að byrðum umframeyðslu væri velt yfir á framtíðina, á börnin sem eiga að erfa landið, þeim mikla kostnaði sem er af kröfum okkar til lífsgæða. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt. En við, sem munum dálítið lengra aftur í tímann, skulum bara minnast ársins 1944 þegar við tókum að öllu leyti við okkar málum sjálfir, þegar lýðveldið var stofnað. Hvernig var þá umhorfs? Við hverju tók sú kynslóð sem nú er að skila af sér senn hvað líður? Hvað hefur verið gert hér sem hefði átt að gerast löngu áður? Hvað er hér af byggingum og atvinnuvegum sem eru sambærileg við þróaðar atvinnugreinar erlendis? Við höfum þurft að byggja þetta allt upp, má segja, úr engu. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að við tókum við okkar eigin málum úr höndum annarra í bágu ástandi. Sú uppbygging sem hér hefur átt sér stað frá því að við hlutum sjálfstæði hefur eðlilega kostað mikið. Syndir þeirra sem á undan gengu sem ráðamenn hér hafa komið niður á okkur sem nú erum að byggja upp framtíðina fyrir fólkið. Og okkar arftakar verða að sjálfsögðu ásamt okkur að borga það sem við erum að gera. Ef við skiluðum næstu kynslóð Íslandi jafnþurftugu fyrir framkvæmdir og uppbyggingu á eðlilegu mannlífi til þess að vera sambærilegt við aðrar þjóðir og við tókum við, þá er ég hræddur um að við hefðum ekki gegnt okkar skyldum, hvorki við né aðrir þeir sem á undan okkur eru gengnir sem hér hafa staðið í forsvari frá því Ísland hlaut sjálfstæði og til þessa dags. Það er ósköp eðlilegt að einhver þurfi að borga. Það er eðlilegt að peningar til svo hraðrar uppbyggingar þurfi að koma einhvers staðar frá. Og það er ekkert óeðlilegt að til þess hafi verið tekin lán. Það væri hins vegar óeðlilegt ef við gætum borgað öll þau lán jafnóðum og við framkvæmum.

Ég tók það fram þegar ég tók að mér starf fjmrh. að ég mundi ekki undir neinum kringumstæðum treysta mér til þess að skila hallalausum fjárlögum. Ég hef ekki gert það og ég býst ekki við að vera svo lengi í embætti að mér takist það. En eitt er víst: að við verðum, eins og í hverju öðru fyrirtæki eða fjölskyldu, að vinna okkur út úr vandanum. Og það getur tekið nokkurn tíma. Við þurfum að auka okkar framleiðslu. Við þurfum að framleiða meira til þess að selja meira, til þess að greiða niður okkar skuldir. Og það þýðir að við þurfum að hægja á framkvæmdagleði okkar og ýmsu því sem við vildum gjarnan fá sem fyrst.

Það er ekki hulið nokkrum manni, sem hér er inni, að ríkissjóður er ekki rekinn með aðstoð erlendra lána í fyrsta skipti í ár og ekki heldur s.l. ár. Við skulum þess vegna átta okkur á hvernig við stöndum, af hverju við skuldum, og minnast þess hvernig þjóðfélagið hefur breyst á þeim stutta tíma sem við höfum verið sjálfstæð þjóð.

Ég hefði gjarnan viljað hafa lengri tíma til að tala um ýmislegt sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Vestf. En eitt vil ég leiðrétta. Fyrst vil ég biðja menn að athuga að það er ekki alltaf gull að sækja í greipar þeirra sem reka fyrirtæki. Og ég held að því miður, þjóðarinnar vegna, eigi það eftir að koma í ljós að skipafélög og jafnvel bankar græða ekki peninga í ár. Þeir tapa, þeir stórtapa peningum.

Ég harma það að lánsfjáráætlun skuli ekki hafa komið fram samtímis fjárlögunum eins og s.l. ár. En frá því að fjárlög voru lögð fram og þar til lánsfjáráætlun átti að leggjast fram sköpuðust hér afbrigðilegir tímar, og afbrigðilegir tímar vilja oft breyta eðlilegum gangi mála. Ég bið hv. alþm., starfsfélaga mína, að virða mér það til vorkunnar, annað er óeðlilegt. En lánsfjárlög munu brátt sjá dagsins ljós. Þau eru tilbúin og bíða prentunar.

