14.12.1984
Neðri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Nú munu vera fjórtán ár liðin á þessu hausti frá því að fyrrv. formaður Alþfl. flutti fyrst till. hér á hinu háa Alþingi um afnám tekjuskatts á einstaklinga. Það hefur reynst torsótt að vinna því máli fylgi og gildir hið sama í því efni og um önnur þau róttæk umbótamál sem Alþfl.menn hafa flutt hér fyrstir manna á þingi, en hefur jafnan tekið einn eða tvo áratugi fyrir þm. annarra flokka að taka við sér og leggja málinu lið.

Þeir sem vilja beita sér fyrir afnámi tekjuskatts verða auðvitað í leiðinni að svara því hvernig þeir vilja mæta tekjumissi ríkissjóðs, hvort það á að vera í formi annarrar skattheimtu eða hvort því á að fylgja eftir með raunhæfum og framkvæmanlegum tillögum um niðurskurð ríkisútgjalda. Ef spurt er: Hver er skattastefna núv. ríkisstj.? þá er það útbreiddur misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að hún sé fólgin í skattalækkunum. Það er einfaldlega rangt. Það stenst ekki. Þessi takmarkaði fyrsti áfangi í átt til lækkunar tekjuskatts er t.d. ekki til marks um skattalækkunarstefnu. Fyrr á þessum degi vorum við að afgreiða fjárlagafrv. gegnum 2. umr. og þar staðfestist að núv. ríkisstj. hyggst mæta þessu tekjutapi ríkissjóðs í formi annarrar skattlagningar. Það kemur fram í auknum sköttum, auknum gjöldum og hækkuðu verði áfengis og tóbaks og það kemur fram í hækkun á tímabundnu vörugjaldi og má það heita dæmigert fyrir skattastefnu þeirra sjálfstæðismanna. Á stjórnartímabili sjálfstæðismanna í fjmrn. 1974–1978 var þessu tímabundna vörugjaldi komið á með ströngum fyrirheitum að það skyldi aðeins gilda í eitt ár. Síðan hefur það verið endurnýjað sífellt og linnulaust og er nú enn einu sinni höggvið í þann knérunn. M.ö.o.: hér er ekki um að ræða skattalækkun, heldur skattatilfærslu. Sjálfstfl. hefur látið undan síga að því er varðar tekjuskattana að hluta til, en ákveðið að bæta ríkissjóði upp tekjumissinn í formi hækkaðra óbeinna gjalda sem leggjast á neyslu. Hann hefur ekki staðið við fyrirheit sín og loforð um að taka á síþenslu ríkisútgjalda. Engar tillögur af viti koma frá málsvörum sjálfstfl. um niðurskurð ríkisútgjalda, hvorki um eignarhald ríkissjóðs á fyrirtækjum þar sem hagkvæmnisrök mæla með því að slík fyrirtæki eða starfsemi yrði seld og falin öðrum aðilum né í öðru formi.

Það er ástæða til að láta það koma fram við þessa umr. að fullyrðingar hæstv. fjmrh. um að hann hafi lækkað skatta eru alrangar. Það sem gerst hefur á fjármálaráðherratímabili hans er það að skattbyrði almennra launþega hefur þyngst, en því hefur hins vegar verið mætt með því að létta skattbyrði fyrirtækja og fjármagnseigenda. Þetta er hægt að rekja í mörgum liðum, en meginstaðreyndin er þó sú að hæstv. fjmrh. stendur frammi fyrir því að tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs er í raun og veru hrunið, það er ekki nothæft lengur sem tekjuöflunartæki. Það á við um bæði tekjuskattana, sem talsmenn allra flokka viðurkenna núna sem rangláta skatta, og um söluskatt þar sem fyrir liggja upplýsingar hér á hinu háa Alþingi um að skil á þeim skattstofni eru með öllu óviðunandi.

