14.12.1984
Neðri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það mun hafa verið um svipað leyti fyrir um ári sem efnislega álíka frv. og það sem hæstv. ráðh. var nú að mæla fyrir var hér til umr. Ég tek undir með hæstv. ráðh. um að hér er gífurlega stórt mál á ferðinni, mál sem snertir nánast hvern og einn einasta Íslending á hvern veg verður með farið.

Ég ætla strax í upphafi að lýsa þeirri skoðun minni að ég er andvígur þessu máli. Mín skoðun hefur ekkert breyst frá því fyrir ári að ég mælti gegn því og greiddi atkv. gegn því hér á Alþingi. Mér sýnist hins vegar allt benda til þess að þetta mál verði hér afgreitt í svipuðum dúr og frá því var gengið eða með þeirri meðferð sem það fékk í hv. Ed. og þykir mér ólíklegt að neinar breytingar fáist á þessu máli frá afgreiðslunni sem þar varð. Ég vil eigi að síður segja örfá orð í upphafi þó að ég vilji á engan hátt gera tilraun til að tefja málið með einum eða neinum hætti. Það er hins vegar ástæða til að vekja á því alveg sérstaka athygli að stórmál eins og þetta skuli vera að koma inn í deildina aðeins viku áður en gert er ráð fyrir að þm. fái jólaleyfi. Ég er ekki með þessu að ásaka hæstv. ráðh. neitt sérstaklega í þessum efnum, en þetta er eitt af þeim mörgu málum sem þyrfti miklu meiri skoðun og lengri tíma til umfjöllunar en örfáar e.t.v. klukkustundir í nefnd á mesta annatíma þingsins.

Ég hygg að það hafi verið, og svo kom fram í fyrra, meginforsendur fyrir lagasmíðinni að í ljósi minnkandi aflamagns þyrfti að beita strangara aðhaldi til stjórnunar. Ég sagði eitthvað á þá leið, þegar frv. var til umr. hér á s.l. hausti, að verið væri að veita einstaklingi, í þessu tilfelli hæstv. sjútvrh., nánast alræðisvald yfir fiskvinnslu og fiskveiðum í landinu. Og ég er andvígur því. Þetta er ekki sagt til að hnjóða á nokkurn hátt í núv. hæstv. ráðh., heldur almennt því að hér er verið að afsala einum einstaklingi allt of miklu valdi. Hér sést miðstýringin í allri sinni nekt, ef svo má orða.

Ef það er rétt sem ég hef upplýsingar um, þá sýnist mér að þessi stjórnun, sem gilt hefur yfirstandandi ár, hafi ekki orðið til þess að aðhald yrði meira miðað við þær tillögur sem fram voru settar um veiðimagn. Á árinu 1983, þegar engin kvótaskipting var, a.m.k. ekki í þeim anda sem var í ár og gert er ráð fyrir að verði á næsta ári, hafði Hafrannsóknastofnunin gert ráð fyrir að veiða um 350 þús. tonn af þorski. Undir því kerfi sem þá var, skrapdagakerfinu, voru þó ekki veiddar nema 298 þús. lestir, þ.e. ekki var veitt undir þeirri stjórnun sem þá var að því hámarki sem fiskifræðingar lögðu til að leyft yrði.

Árið 1984 gerðu fiskifræðingar tillögu um 220 þús., ef ég man rétt, og það bendir allt til þess að veiðin fari upp í a.m.k. 290 þús. tonn. Það er allt sem bendir til þess. Þessi stjórnun, þessi miðstýring hefur því ekki leitt til þess að menn væru neitt nær því að standa við þær tillögur, sem fiskifræðingar telja að skynsamlegt sé að fara eftir, að magni til. Sú grundvallarástæða, ein af fleirum, er að þessu leytinu til, sýnist mér, fallinn um sjálfa sig, fyrir nú utan hitt að það er stór spurning hvort byggja á fiskveiðar á skyndiákvarðanatöku eftir tvær ferðir fiskifræðinga. Þarf ekki miklu meira til að koma til að hægt sé að byggja að verulegu marki á upplýsingum að því er þennan þátt varðar?

