14.12.1984
Efri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

235. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. um nokkrar breytingar á lögum nr. 77/1979, um Háskóla Íslands. Þær tillögur sem hér liggja fyrir eru teknar upp úr tillögum sem háskólaráð gerði um breytingar.

Í fyrsta lagi er grein sem felur það í sér að verkfræði- og raunvísindadeild skiptist, ef frv. verður að lögum, í tvær deildir. Verkfræði- og raunvísindadeild er orðin mjög stór og verkefnin afar fjölbreytt og innbyrðis ólík sum hver. Þróunin hefur orðið sú að menn telja þennan kost vera mjög til hagræðis í starfseminni. Sá kostnaður, sem e.t.v. fylgdi þessu, er ekki talinn geta orðið nema hverfandi lítill því það sem um er að ræða er að deildaforsetum fjölgar um einn. Mundu þau laun sem fyrir það kæmu nokkurn veginn samsvara auknum stjórnarþætti í starfsskyldu hlutaðeigandi prófessors.

Í næstu grein frv. er lagt til að unnt sé að gera forstöðumann háskólastofnunar að prófessor, enda leggi háskólaráð það. til og um það séu nánari ákvæði í reglugerð. Þetta er nokkuð hliðstætt því sem nú gildir um flutning lektors í dósentsembætti. Þar er reyndar gert ráð fyrir því að það sé deild sem gerir þá tillögu og það má vel vera að í 2. gr. hefði átt að standa „háskólaráð og/eða deild“. Ég beini því til n. til athugunar. Því nefni ég þetta að sumar háskólastofnanir eru beint tengdar deild.

Í þriðja lagi er lagt til að rektor verði lögheimilað að vera leystur að fullu undan stöðu sinni sem prófessor á meðan hann gegnir rektorsembættinu. Ég hygg að þetta þurfi ekki miklar skýringar, jafnviðamikið stjórnunarstarf og rektorsstarfið er. Rektor geri að fenginni umsögn deildar tillögu til menntmrh. um hvern skuli setja í stöðuna á meðan.

4. gr. er í raun og veru lögfesting á framkvæmd og ekki nauðsyn að fara frekari orðum um það en þeim sem í greininni eru.

Í 5. gr. er meginatriðið í þessu frv., en það er að Háskólanum verði heimilt með samþykki háskólaráðs og ráðh. að eiga aðild að fyrirtækjum sem stunda rannsóknir og þróunarstarfsemi eða framleiðslu og sölu tengda slíkri starfsemi. Ég hygg að flestir á Alþingi séu nú orðið um það sammála að nauðsynlegt sé að tengja Háskólann betur atvinnulífinu og gera hann þar með að meira lifandi stofnun, ef ég má svo segja, og einnig að nýta sem allra best þá fjölbreyttu sérþekkingu sem starfsmenn Háskólans hafa og einnig þann búnað sem í stofnunum hans er. Aftur á móti gæti slík breyting líka leitt til þess að Háskólinn gæti aukið sértekjur sínar til þess að endurnýja tæki eða afla nýrra tækja eftir atvikum hverju sinni. Þetta er atriði sem háskólar margra landa hafa tekið upp og það hafa risið öflugar þróunarmiðstöðvar upp með atvinnufyrirtækjum í nánd við háskóla, en gert er ráð fyrir því að þessi lagabreyting gerði Háskólanum kleift að stofna þróunarmiðstöð sem nýtti þá þekkingu og þá aðstöðu sem ég hef um getið.

Það er vikið að þessum atriðum í skýrslu um þróun Háskólans og ég hef látið fylgja þessu frv. meginefni greinar eftir háskólarektor, þar sem hann fjallar einmitt um samstarf háskóla við fyrirtæki og sveitarfélög.

Ég held að þetta mál þarfnist ekki sérstakrar skýringar frekar. Ég legg á það áherslu að þetta mál fái framgang. Ég tel að það sé mjög mikilvægt vegna þess að við þurfum að auka nýbreytni í atvinnulífinu og nýta þekkingu þá sem fyrir er í landinu til að auka afrakstur okkar atvinnuvega. Það er unnið nú einmitt um þessar mundir að mjög mikilvægum nýjum verkefnum, nýjum vísindarannsóknum sem munu gera hráefni það sem framleitt er í landinu miklu verðmætara og auðvelda okkur að framleiða vöru sem verði vel samkeppnishæf á mörkuðum erlendis.

Ég legg til, hæstv. forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn. og tel að það væri mjög til góðs að greiða fyrir því að unnt væri að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum nú á þeim skamma tíma sem er eftir til jóla. Ég hygg að það geti varla verið mjög skiptar skoðanir um það efni sem í því er.