Þá er ástæða til að minna á að það sem kallað hefur verið „velferðarkerfi fyrirtækjanna í fjárbúskap ríkisins“ heldur áfram að þenjast út og virðist njóta sérstakrar verndar núv. stjórnarflokka. Það er ástæða til að minna á eftirgjöf á sölusköttum til sjávarútvegsins, upphæð sem nemur 500 millj. kr. eða ámóta upphæð og þeirri tekjuskattslækkun sem hér er til umr. Hæstv. fjmrh. horfir á það aðgerðarlaust að útistandandi óbeinir skattar eru ekki innheimtir í stórum stíl. Hann horfir aðgerðarlaust á tölulegar staðreyndir, sem koma jafnvel frá opinberum stofnunum, um skattsvik og skattundandrátt sem líðst í stórum stíl. Hann gerir sig jafnvel sekan um að standa hér upp og gera grein fyrir atkvæði sínu þegar Alþfl.-menn fluttu við fjárlagaafgreiðslu till. um 10 millj. kr. framlag til aðgerða gegn skattsvikum. Þá greiðir fjmrh. sjálfur atkvæði á móti þessu og vísar til þeirra raka að þegar hafi verið gert ráð fyrir fjárveitingum í þessu skyni. Það er einfaldlega rangt vegna þess að till. sem fyrir liggja um aðgerðir gegn skattsvikum voru í tólf liðum, sbr. bréf sem þingflokkur Alþfl. sendi hæstv. fjmrh. á sínum tíma, en ekki hefur verið gert ráð fyrir fjárveitingum til þess nema að hluta til.

Á það má minna að hæstv. fjmrh. hefur beitt sér fyrir lækkun skattprósentu á hlutafjáreign og hækkun frádráttarheimilda í því sambandi og lækkun skatta á arði hlutafélaga úr 65% í 51% af skattstofni sem er lækkun um fimmtung. Það er staðreynd að skattalækkun á hlutafjáreign og arði hlutafélaga hefur numið á yfirstandandi ári tugum milljóna í skattalækkun á vel stæðum fyrirtækjum. Það er ástæða til þess að minna hv. 2. þm. Reykn., sem hér talaði áðan, Gunnar G. Schram, á að hagdeild þeirra launþegasamtaka sem hann veitir forstöðu hefur komist að þeirri niðurstöðu að í stjórnartíð núv. ríkisstj. hafi átt sér stað skattalækkun til fyrirtækja á bilinu 1–1.5 milljarður kr. Í sömu álitsgerð sömu hagdeildar sömu launþegasamtaka eru færð rök að því að ef litið er á þessi mál í heild, þ.e. skattundandrátt, skattsvik og skattalækkanir til fyrirtækja í heild, miðað við full skil lögum skv., megi áætla að hér sé um að ræða tekjutilfærslu í þjóðfélaginu á tímabili hæstv. fjmrh. sem nemur hvorki meira né minna en 10 milljörðum kr.

Það er einnig staðreynd að skattbyrði fjármagnseigenda hefur verið lækkuð. Það hefur gerst með því að lækka eignarskattsprósentu úr 1.2% í 0.95%. Það hefur gerst með því að hækka frádrátt fyrir eignarskatt um 57%, sem þýðir skattalækkun um u.þ.b. 160 millj. kr. Það hefur gerst með því að auka skattfrádráttarheimildir til fyrirtækja sem leggja fé í sjóði með það að markmiði að verja því til fjárfestingar. Sú skattalækkun nemur verulegum upphæðum þó ekki sé hægt að tíunda það nákvæmlega í tölum. Að mati hagdeildar BHM er því hér um að ræða skattalækkun til fjármagnseigenda um 5–600 millj. kr. Hér er m.ö.o. um að ræða að í tíð hæstv. fjmrh. hafa verið fluttir til fjármunir í þjóðfélaginu með þeim hætti að þeir sem best eru stæðir í þjóðfélaginu hafa notið skattalækkunar sem má meta á bilinu 2–21/2 milljarður kr. og er þá ekki minnst einu orði á skattundandrátt. Á sama tíma er það staðreynd líka að skattbyrði launþega hefur verið aukin, fyrst og fremst í formi beinna skatta og þá til sveitarfélaga í formi útsvara og í annan stað með því að hlutdeild þeirra í félagslegum útgjöldum hefur stóraukist.