En eitt vil ég upplýsa enn einu sinni því að hv. þm. virðast gleyma því. Ég er búinn að segja frá því hér úr þessum virðulega ræðustól að einn af virtustu lögmönnum þessa lands er að vinna að því fyrir mig að taka saman í gegnum lagasafnið, sem er nýkomið út, hvað Alþingi Íslendinga hefur samþykkt mikil útgjöld fyrir ríkissjóð umfram hæstu tekjumöguleika. Og enn þann dag í dag, meðan við erum að afgreiða hér fjárlög með miklum halla, streyma inn frv. sem eru kostnaðarsöm, hafa í för með sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð. Hvert stefnum við með þessu? (SvG: Ertu að tala um stjórnarfrumvörpin?) Ég er að tala bæði um stjfrv. og önnur.

(SvG: Líka stjfrv.?) Líka stjfrv., það fer ekkert á milli mála, því að í lagasafninu er þó nokkuð af þeim. Nei, við skulum átta okkur á hvernig við stöndum að málunum sjálf.

Virðulegur þm. Karvel Pálmason talaði um útgjöld ríkisspítalanna og að ekki hefði staðist sú áætlun að draga saman um 2.5% í launaliðum og 5% í rekstrarliðum. Ég vil geta þess að ég er mjög bjartsýnn á það nú að þessi áætlun komi til með að standast. En hitt er annað mál að stofnanir eins og sjúkrahús og fleiri slíkar eru þess eðlis að það er alltaf verið að taka nýjar og nýjar deildir í notkun og það kallar á aukin útgjöld, það kallar á aukið mannahald o.fl. Ég vil líka benda á það og svara þeim hv. alþm. sem um það hafa rætt að 600 millj. kr. tekjumissir ríkissjóðs vegna niðurfellingar á tekjuskatti sem nemur þeirri upphæð er raunverulega niðurfelling, vegna þess að eins og hv. alþm. sjá í frv. eins og það var lagt fram er þar gert ráð fyrir að innheimta 600 millj. kr. á móti þessari tekjuskattslækkun með óbeinum sköttum, en nú er ekki gerð till. um það. Hitt er svo annað mál að það er líka staðreynd að uppsafnaður söluskattur á sjávarútvegi, sem mun líklega verða 400–450 millj. kr., þetta er áætlun, er endurgreiddur til sjávarútvegsins. Og frekar en að leggja á aðra skatta til að afla tekna til að mæta því sem gert er ráð fyrir að fella niður, en það er bara á þessum tveimur liðum um 1000 millj. kr., 600 millj. í tekjuskattinum og um 400 millj. í endurgreiddum söluskatti til sjávarútvegsins, þá er lagt til að auka söluskattsinnheimtu um 1/2%, ca. 200 millj., og því er dreift á fólkið allt í gegnum óbeina skatta. Það er það eina sem ríkissjóður hefur í tekjum á móti. Ef aftur á móti við hefðum ekki fellt niður tekjuskattinn og ekki endurgreitt söluskatt til sjávarútvegsins þá værum við ekki með hallafjárlög. Það eru bara þessi tveir liðir þrátt fyrir allt annað.

Hv. þm. Karvel Pálmason gat um að felldir væru niður ýmsir liðir sem hingað til hafa verið á fjárlögum til aðila vinnumarkaðarins. Það er að hluta til rétt. Það sem ekki er rétt hjá hv. þm. er það að enginn samningsbundinn liður er felldur niður. Og enn þá er reyndar ekki neitt fellt niður því að ég vil benda hv. þm. á að liðurinn 07 981 er safnliður fyrir þessa liði og hljóðar upp á 9 millj. 712 þús. kr. og er það fjvn. sem mun skipta þeim.

