17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs af lánum vegna byggingar stálvölsunarverksmiðju á þskj. 312.

Á fundi ríkisstj. 23. ágúst 1984 var ákveðið að fjmrh. undirbyggi frv. til l. um heimild til ríkisábyrgðar að erlendu láni er Stálfélagið hygðist taka. Stálfélagið hf. áformar byggingu stálverksmiðju í Fögruvík í Vatnsleysustrandarhreppi til framleiðslu steypustyrktarstáls og stangastáls til smíða. Efnahagslegar forsendur framleiðslunnar er fyrst og fremst stöðugur markaður innanlands fyrir afurðir, innlent brotajárn og hagstæð samkeppnisskilyrði vegna fjarlægðar annarra framleiðenda. Verksmiðja Stálfélagsins verði „mini“-verksmiðja, þ.e. lítil eining með staðbundnar rekstrarforsendur sem notar ekki járngrýti sem hráefni. Talsvert hefur verið byggt af slíkum verksmiðjum í seinni tíð. Í Bandaríkjunum hafa þannig verið byggðar um 40 „mini“-verksmiðjur síðustu tvo áratugina.

Halmstads Järnverk í Svíþjóð hefur síðustu árin haft stærstu markaðshlutdeild steypustyrktarstáls hérlendis. Verð á stálinu í sænskum krónum hefur farið hækkandi og sem næst tvöfaldast frá 1977. S.l. vetur tryggði Stálfélagið sér á hagstæðum kjörum notaða verksmiðju sem var í eigu Halmstads Järnverk, en það fyrirtæki keypti hana af fyrri eigendum fyrir nokkrum árum til að öðlast markaðshlutdeild hennar á sænskum markaði.

Verksmiðjan er í mjög góðu ásigkomulagi, nýlega endurnýjuð og hentar markaðsmöguleikum hér vel. Skv. áliti matsaðila um verksmiðjuna er óvenjulegt að hægt sé að finna notaðar verksmiðjur sem henta aðstæðum annars staðar. Halmstads Järnverk, sem verður einn af stærri hluthöfum Stálfélagsins, kemur til með að styðja Stálfélagið við uppbyggingu framleiðslunnar hér, bæði tæknilega og markaðslega.

Stofnfjárþörf völsunarverksmiðjunnar er á októberverðlagi 103 millj. kr., sem fjármagnast með hlutafé að 30%, láni frá Norræna fjárfestingabankanum að um 50% og leigukaupum af tækjum að 20%. Hlutafé skiptist þannig að um 700 einstaklingar og 300 fyrirtæki innlend verða með 51%, Framkvæmdasjóður með 30% og Halmstads Järnverk með 19%. Tryggt hefur verið 13 millj. kr. framlag Vatnsleysustrandarhrepps í formi aðstöðu og fasteignagjalda fyrstu 5–10 árin sem notað verður til uppbyggingar bræðslustöðvar. Áfram verður unnið að öflun hlutafjár í samræmi við samþykkt síðasta aðalfundar félagsins. Þannig er hátt eiginfjárhlutfall fyrirtækisins tryggt.

Afkastavextir fyrirtækisins eru áætlaðir um 15% á föstu verðlagi miðað við 15 ára rekstrartímabil og lægsta afurðaverð í Skandinavíu. Gert er ráð fyrir að arðsemismöguleikar aukist þegar framleiðsla smíðastáls hefst, sem áætlað er að verði um áramótin 1986/87 á svipuðum tíma og brotajárnsbræðsla byrjar. Fyrir liggja hagstæð tilboð í bræðslutæki sem lækka mun stofnkostnað bræðslustöðvar verulega frá því sem fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. að lokinni umr. hér í þessari hv. deild.