Ég spurði áðan: Hver er skattastefna ríkisstj.? Hún kemur fram af þessum staðreyndum. Skattastefna ríkisstj. hefur verið í því fólgin að þyngja verulega skattbyrði launþega, en létta skattbyrði fyrirtækja og fjármagnseigenda og þar er ekki um að ræða skattalækkanir. Ríkisstj. hefur brugðist þeirri skyldu sinni að svara þeirri spurningu, þegar hún núna stígur meira eða minna tilneydd þetta fyrsta skref í átt til tekjuskattslækkunar, hvernig hún hyggst mæta tekjumissi ríkissjóðs í staðinn. Hún hefur m. ö. o. ekki uppi neinar áætlanir um niðurskurð ríkisútgjalda, heldur mætir þessu eingöngu með auknum óbeinum sköttum á móti.

Þetta eru allt saman dæmi um að það er ekki aðeins að tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs er hrunið, heldur liggur ljóst fyrir að það verður að ganga í það verk að endurskipuleggja ríkisfjármálin í heild. Hér hefur verið lagt fram á hinu háa Alþingi nýtt frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku. Þegar þau mál eru skoðuð og spurt einfaldra spurninga, eins og t.d. þeirrar hvernig verðmyndun á orku er hagað í þessu þjóðfélagi, kemur á daginn að mörgum milljörðum kr. hefur verið kippt út úr hinu eðlilega verðmyndunarkerfi raforku og varpað með óbeinum hætti á herðar launþega í því formi að ríkissjóður er að taka á sig síauknar byrðar vegna fjárfestingarmistaka fyrirrennara hæstv. ríkisstj. Þessar upphæðir eru orðnar hrikalegar. Þar er ekki aðeins verið að nefna fjárfestingarskuldina frá Kröflu og vexti og afborganir af þeim ósköpum, heldur allt málið í heild. Fjárfestingar vegna byggðalína, vegna sveitarafvæðingar, Kröfluvirkjunin sjálf og hvers kyns millifærslur í þessum raforkusektor eru farnar að nema milli 7 og 8 milljörðum kr. Lítum á enn eitt dæmi um hrikalegt ábyrgðarleysi og fjárglæfra í þessu þjóðfélagi á undanförnum árum. Það nægir að vísa til lífeyrissjóðsmála. Það blasir við að lífeyrissjóðakerfið er ábyrgt fyrir skuldbindingum sem eru með þeim hætti að fyrir hverja eina krónu sem inn kemur í iðgjöldum og tekjum eru þrjár krónur þegar í skuldbindingum, sem þýðir í tilviki margra lífeyrissjóða að innan tíðar munu þessar skuldir falla á ríkissjóð, ella munu stórir hópar standa frammi fyrir því, þegar menn komast á eftirlaunaaldur, að þeir sjóðir sem menn hafa greitt iðgjöld í eru greiðsluþrota og geta ekki staðið undir skuldbindingum sínum.

Ef ríkisfjármáladæmið á Íslandi er skoðað í heild er ljóst að það er komið út í algjörar ógöngur. Sjálfvirknin í þessu kerfi í formi síþenslu ríkisútgjalda, sem byggjast á einhverjum tilteknum lögum, er eitt dæmið sem verður að stokka upp. Það verður að gerbreyta öllum vinnubrögðum við fjárlagagerð. Það verður að setja um fjölmargar ríkisstofnanir sólarlagslöggjöf. Það verður að ganga hreint til verks og flytja hér frv. til l. um sölu og afnám margvíslegra ríkisstofnana sem rök standa ekki til að séu íþyngjandi fyrir skattgreiðendur og launþega. Það er sama hvort litið er á tekjuhlið eða útgjaldahlið ríkisbúskaparins, hér er eins og engin hell hugsun hafi ráðið ferðinni árum ef ekki áratugum saman. Þetta kerfi er allt saman ónýtt. Og það er dapurlegt til þess að vita að hæstv. fjmrh. sem bregður sér alltaf öðru hverju í gervi verndara hins litla manns, hins almenna borgara, skuli í verki stýra fjármálum ríkisins með þeim hætti að byrðarnar af þessu ónýta kerfi þyngjast í sífellu á þessum almenna borgara, en síðan eru sérhagsmunaliópar sem hafa skarað eld að sinni köku og komið sínum hlut í sívaxandi mæli innan ríkisfjárlaga á herðar skattgreiðenda.

