14.12.1984
Efri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. hefur hér mælt fyrir frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforkusölu sem felur í sér lækkun þess gjalds. Er það í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar um að stefnt sé að lækkun gjaldsins. Ekki vil ég hafa á móti því að verðjöfnunargjald af raforkusölu sé lækkað og mun því mæla með því að frv. þetta verði samþykkt, en ég leyni því ekki að í huga mér er mörgum spurningum ósvarað í sambandi við þetta mál í heild sinni.

Ég viðurkenni að það fyrirkomulag sem er á innheimtu og álagningu verðjöfnunargjalds af raforkusölu er á margan hátt gallað og stærsti gallinn er að sjálfsögðu sá að mest gjald er heimt af því orkuverði sem hæst er. Einnig er það galli á þessu gjaldi að til eru ýmsar rafveitur í landinu sem hafa neyðst til að selja orku á hærra verði en þeir aðilar sem notið hafa gjaldsins, þ.e. Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins. Hvort tveggja þetta bendir eindregið til þess að málið í heild þurfi endurskoðunar við.

Hinu er ekki að leyna að í þessu efni eru margar leiðir til og auðvitað er hægt að stuðla að verðjöfnun á raforku með ýmsum hætti. Það er t.d. hægt að greiða þessa verðjöfnun alfarið úr ríkissjóði með beinum framlögum á fjárlögum til þeirra fyrirtækja sem verst eru talin sett, ellegar með yfirtöku lána eins og hér eru gefin vilyrði um. Ég tel að verðjöfnunargjald af raforku gefi út af fyrir sig átt rétt á sér og sé kannske ekkert lakari leið en sú að yfirtaka lán eða greiða framlög til raforkufyrirtækja á fjárlögum, en þá yrði sú leið að vera með allt öðrum hætti en sú sem farin hefur verið, þ.e. að leggja gjaldið á síðasta stig viðskiptanna, þ.e. á söluna til notendanna. Það væri þá miklu frekar að gjaldið væri lagt á heildsölu raforkunnar, eins og gert var fyrir langa löngu þegar gjaldið var lagt á heildsölu og raunar var þá föst upphæð á hverja orkueiningu, en hækkaði ekki í hlutfalli við orkuverðið.

Það hefði sem sagt vissulega komið til greina að breyta verðjöfnunargjaldinu með þessum hætti í aðra tegund jöfnunargjalds því að ég vil leyfa mér að benda á í þessu sambandi að menn eru ekki að sleppa við gjöld með því að leggja niður verðjöfnunargjald á raforku. Auðvitað eru menn ekki að eyða þessum vanda með einu pennastriki þó að þessi lög séu felld úr gildi eða álagningin lækkuð. Vandamálið heldur áfram að vera til. Með þeirri leið sem hæstv. ráðh. er að boða er verið að yfirfæra þetta.vandamál yfir á ríkissjóð. Ríkissjóður á að taka við svo og svo miklum lánum, greiða af þeim afborganir og vexti og koma með þeim hætti í staðinn fyrir þá aðstoð sem verðjöfnunargjaldið hefur veitt Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Maður verður að gera ráð fyrir því að í grófum dráttum sé þarna um hliðstæðar upphæðir að ræða. Þær bara koma til skila til þessara fyrirtækja með öðrum hætti. Þær koma sem sagt frá ríkinu vegna þess að ríkið tekur að sér að greiða ákveðin útgjöld, afborganir og vexti af lánum sem þessi fyrirtæki hafa tekið, en á móti fá þau ekki hlut sinn í verðjöfnunargjaldinu.

Það hlýtur því að vakna sú spurning hvort ríkisstj. hafi hugleitt hvernig ríkissjóður ætlar að standa undir þessum nýju og væntanlegu skuldbindingum. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því hvort sú hlið málsins hefði eitthvað verið rædd. Það segir sig sjálft að ef ríkissjóður tekur á sig byrði á næstu árum sem samsvarar því hagræði sem falist hefur í verðjöfnunargjaldi til Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða er um verulega útgjaldaaukningu að ræða fyrir ríkissjóð. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvernig ætlunin sé að standa undir þeirri útgjaldaaukningu án þess að aukinn halli verði á ríkissjóði. Þó að yfirlýsing iðnrh. við 1. umr. um frv., sem hér var lesin af ráðh. sjálfum áðan, sé allra góðra gjalda verð er hún nú samt sem áður óneitanlega dálítið óljós. Hann segir, svo ég endurtaki yfirlýsinguna, af því ég hafði nú ekki heyrt hana áður, með leyfi forseta:

„Með tilvísun til fyrri yfirlýsinga um afnám verðjöfnunargjalds af raforkusölu og að fyrir fjárhag þeirra fyrirtækja, sem þess hafa notið, yrði séð með öðrum hætti lýsir ríkisstj. því yfir að hún mun leggja fyrir Alþingi í síðasta lagi haustið 1985 frv. til l. sem ræður þeim málum til lykta.“

(Iðnrh.: Ræður málunum til lykta, fjárhag fyrirtækjanna og niðurgreiðslunum.) Jú, meiningin er góð. Ég held ég skilji alveg hvað átt er við. Ég held ég skilji alveg hvað felst í þessari yfirlýsingu. En ég verð að segja alveg eins og er að það er nokkuð óvenjulegt að þessu máli sé ekki ráðið til lykta samtímis því sem verið er að taka ákvörðun um að breyta tekjustreyminu á öðrum kantinum, að þá sé ekki tekin ákvörðun á hinum kantinum jafnhliða um hinn enda málsins. Það er nokkuð sérkennilegt að ríkisstj. ætli sér að fresta því í heilt ár að hnýta þessa enda fasta því að ekki getur hún nú lofað einum eða neinum því að hún verði þá á lífi hvað þá meir og hún getur því ekki tryggt það með einum eða neinum hætti að hún geti staðið við þetta loforð. Það má vel vera að hún verði farin frá og raunar ekkert vitað um hvernig Alþingi tekur í óskir hennar þegar þar að kemur. Ég hygg að nokkuð óvenjulegt sé að á það sé treyst alfarið með þessum hætti að ríkisstj. sé til eftir eitt ár og að hún ráði þá nokkru um hvaða ákvarðanir Alþingi tekur.

Ég vil í fyrsta lagi lýsa óánægju minni með að ekki skuli endar vera hnýttir með traustari hætti en hér er gert um leið og ég spyr ráðh. hvort ekki hafi komið til tals hvernig ríkissjóður muni standa við þessa nýju skuldbindingu sína því að eins og ég sagði áðan hygg ég að í grófum dráttum megi ætla að skuldbinding ríkissjóðs á komandi árum vegna þessara áforma verði ekki lægri en sem nemur núverandi verðjöfnunargjaldi — eða það skyldi maður halda.