Ég vil aðeins gera athugasemd við það sem virðulegur fyrrv. fjmrh. sagði hér áðan, hv. 3. þm. Norðurl. v. Hann sagði þegar hann talaði um Lánasjóðinn að það vantaði 380 millj., eða eins og hann sagði orðrétt: 380 millj. sem skilur á milli framlaga skv. fjárlögum og gefinna loforða stjórnarinnar. (Gripið fram í: Nei.) Þetta skrifaði ég niður. RA: Lágmarksfjárþörf skv. áliti sjóðsstjórnarinnar.) Ég tók svo eftir að hv. þm. talaði um gefin loforð. Þess vegna geri ég þetta að umræðuefni hér og nú. Ég bið afsökunar ef það er rangt. En það vill oft verða svo að gefin loforð þeirra sem starfa í stjórnum og nefndum hvort sem það heitir Lánasjóður eða húsnæðismálastjórn eða eitthvað annað, geta ekki orðið bindandi fyrir Alþingi. Það er alveg útilokað að við getum stjórnað á þann hátt að fólk, sem starfar undir einhverjum ráðh., geti gefið loforð sem fjmrh. verður svo að standa við. Það er alveg útilokað.

Ég tek undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v. og öðrum þeim sem hafa talað hér um niðurskurð að það er niðurskurður á flestum ef ekki öllum þeim liðum sem gerðir hafa verið hér að umræðuefni. Og ég get fullvissað hv. alþm. um að það er ekki af neinni mannvonsku, þar vita þeir betur, það er af þörf. Síðan má deila um það hvort þessi niðurskurður eða hinn, hvort þetta framlag eða hitt, eða hvort þessi skattur eða hinn er réttlátari en einhver annar. Hér kemur svo margt til. Hér koma m.a. til pólitískar andstæður flokkanna og þingmannanna innbyrðis. Síðan kemur, eins og kom svo greinilega fram hjá hv. 3. þm. Reykv., kjördæmapot. Ég skal viðurkenna það að ég hef ekki notfært mér sem 1. þm. Reykv. aðstöðu mína sem fjmrh. til þess að hygla Reykvíkingum eða Reykjavík. Ég skal viðurkenna það. Og ég er alveg viss um það, af því að ég þekki Reykvíkinga vel því að hér er ég fæddur og uppalinn, að þeir ætlast ekki til þess að ég misnoti aðstöðu mína þeim í hag.

Það er rétt að ég sem 1. þm. Reykv. hef ekki kallað saman fund með borgarstjórn eða þingmannafund hér. En ég hef rætt það mál við borgarstjóra og á þeim tíma var ekki talin ástæða til þess. Við skulum bara átta okkur á því, og þar vil ég taka undir það sem oft kemur fram hjá þm. annars staðar að en úr Reykjavík, að borgarstjórn Reykjavíkur og sveitarstjórnarmenn hafa svo miklu betri aðstöðu en nokkrir aðrir sveitarstjórnarmenn til þess að hitta daglega, ef þeir óska eftir, einhvern úr þeim nefndum og ráðum sem skipa stjórnkerfi íslenska ríkisins, og það kostar þá enga peninga og lítinn tíma miðað við það sem það kostar sveifarstjórnarmenn utan af landi. Það hvarflar ekki að mér meðan ég er fjmrh. að láta Reykvíkinga nota mig eða misnota sér í hag. Og ég held að þeir þm. sem leitað hafa til mín hafi ekki undan neinu að kvarta um þá afgreiðslu sem þeir hafa fengið þó að þeir hafi ekki verið þm. Reykvíkinga:

Ég tel sjálfsagt að athuga þá liði betur sem hv. 3. þm. Reykv. gat um. Það er Blindrabókasafnið. Málefni aldraðra eiga eftir að skýrast betur og við skulum sjá hver niðurstaðan verður þegar kemur að 3. umr. Öryggismál sjómanna eru mál sem enginn vill trassa og ég tel rangt að taka þá áhættu að spara of mikið í slíkum liðum. Hvort það er nokkurra króna meiri eða minni halli á ríkissjóði getur ekki skipt neinu máli þegar slíkir liðir eiga í hlut. Ég tel sjálfsagt að athuga það betur.

