14.12.1984
Neðri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tek eindregið undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram frá hv. 4. þm. Suðurl. og get stytt mál mitt hér við 1. umr. þessa máls með því að vísa til þeirra ábendinga og röksemda sem hv. síðasti ræðumaður flutti hér. Ég tel að mjög margar athugasemdir sé réttmætt að gera við þetta frv. sem hér er komið til hv. þd. rétt um viku áður en gert er ráð fyrir jólaleyfi og raunar tæpri viku áður. Það er mjög ámælisvert í rauninni að frv. um svo stórt mál skuli koma svo seint fram og þingnefnd ekki gefast færi til ítarlegrar athugunar á því, svo viðamikið sem þetta mál er.

Þetta gildir ekki síður vegna þess hvernig að málsmeðferð var staðið á síðasta þingi þegar unnið var að mörgu leyti við svipaðar aðstæður að þessu máli og þeim mun ríkari áhersla hefði verið að gefa Alþingi nú kost á því að meta reynsluna af þessari löggjöf og gera það vandlega. Ég hygg t.d. að það sjónarmið hæstv. ráðh., sem hann mælti hér fyrir og kemur fram í frv. eins og það var lagt fram upphaflega í hv. Ed., að æskilegt væri að hafa gildistíma laganna lengur en til eins árs, undirtektir við það sjónarmið hefðu kannske getað orðið aðrar ef mönnum hefði gefist aukið ráðrúm til þess að fara yfir málið og athuga það með nægan tíma og nægar upplýsingar fyrir framan sig. Ég tel það mjög eðlilega niðurstöðu hjá hv. Ed. að hafa breytt þessu ákvæði í ljósi þeirrar litlu vitneskju sem fyrir liggur um það m.a. hvernig hugmyndin er að beita því valdi sem frv. veitir heimild til, eins og fram kemur í grg., svo ég leyfi mér að vitna til lokaorða í grg. með frv., þar sem segir:

„Enda þótt eigi sé enn ljóst hvernig stjórn fiskveiða verði háttað ber nauðsyn til að aflað verði svipaðra lagaheimilda og gert var á síðasta ári.“

Þar kemur þetta alveg skýrt fram, að óvissa er mikil um það með hvaða hætti hæstv. ráðh. og ráðgjafar hans hyggjast standa að stjórnun veiðanna, þó að ég geri ekki ráð fyrir því að mjög róttækar breytingar séu fram undan í því efni frá þeim hugmyndum sem hæstv. ráðh. hefur hér viðrað, en um þetta höfum við enga vissu. Eins og menn muna þá var gagnrýni okkar Alþb.manna og margra fleiri á þetta frv. ekki síst fólgin í því mikla valdaafsali sem í því fælist, í þeirri miðstýringu gagnvart aðalatvinnuvegi landsmanna sem felst í þeim heimildum sem frv. veitir og hér var rakið m.a. af hv. 3. þm. Vestf. Karveli Pálmasyni og ljóst er þegar lagatextinn er lesinn, þar sem vísað er til ráðh. í hverri mgr. og á eftir hverri lagagrein sem þar er, og heimildir veittar sjútvrh. til þess að ráða ferðinni í þessum efnum.

Ég vil að það komi fram að ég tel stjórnun fiskveiða vera nauðsynlega og raunar hefði verið ástæða til að breyta til frá því kerfi sem kallað var skrapdagakerfi og reynt var hér fyrr á árum, að breyta frá því fyrr en gert var. Og ég er ekki andstæðingur þess að í verulegum mæli sé miðað við aflamark á fiskiskip. Það tel ég vera skynsamlega tilhögun, skynsamlegt að reyna slíka stjórnun veiðanna og hef áður lýst skoðunum mínum í þeim efnum og rökum sem að því lúta. Menn mega ekki blanda því saman, annars vegar þeim sjónarmiðum hvað sé æskileg aðferð og hins vegar hverjir fari með valdið í þessum efnum og hvernig menn vinni sig áfram að settu marki.

Það voru fluttar brtt. á síðasta þingi, þegar hliðstætt mál var til meðferðar, um það að Alþingi væri gefinn kostur á að marka megindrætti fiskveiðistefnu fyrir komandi ár með samþykkt þáltill. Ég held að þá leið hefði átt að fara þá og það sýndi sig að ráðrúm var fyllilega til þess, en því var borið við af hæstv. ráðh. þá og talsmönnum þessa máls að það væri ekkert ráðrúm til þess að þingið fjallaði frekar um málið. Reglugerð ráðh. lá hins vegar ekki fyrir fyrr en viku af febrúar eða 8. febr. á þessu ári þannig að fyllilega voru tök á því að ræða málið hér og marka meginstefnu innan ramma löggjafar um þessi efni.

Ég minni á það og vil leggja á það mjög ríka áherslu, eins og raunar kom fram hjá hv. 4. þm. Suðurl. í hans máli og hv. 3. þm. Vestf., að fráleitt er að vera að setja smábáta undir 10 brúttórúmlestum að stærð og jafnvel miðað við hærri mörk, hærri stærðarmörk, að setja þá undir kvóta. Sú tilhögun sem staðið var að á þessu ári tel ég að sé í rauninni víti til varnaðar í þeim efnum og raunar er undir það tekið í grg. með þessu frv. Þar kemur fram, með leyfi forseta, á bls. 3 í grg.:

„Þannig hefur reynslan verið af veiðum smábáta undir tíu lestum sem fiska úr sameiginlegu heildaraflamarki. Aflasæld smábáta hefur verið mjög misjöfn við landið og því hafa takmarkanir á sókn bitnað harðar á einstökum landshlutum en öðrum.“

Þetta segir í grg. með þessu frv. eins og það kom frá hæstv. ríkisstj. Það er ekki nema eðlilegt að í Ed. væri um þetta mál fjallað og að svo miklu leyti sem ég hef kynnt mér umsagnir sjútvn. Ed. þá eru þar allskýrir fyrirvarar í sambandi við aflamark eða kvóta á smábáta og ég vænti þess að þessi þingdeild sjái til þess að kveða með enn afdráttarlausari hætti á um þessi efni, þannig að hér verði felld inn í lagatexta þann, sem samþykktur kann að verða, skýr ákvæði um það að smábátar séu undanþegnir aflamarki og línuveiðar mættu þar fylgja í heild sinni að mínu mati. Það er fyllsta ástæða til að ýta undir línuveiði af mörgum ástæðum sem ég ætla ekki að fjölyrða hér um að þessu sinni. Ég vona sem sagt að þingdeildin geti sameinast um það að samþykkja tillögur þar að lútandi og æskilegast væri að sjálfsögðu að þær kæmu frá hv. sjútvn. sameiginlega, eftir að hún hefur litið á málið.

Ég ætla, herra forseti, nú við þessa umr. ekki að orðlengja þetta frekar. Það gefst hér færi síðar við 2. og 3. umr. máls að ræða þetta nánar. Ég harma það að tími deildarinnar og sérstaklega tími hv. sjútvn. verður mjög naumur til þess að fjalla um þetta viðamikla efni og hefði sannarlega þurft að halda öðruvísi á málinu þannig að menn hefðu getað afgreitt það með góðri samvisku hér út úr þinginu og gert á því nauðsynlegar breytingar.