Það þarf að moka þennan flór. Það er alveg ljóst að út af fyrir síg þýðir ekki að standa hér í stól og ræða skattamál, hvorki við hæstv. fjmrh. né aðra ráðh. Þeir hafa engan áhuga á þessum málum og sennilega ekkert vit á þessum málum sýnist mér. Alla vega sýna þeir enga viðleitni í þá átt að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn né heldur neinn pólitískan kjark sem þarf til að taka ákvarðanir um að skera þetta ónýta kerfi niður við trog og byggja upp nýtt og nothæft í staðinn. Það lýsir sér best í því að öll fyrirheitin um skattalækkanir, sem Sjálfstfl. gekk með eftir seinustu kosningar, hafa ekki verið efnd. Þetta er aðeins sýndarmennska og viðleitni í þá átt, en mælt með skattahækkunum í staðinn.

Þegar vikið er að öðrum stórum þætti, sem reynt er að ræða í samhengi við skattamálin, sem eru húsnæðismálin, stöndum við frammi fyrir því að er verið að samþykkja fjárlagafrv. að því er húsnæðismál varðar sem er gersamlega út í hött og gagnslaust. Lánasjóðir húsnæðismála, hvort heldur er Byggingarsjóður ríkisins eða verkamanna, eru báðir gersamlega sokknir til botns í fjármálaóreiðu. Skuldirnar sem hvíla á þessum sjóðum eru komnar yfir milljarð. Þetta er allt saman fjármagnað á lánum, var m.a. s. á yfirstandandi fjárlagaári fjármagnað að verulegu leyti með erlendum lánum. Vaxtamunurinn, sem þarna er um að ræða á milli inn- og útlána, er slíkur að ríkisframlög fara að verulegu leyti í þá hít. Þannig er alveg sama hvar borið er niður í þessu kerfi, hvort heldur eru húsnæðismál, lífeyrissjóðir, velferðarkerfi fyrirtækjanna, tekjuöflun ríkissjóðs og gjaldahliðin. Hér er ósköp einfaldlega svo komið að lengra verður ekki haldið áfram á þessari braut. (Fjmrh.: Hvað segir þú um málið á dagskrá?) Um hvað? Um málið á dagskrá? Ég er að segja að þetta er ákaflega lítilfjörlegt mál og það sem ég er að gagnrýna hæstv. fjmrh. fyrir er að þegar hann er að skreyta sig með því að hafa stigið hér lítið skref í átt til skattalækkunar í formi tekjuskatts er hann að beita blekkingum því að hann er að afla sér nýrra tekna í staðinn í formi hækkaðra óbeinna skatta. Þar með hefur hæstv. ráðh. ekki einu sinni staðið við loforð sitt. Það var eitt af loforðunum að hann mundi segja af sér ef nokkurn tíma reyndi á það að hann þyrfti að standa frammi fyrir því að hækka skatta á almenna borgara. En það þýðir ekki heldur að rifja þau loforð upp. Þau hafa verið gefin svo oft - í sambandi við erlendar skuldir, í sambandi við hlutfali erlendra skulda af þjóðarframleiðslu, í sambandi við afborganir og vexti af erlendum lánum sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs, í sambandi við skattamál. Það er aldrei staðið við neitt. Þetta er dapurlegra en orð fá lýst.

Um málið er það að segja að orðið hefur samkomulag um að styðja þetta mál svo langt sem það nær, en um leið er rétt að taka það skilmerkilega fram að með því að leggja á aðra skatta í staðinn er hæstv. ráðh. að bregðast sínum pólitísku loforðum og vekja upp grunsemdir um hvert verður framhald málsins. Hér á að vera fyrsti áfanginn. Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að fylgja þessu máli eftir þegar fram í sækir, næstu áfanga, ef það er vilji hans að stefna að afnámi tekjuskatts á launatekjur að fullu? Ef hann reynist ekki maður til að skila tillögum um niðurskurð á ríkisútgjöldum, sem eru óþörf og íþyngjandi, lendir hann aftur í sömu ógöngum, og verður að bæta sér þetta upp með nýjum og nýjum óbeinum sköttum.