En þrátt fyrir þá lágu upphæð sem við höfum til ráðstöfunar til dagvistunarheimila o.þ h. held ég að það sé rangt hjá hv. 3. þm. Reykv. að leita megi langt aftur í tímann að annarri eins meðferð á málefnum Reykvíkinga eins og 1984 og 1985. Ég held að það sé nú ekki mjög langt sem þarf að leita — og þó, það þarf að fara til Akureyrar. Þar eru þessi mál í höndum vinstri stjórnar og ég held ég megi segja bara undir stjórn kvennaframboðslistans og mér er ekki kunnugt um að eitt einasta dagvistunarheimili hafi verið byggt þar á þessu kjörtímabili sem þessir aðilar hafa stjórnað. Það kom fram í ræðu í borgarstjórn núna fyrir nokkrum dögum. Og mér er ekki heldur kunnugt um að vinstri meiri hlutinn í Reykjavík hafi byggt eitt einasta dagheimili. En mér er kunnugt um að þeir tóku í notkun á sínum tíma dagheimili sem borgarstjórnarmeirihluti sjálfstæðismanna hóf byggingu á en voru á lokastigi og kláruðu á kjörtímabili vinstri meiri hlutans. Ég held því að það fari ekkert á milli mála að hvernig sem hv. 3. þm. Reykv. reynir að æsa sig upp hér í ræðustól, þá getur hann aldrei talið Reykvíkingum trú um það það getur verið að hann telji einhverjum öðrum trú um það — að borginni sé illa stjórnað undir þeirri forustu sem hún nú lýtur. Það er mesti misskilningur og ekki einu sinni hægt að nota í kosningum, hvað þá svona á milli kosninga. En þessi 17%, sem fara til dagvistarheimila skv. fjárlögum núna, eru tæpar 6 millj. kr., ekki bara 10 þús. á hvert heimili. Það eru samtals nánar tiltekið, 5 millj. 916 þús. kr.

Það er alveg rétt að hér hefur verið þensla. Hún hefur verið hér oft áður. En fólk utan af landi er alltaf velkomið hérna og Reykjavíkurborg hefur ávallt reynt að búa vel að þeim sem hafa komið hingað til langdvalar.

Ég skal fúslega verða við ósk hv. 3. þm. Reykv. um að við hittumst, þm. Reykvíkinga, enda er það undirskrifað samkomulag, sem hefur verið gert á milli borgarstjórnar Reykjavíkur og alþm. Reykvíkinga, að kalla beri saman fund ef óskað er eftir því. Að öðrum kosti er reiknað með að við hittumst einu sinni á ári ef engin sérstök tilefni eru til funda, annað árið undir forustu borgarstjórans í Reykjavík og hitt árið undir forustu 1. þm. Reykv. Ég veit nú ekki hvor aðilinn á að hafa forustuna að þessu sinni og boða þennan fund, en mér er ljúft að verða við því og skal sjá til þess að það verði gert.

Það hefur verið drepið á fjölmörg atriði í því frv. til fjárlaga sem hér er til umr. Bæði hefur komið fram gagnrýni á meginstefnu frv. og einnig á einstaka fjárlagaliði. Að sjálfsögðu er öllum frjálst að hafa skoðun á stefnu þessa frv. Hv. þm. Guðmundur Einarsson taldi frv. þannig úr garði gert að það lýsti engri pólitískri stefnu, það væri hlutlaust. Auk þess lét hann að því liggja að frv. væri ekkert annað en reikningsæfing nokkurra embættismanna. Ég skil ekki alveg hvað þm. er að fara. Ég held að þetta fjárlagafrv. sé að því leytinu öðruvísi en fjárlagafrv. hafa verið að það gefur þó nokkuð betri heildarinnsýn í stöðu ríkisfjármála með þeirri breyttu reikningsaðferð, eða breyttu bókhaldsaðferð skulum við segja, sem sýnd er og er lögð til af Alþjóðabankanum.

Það var talað um af einhverjum þm. í þessum ræðustóli í dag, ég man nú ekki hver það var, að bara við þessar breytingar hefðu erlendar skuldir hækkað um helming. Fjarri fer því að þær hafi hækkað um helming bara við það að breyta reikningsaðferð og meta má það til hagræðis að nú eru hv. alþm. betur upplýstir með því að hafa tölurnar allar á sama stað.