Nú er það augljóst og allir hafa viðurkennt það að skilyrði í sjónum eru á þessu ári miklum mun betri en áður hefur verið. Það bendir allt til þess að við séum að því leytinu til betur í stakk búin til að ná meira aflamagni með eðlilegum hætti en verið hefur, þannig að ekki er það ástæða til áframhaldandi stjórnunar í formi kvótaskiptingar. Ég held líka að það séu mjög breytt viðhorf hjá þeim aðilum sem fyrir um ári töldu á Fiskiþingi að grípa yrði til þeirra aðgerða sem kvótinn leiddi af sér. Ég held að þeir aðilar séu mjög á annan veg þenkjandi nú en þeir voru þá og telji að aðstæður og forsendur séu nánast gerbreyttar frá því sem þær voru þá til þess sem þær eru nú og þess vegna ætti að hverfa frá kvótaskiptingu í svipuðu eða sama formi og verið hefur við lýði yfirstandandi ár.

Nú hef ég ekki á móti því að reynt sé að hafa stjórn og reiðu á hlutum, en það er hægt að gera á margan hátt. Ég er t.d. sannfærður um að lagfæring á hinu svokallaða skrapdagakerfi hefði skilað sér miklu betur en það sem hér er lagt til og verið hefur við lýði í ár. Það var hægt að útfæra það á allt annan hátt og betri en gert var. Ég bendi t.d. á að hægt hefði verið og það hefði verið skynsamlegra margra hluta vegna, ef ekki flestra, að lengja t.d. þann tíma sem togarar voru stopp kringum áramót, kringum stórhátíðar, kringum verslunarmannahelgi og svo mætti fleiri tíma nefna sem hefðu skilað sér í aðhaldi að því er varðar stjórnun þessara veiða. Þá vil ég nefna eitt sem er kannske meginmálið, a.m.k. fyrir þá sem búa á svæðum þar sem fiskvinnslu og fiskveiðar stunda kannske 80–90% af vinnuaflinu. Ég held að það þurfi miklu meir en gert hefur verið í stjórnun fiskveiða á þessu ári að taka inn í þá mynd og inn í þá stjórnun það hlutfall stöðugilda sem er í fiskvinnslu og fiskveiðum á þessum svæðum. Það er raunar grundvallarskilyrði að þau svæði sem þannig eru sett, búa að svo stórum hluta í vinnuaflinu við þessar atvinnugreinar, njóti forgangs umfram önnur landsvæði. Það er talið að af sjálfu sér leiði og sé eðlilegt hugsun að þau landsvæði sem hægt er að byggja orkuver á og nýta þannig auðæfi okkar njóti forgangs í þeim efnum. Á nákvæmlega sama hátt hlýtur það að vera grundvallarskylda stjórnvalda að sjá til þess að því er varðar fiskveiðar og fiskvinnslu að þau landsvæði sem nýta þá stóriðju hafi forgang um sókn í auðlind, bæði vegna þessa og ekki síður vegna hins að það á auðvitað að stunda fiskveiðar þaðan sem það er hagkvæmast og ódýrast, gefur bestan arð. Það sjónarmið er, að mínu viti a.m.k., að litlu leyti haft í huga við þá kvótaskiptingu sem verið hefur á árinu í ár og hér er gert ráð fyrir að framlengja lítt eða óbreytta.

