14.12.1984
Efri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. heilbr.- og trn. um frv. um eftirlaun til aldraðra.

Eins og kunnugt er mælti hæstv. heilbrrh. fyrir þessu frv. fyrir skömmu og er af þeim sökum ekki ástæða til að eyða löngu máli í þessa framsögu, en ég vil eigi að síður leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv.

Meginatriði frv. er fimm ára framlenging á gildistíma laganna, þ.e. til ársloka 1989. Þá er gert ráð fyrir að framlag lífeyrissjóða lækki úr 5% í 4% árið 1985 og í 3% 1986. Lagt er til að skilyrði fyrir rétti til eftirlauna verði óbreytt frá því sem nú er og útgjöld verði borin af sömu aðilum og hingað til. Loks má nefna breytt ákvæði um svonefnd grundvallarlaun sem réttindin reiknast eftir og ákvæði um mánaðarlega endurskoðun lífeyrisfjárhæða í stað endurskoðunar fjórum sinnum á ári eftir því sem launabreytingar gefa tilefni til.

Ástæðan fyrir till. um fimm ára framlengingu er m.a. sú að skilyrði um að umsækjandi hafi látið af starfi veldur því að yngstu árgangarnir sem rétt geta öðlast munu halda áfram að bætast í hóp eftirlaunaþega allt til ársins 1989. Með framlengingu um fimm ár er því komið í veg fyrir óvissu um réttindi slíkra manna. Af hálfu þeirra lífeyrissjóða sem þyngstar byrðar mundu bera ef lögin féllu úr gildi er jafnframt bent á að ýmiss konar rýmkun skilyrða fyrir bótarétti á undanförnum árum hafi haft í för með sér að sá hópur sem veita þarf viðtöku sé nú mun stærri en ætlað var í upphafi og skiptist auk þess með óeðlilegum hætti milli sjóða. Enn fremur hafi sjóðirnir með því að taka á sig greiðslu hinnar sérstöku uppbótar árið 1976 nú þegar um níu ára skeið borið verulegar byrðar vegna þessa kerfis, en hlutur Atvinnuleysistryggingasjóðs og ríkissjóðs hafi vegna mikillar verðbólgu jafnframt orðið minni en ráð var fyrir gert.

Frv. þetta ber að sjálfsögðu ljósan vott um að eftirlaunakerfi því sem hér um ræðir er ætlað að renna sitt skeið til enda á næstu fimm árum. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld og lífeyrissjóðir búi sig í tíma undir þá breytingu, þannig að ekki verði óvissa um réttindi neinna þeirra einstaklinga sem réttinda eiga að njóta svo og með tilliti til þeirra fjárhagsskuldbindinga sem breytingin hefur í för með sér.

Í heilbr.- og trn. var nokkuð um það rætt hverjir það eru einkum sem ekki öðlast rétt skv. lögunum um eftirlaun til aldraðra og II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda þótt þeir uppfylli aldursskilyrði laganna og hafi látið af störfum. Í því sambandi var okkur nm. í heilbr.og trn. Ed. bent á að frá upphafi hefur það meginsjónarmið ráðið að þann rétt, sem mönnum er tryggður, hefðu þeir keypt sér með iðgjaldagreiðslum ef lífeyrissjóðirnir hefðu verið starfandi á þeim tíma sem réttindin eru byggð á. Skilyrðið um 10 ára réttindatíma eftir 55 ára aldur, þó ekki lengra aftur en til ársbyrjunar 1955, útilokar þá sem ekki hafa haft atvinnutekjur eftir árslok 1963. Sama gildir um menn sem af heilsufarsástæðum ná ekki 10 ára starfstíma eftir 55 ára aldur og eiga ekki örorkulífeyrisrétt í lífeyrissjóði. Réttindi skv. lögunum tóku upphaflega einvörðungu til elli- og makalífeyris, en síðan var bætt við takmörkuðum rétti til örorkulífeyris. Loks má nefna menn sem telja sig uppfylla það skilyrði laganna að hafa stundað tryggingaskyld störf, en öðlast ekki rétt þar eð skattframtöl, sem leggja ber til grundvallar, bera ekki með sér að svo hafi verið.

Ég vil geta þess hér að Landssamband lífeyrissjóða hefur komið á framfæri við Heilbr.- og trn. samþykkt sem gerð var á aðalfundi sambandsins í októbermánuði, þess efnis að lögin um eftirlaun til aldraðra skuli látin taka gildi í árslok 1984 að undanskildum II. kafla þeirra laga. Þá hefur sambandið varpað fram þeim hugmyndum til samkomulags að framlag lífeyrissjóða verði 3% 1985, 2% 1986 og 1% 1987, en falli síðan niður, eða að framlenging laganna taki aðeins til næstu tveggja ára.

Eins og fram hefur komið treystir heilbr.- og trn. sér ekki til þess að verða við þeim tilmælum sem fram komu frá Landssambandi lífeyrissjóða í þessu efni.

Ég vil að lokum leggja áherslu á fyrir hönd heilbr.- og trn. að sem allra fyrst verði hafinn undirbúningur að framkvæmd þeirra breytinga sem óhjákvæmilegar verða þegar lögin falla úr gildi.

Eins og hv. alþm. hafa vafalaust tekið eftir á nál. fengum við til viðræðna í heilbr.- og trn. Hallgrím Snorrason, Guðjón Hansen og Pétur Blöndal, en hann ræddi við okkur fyrir hönd Landssambands lífeyrissjóða.

Nefndin leggur sem sé einróma til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.