Það er óhætt að spyrja þá sem ekki sjá neina stefnu í þessu fjárlagafrumvarpi hvort það sé ekki stefna að draga úr framlögum t.d. til niðurgreiðslna á vöruverði. Nú er stefnt að því að greiða niður 1.2% í framfærsluvísitölu í stað 3–4% eins og var á tímum fyrri ríkisstjórnar. Er það stefna að takmarka framlög til útflutningsuppbóta þannig að þær verði 380 millj. kr. í stað 500 millj. kr. sem útflutningsbótarétturinn kallar á? Er það stefna að takmarka framlög til atvinnuvegasjóða og annarra framkvæmdasjóða? Ef við lítum á fleiri stefnuatriði þá kemur fram í þessu frv. að framlög til húsnæðismála tvöfaldast frá árinu 1984, voru 400 millj. í fyrra en 800 millj. í ár. Framlög til vegamála eru mjög umtalsverð eða 1.5 milljarður kr. Framlög til málefna fatlaðra aukast um 40–50%. Rekstrarhlið þeirra mála var á þessu ári 150 millj., framkvæmdir 60 millj.

Framkvæmdir í ár verða áfram 60 millj., en reksturinn fær 220 millj. Er það stefna að endurgreiða þennan söluskatt til sjávarútvegsins sem ég gat um áðan, 450 millj.? Og síðast en kannske ekki síst: Er það ekki stefna að lækka tekjuskatt einstaklinga um 600 millj.? Það kemur allt fram í þessu frv. Eða er það ekki stefna að Leggja 50 millj. kr. í fjárlögum núna til nýþróunar í iðnaði og einnig að ætla að afla lánsfjár sem svarar 500 millj. kr. í sama tilgangi? Ég held að hér sé hægt að lesa stefnu og þó nokkuð góða stefnu úr þessu frv.

Það hefur oftar en einu sinni verið vikið að því, sem er gagnrýnivert, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er ekki komin fram. Ég endurtek það og leyni því ekki að mér þykir það mjög miður, en ítreka að hún mun koma fram nú strax eftir helgina. Það er að sjálfsögðu betra að fá hana fram eftir að nýjar forsendur eru þekktar en að þurfa að leggja hana fram með sömu göllum má segja og sjálft fjárlagafrv. bar í sér.

Ég vil ekki gera Lánasjóð ísl. námsmanna að neinu sérstöku umræðuefni hér. Það mál hefur verið rætt og verður eflaust rætt frekar áður en fjárlagafrv. verður samþykkt.

Þá vil ég geta þess hvað varðar K-bygginguna að það hefur verið stefna ríkisstj. að hefja ekki nýbyggingu á árinu 1984. Þessari stefnu hefur í öllum meginatriðum verið framfylgt. Og ég verð að segja að þegar um svo stórar framkvæmdir eins og K-bygginguna er að ræða þá er tæplega réttlætanlegt að fjárfesta í mjög litlum áföngum og láta svo fjármagnið dorma, gefa ekkert af sér kannske svo árum skiptir, en hér er um byggingu að ræða sem er reiknað með að kosti fullbúin um 600 millj. kr. Þegar ákvörðun verður tekin um að fara af stað með K-bygginguna, þá verður það að vera gert þannig að haldið verði áfram með hana þangað til henni er lokið. Um það hefur verið samkomulag í ríkisstj. að hefja ekki nýbyggingar en að reyna heldur að klára það sem er hálfklárað hér og hvar um landið og gerir ekkert annað en að festa fé og verða dýrara og dýrara með hverjum deginum sem líður og ekki er hægt að taka það í notkun.

Það sem kom mér nú eiginlega til að standa upp var spurning hv. 3. þm. Reykv. um það fé sem lagt hefur verið í K-bygginguna, en það var 4 millj. kr. 1983 og 12 millj. árið 1984. Eins og menn vita hefur hluta af þessu fé verið varið til hönnunar og áætlunargerðar um bygginguna. En ég mun eftir því sem ég get beita mér fyrir því að þetta verði geymslufé. Annað væri að mínu mati ósanngjarnt.

Ég vil svo aftur þakka hv. alþm., þeim sem tekið hafa til máls og öðrum þeim sem að þeirra málflutningi standa, fyrir málefnalegar og góðar umr.