17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

176. mál, lyfjadreifing

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta frv. og mælir með því að það verði samþykkt óbreytt. Hér er um að ræða breytingu á lögum um lyfjadreifingu, þ.e. 44. og 45. gr., þar sem um er að ræða að Lyfjaverslun ríkisins verður eins og var fyrir 1982 undir yfirstjórn fjmrn.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þetta frekar. En eins og a.m.k. sumum hv. alþm. mun kunnugt bar á góma í umr. í Nd. hvort ekki væri ástæða til að gera breytingar á 43. gr. laga um lyfjadreifingu, þ.e. þar sem þess er getið að Lyfjaverslun ríkisins annist framleiðslu lyfja og birgðahald Almannavarna. Hæstv. ráðh. gat þess við umr. í Nd. að það væri full ástæða til að setja nánari reglur í þessu efni, en til þess skorti lagastoð.

Sannleikurinn er sá að þess er hvergi getið hvert það birgðahald, eins og nefnt er í lögum um lyfjadreifingu, skuli vera, né heldur hverjir eigi að kosta það birgðahald. Ég vil skýra frá því að ég hafði í þessu efni samband við Guðjón Petersen forstöðumann Almannavarna ríkisins og innti hann eftir því hvort ekki væri ástæða til að gera þarna breytingar á, að lágmarki að setja þá inn í lagagreinina eitthvað á þá leið að nánari ákvæði verði sett í reglugerð um framkvæmd og kostnað vegna birgðahalds fyrir Almannavarnir ríkisins. Hann tjáði mér að lög um almannavarnir væru til endurskoðunar um þessar mundir og líklega kæmi fram frv. um almannavarnir áður en langur tími liði. Þessi mál, þ.e. lyfjamálin að því er varðar birgðahald Almannavarna ríkisins, heyra undir landlæknisembættið. Forstöðumaður Almannavarna taldi eðlilegast að þegar þetta frv., sem ég gat um, um Almannavarnir væri komið fram yrði fremur athugað um þær skyldur Lyfjaverslunar ríkisins að sjá um birgðahald fyrir Almannavarnir. Þetta mál yrði því látið bíða.

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að þetta kæmi fram við þessa umr. Eins og fram kemur og ég hef þegar greint frá leggur heilbr.- og trn. einróma til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.