Ég sagði áðan að slíkt ógnarvald, liggur mér við að segja, eins og einum ráðh. er veitt með þessu er algerlega afleitt að mínu viti. Það liggja eins og rauður þráður í gegnum allt þetta frv. og þau lög sem fyrir hendi eru setningar eins og „ráðherra getur“. Það byrjar nánast hver einasta grein og ekki bara grein, heldur hver einasta mgr. í frv. á þessum orðum, „ráðherra getur“. Er forsvaranlegt fyrir löggjafarsamkomuna að afsala sér svo gífurlega miklu valdi í þessum þætti, sem ekki er nú svo lítill, á þann veg sem hér er lagt til að gert verði? Ég held að það sé óskynsamlegt allra hluta vegna að gera slíkt. Og ég ítreka: Það er ekki sagt vegna þess að ég sé að lýsa vantrausti á hæstv. núv. sjútvrh. Það ætti við um hvern og einn sem í því embætti kann að sitja. Kannske má bæta því við að ég vil ekki hæstv. núverandi sjútvrh. svo illt að sitja uppi með slíkt ógnarvald. Ég er ekki verri en það í hans garð.

Hæstv. ráðh. vék að því áðan að því miður, að hans áliti, hefði gildistímanum verið breytt í Ed. úr þremur árum í eitt ár. Ég hef þveröfuga skoðun. Ég fagna því að þó skyldi vera horfið frá því að láta slíkt fyrirkomulag gilda þrjú ár fram í tímann. Ég held að fyrr en seinna eigi menn eftir að komast að því að ekki verður hægt að una því fyrirkomulagi sem við nú búum við. Það er slíkur fjötur á dugnað þessarar stéttar sem við þurfum fyrst og fremst á að halda að skili sem mestu. Sjómannastéttin og útgerðaraðilarnir munu ekki sætta sig við það til lengdar að vera heftir eins og þeir hafa verið og hér er lagt til að verði áfram þrátt fyrir að allt bendi til þess að taka megi mun meira af fiskstofnunum en menn hafa talið undanfarið og í ljósi þess að þau svæði sem fyrst og fremst ættu að njóta þessara gæða hafi ekki notið þeirra.

Ég hef tölur um það t.d. að árið 1982 komu frá Vestfjörðum um 20% af útflutningsverðmæti þess sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna flutti út. Þar búa um 4–5% þjóðarinnar. Menn sjá á þessu hversu gífurlega stór þáttur í atvinnulífinu þessi grein er og það nær ekki nokkurri átt, að mínu viti, að þar sem þannig háttar til séu sett bönd á þá einstaklinga, sem geta aflað þessara auðæfa á hagkvæmastan hátt og sem ódýrast, og þeir fái ekki að njóta þess eins og hægt er og þá umfram aðra sem hafa aðrar atvinnugreinar úr að spila og geta skapað ný atvinnutækifæri á fleiri sviðum en í þessari grein. Það liggur við að Vestfirðir hafi veríð stimplaðir sem óhæfur landsfjórðungur til orkuöflunar, til iðnaðar í stærri stíl, og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. En þá hljótum við í ljósi þess að krefjast þess af stjórnvöldum að í þessum þætti sé svo á málum haldið að Vestfirðingar og þar með þjóðarbúið geti nýtt sér auðæfin úr sjónum. Ég verð að segja að hversu mikið ágæti sem menn telja kvótafyrirkomulagið, eins og það hefur verið á árinu í ár, tel ég það alveg fráleitt að setja t.d. handfæraveiðar undir kvóta. Ég tel líka mjög vafasamt að línuveiðar séu settar undir slíka mælistiku. Mér sýnist því allt bera að sama brunni, að óskynsamlegt sé flestra hluta vegna að framlengja það fyrirkomulag í stjórnun fiskveiða sem hér er lagt til og það geti verið beinlínis hættulegt fyrir þjóðina að gera slíkt. Númer eitt er að það er stórhættulegt að afhenda einum einstaklingi slíkt ægivald sem hér er lagt til að gert verði og því er ég andvígur.

Ég skal svo ekki, herra forseti, eyða lengri tíma að þessu sinni. Ég geri ráð fyrir að þegar málið kemur úr nefnd gefist betra tækifæri til að tjá sig í málinu.