14.12.1984
Neðri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér hefur stórt og viðamikið og viðkvæmt mál rekið á okkar fjörur. Það er ekki ástæða til að hefja um það langar umr. hér við 1. umr. málsins. Að sjálfsögðu verður því vísað til n. þar sem það fær eins nákvæma umfjöllun og hægt er á svo skömmum tíma sem nú er til jóla. Þó vil ég segja um það örfá orð á þessu stigi.

Ég held að það séu flestir hv. alþm. sammála um það að stjórnun fiskveiða verður að viðhafa með einhverjum hætti eins og ástandi aðalfiskistofna okkar er háttað. Þetta mál var rætt mikið fyrir einu ári síðan og þá voru samþykkt lög sem gilda til ársloka 1984. Ég hygg að margir hv. alþm. hafi þá verið í vafa um hvaða stefnu ætti að marka í þessum málum, en flestir hölluðust að því að þær aðalreglur yrði að móta m.a. með hliðsjón af eindregnum samþykktum Fiskiþings, sem þá var nýlokið en Fiskiþing á s.l. hausti, þ.e. haustið 1983, markaði mjög skýrar línur í þessum efnum. Og lögin sem sett voru hér á þingi voru held ég sett og samþykkt með hliðsjón af þeim samþykktum því að það er talið að illt sé að stjórna þessum þætti sjávarútvegsins nema í allnánu samráði við yfirlýstan vilja heildarsamtaka sjávarútvegsins.

En í einu atriði var þó horfið frá samþykktum Fiskiþings ef ég man rétt. Ég ætla að þar hafi verið talað um að miða mörkin milli smábáta og stærri báta við 12 tonn heldur en 14. En þegar þessar reglur litu dagsins ljós var búið að færa stærðarmörkin niður í 10 tonn. Þetta hef ég alltaf talið að hafi verið röng stefna. Ég tel það miður farið að frá þessum samþykktum Fiskiþings skyldi vera vikið. Þetta hefur mjög bitnað á ákveðinni bátastærð og valdið margs konar óþægindum sem mér eru kunn. Enda sýnir það sig nú, þegar litið er yfir reynslu liðinna mánaða og menn reyna að færa sér hana í nyt, að þá er þetta eitt af þeim atriðum sem staldrað er við. Og nú er talað um það að mér sýnist, a.m.k. í sjútvn. Ed. sem fjallað hefur um þetta mál, að þessi stærðarmörk, 10 rúmlestir, hafi verið þar allmjög til umræðu. Ég skil það svo að n. sé á því að endurskoða þurfi þessi mörk, jafnvel að færa þau upp í 15–18 lestir, með tilliti til þess m.a. að skráðar bátastærðir miðist ekki um of við þessa ákveðnu stærð. Þetta tel ég vera mjög til athugunar og horfa til bóta.

Ýmsir, þar með hv. 3. þm. Vestf. hér áðan, hafa gert mikið úr því að lög þessi leggi allt of víðtækar heimildir í hendur hæstv. sjútvrh. og vissulega er það rétt. Ef við lítum á frv., sem er mjög keimlíkt þeim lögum sem í gildi eru, þá eru þetta nú aðeins sex stuttar greinar en ein er þó miklu lengst, fyrsta greinin. En í frv. er held ég tólf sinnum talað um að „ráðh. getur“ eða „ráðh. er heimilt“. Það liggur við að segja megi miðað við þessi ákvæði laganna: Ráðh. getur allt. (Gripið fram í: Mætti þá ekki stytta lögin?) Ég skal ekki segja, e. t. v. geta hagsmiðir laga eitthvað breytt því í því efni. Það er alltaf gott ef hægt er að stytta lög.

Og menn hafa talað um mikla miðstýringu í þessum málum. Nú er það fjarri mér að drótta nokkru slíku að hæstv. sjútvrh. því að ég held að hann hafi reynt að halda á þessum heimildum eftir bestu samvisku. En það er ekki þar með sagt að sjútvrh. á Íslandi beri alltaf nafn Halldórs Ásgrímssonar þannig að miða verður við ráðherradóminn en ekki einstaklinginn sem gegnir embættinu hverju sinni. En heimildir laganna eru svo víðtækar að ráðh. stjórnar að sjálfsögðu þessum efnum öllum með reglugerðum og ýmsum ákvörðunum. Það segir að vísu hér í frv., og er það eins og stendur í núgildandi lögum, að ráðh. skuli hafa samráð við sjútvn. Alþingis um framkvæmd á ákvæðum laganna. Og ég legg ríka áherslu á að ráðh. hafi sem allra nánasta samvinnu við sjútvn. Alþingis. Hvort tveggja er að þar sitja menn, sem við veljum til þess að athuga þessi mál og eru þeim kunnugastir, og annað hitt að það er mikill styrkur fyrir hæstv. ráðh. sjálfan að hafa sem nánast samráð við þessa reyndu menn.

Mér heyrist á þeim umr. sem hér hafa farið fram í hv. deild og því sem rætt hefur verið í hv. Ed. að nú sé allmjög reynt að stefna í átt til aukins frelsis enda þótt menn hallist helst að kvótakerfinu áfram. Það er talað um aflamark, sóknarmark, tegundarmark og þar fram eftir götunum og að menn hafi nú frjálsara val en þeir hafi haft á þessu ári um hvort þeir halla sér að aflamarki eða sóknarmarki. Ég veit ekki hvort hið svokallaða tegundarmark er mjög mikið í umr. þó á það hafi verið bent. Þetta tel ég að sjálfsögðu vera til bóta.

Þá er einnig nauðsynlegt að horfa til hagsmuna hinna einstöku byggðarlaga. Þegar litið er yfir byggðir landsins hlýtur að koma í ljós að ýmsar þeirra eiga allt sitt undir þessari atvinnugrein. Þar eru menn frá fornu fari vanir að róa til fiskjar þegar gæftir eru sæmilegar og einhvers afla er von. Þeir fiska sem róa, hefur lengi verið sagt, og mönnum er ekki vel við að sitja í landi þegar dagar eru bjartir og logn á sjó. Þeim þykir ansi hart að mega þá ekki róa til þess að afla sér fiskjar í soðið a.m.k. Þetta er afar fjarstætt eðli þeirra og uppeldi að mega ekki róa þegar hugurinn stendur til þess.

Verði kvótakerfið svokallaða samþykkt áfram, eins og mér finnst allar líkur benda til, þá leyfi ég mér að leggja mikla áherslu á það að veiðar smábáta verði, eins og ég hef bent á, sem allra mest utan við þetta kerfi, þar með handfæraveiðar og línuveiðar eins mikið og fært verður talið. Ég býst ekki við, þó að þetta frv. verði samþykkt svona líkt og það lítur út í dag, að menn séu yfirleitt ánægðir með kvótann. En vonandi bíða okkar bjartari tímar í þessum efnum. Það eru ýmsir sjómenn sem minnast á það að lífríki sjávarins sé nú tekið að glæðast til muna miðað við það sem verið hefur á síðustu árum og að sjávarútvegurinn í heild, sem við höfum byggt alla okkar nútíð og framtíð á, megi vænta bjartari tíma þannig að hægt verði að losa um sem flestar hömlur sem á hann eru lagðar í dag. Og ég leyfi mér að gerast liðsmaður í hópi hinna a.m.k. hóflega bjartsýnu manna sem búast við bjartari hag sjávarútvegsins á allra næstu tímum.