17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ekki skal ég efast um þann góða hug sem liggur að baki hjá flm. þessa frv. varðandi átak í dagvistunarmálum barna. Ég verð hins vegar að lýsa þeirri skoðun minni að ég hef vissar efasemdir um það að binda með þessum hætti ákveðinn prósentuhluta af fjárlögum til byggingar dagvistarheimila eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umr. Það er ýmislegt gott sagt í grg. frv. en sumt held ég að sé ofsagt. Þar er t.d sagt: „Íslenskt nútímasamfélag gerir með sanni ekki ráð fyrir börnum.“ Ég held að þetta sé ofsagt. Vissulega skal ég taka undir það að réttur barna í þessu þjóðfélagi er ekki ævinlega virtur sem skyldi, en ég held að fullyrðingar á borð við þessa hjálpi ekki í svona málum. Það er m.ö.o. verið að segja að börnum sé nánast úthýst úr okkar mannlega samfélagi. Þetta er allt of mikið sagt.

Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Helga Seljans 2. þm. Austurl., að ég held að hér eigi að athuga með hlut vinnuveitenda, atvinnurekenda að því að kosta þessi mál. Og ég held líka að það eigi ekki eingöngu að mæna á það að byggja upp stofnanir heldur eigi líka að horfa á aðrar leiðir í þessum málum. Ég sé t.d ekkert athugavert við það og fyndist það mjög ákjósanleg leið, ef fjárhagslega væri létt undir með þeim foreldrum sem heldur kjósa að hafa börn sín heima og annað hvort þeirra stundi þá ekki vinnu utan heimilis. Nú er öllum ljóst að í því samfélagi sem við búum við og því efnahagsástandi sem hér ríkir þarf hver fjölskylda a.m.k. tvær fyrirvinnur. Ég held að það hljóti fyllilega að koma til athugunar í stað þess að byggja æ dýrari stofnanir að taka upp greiðslur til þeirra foreldra sem vilja hafa börn sín heima á þeim aldri sem þessar stofnanir gera ráð fyrir, sem vilja vera heima hjá þeim, ala þau upp, kenna þeim þær umgengnisreglur og þann aga sem hér var á minnst. Að þá eigi þeir foreldrar rétt á fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera. Það hefur margoft komið fram að dagvistarstofnanir séu dýrar í byggingu og að ég hygg ekki mjög ódýrar í rekstri heldur. Ég held að menn megi ekki einblína um of á hinar hefðbundnu leiðir í þessum efnum. Við eigum ekki að binda okkur við það að þetta sé eina leiðin. Mér finnst það koma mjög vel til athugunar að hér yrði tekið upp einhvers konar kerfi líkt því sem ég nefndi, og ég veit að slíkt tíðkast sums staðar í öðrum löndum, í Hollandi t.d að ég hygg.

Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að það eru fleiri leiðir en sú sem hér er tilgreind að því marki að börn fái góða aðhlynningu og aðbúnað og hollustusamlegt uppeldisumhverfi.