17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

148. mál, fæðingarorlof

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Fá orð duga um þetta mál, svo oft sem ég hef rætt það hér í þessari hv. deild. Almennur stuðningur minn liggur þegar fyrir við meginatriði málsins. Fæðingarorlof er ótvírætt jafnréttismál og sjálfsagt að það sé eins langt og unnt er. Hér er um samfélagslegt verkefni að ræða sem vissulega hlýtur að vera eitt af þeim fremstu sem við verðum að leggja alúð við.

Eins og oft hefur komið fram hér áður í hv. deild skipta samskipti móður og barns fyrstu mánuði miklu meira máli en annað. En vissulega hefur framfærslu- og tekjuspurningin komið ríkulega hér inn í myndina, alveg sérstaklega í umr. um þetta mál á fyrri stigum. Þessu máli hefur þokað áleiðis, allt of hægt finnst eflaust sumum, en ótvíræðar réttarbætur hafa þó fengist og um það deilum við ekki.

Spurningin um tekjuviðmiðunina hefur ævinlega verið mjög til umfjöllunar í öllum umr., alveg sérstaklega þegar þetta mál var síðast hér til umr. sem stjfrv. Hér á ég alveg eins við launamismun almennt og um hitt atriðið er varðar launatekjur fyrir fulla vinnu utan heimilis, hálfa vinnu eða heimilisstörfin ein, eins og það er nú oft orðað. Um heimilisstörfin ætla ég ekki að ræða. Það hefur verið gert svo oft áður. Vanmat á þeim störfum hefur víða komið fram og þarf vissulega að taka þau mál frá grunni. Spurningin er aðeins um það á hvern hátt menn nálgast það mat þótt greinilegt sé að viðhorf séu að breytast til þess máls.

Ég nefni sem dæmi að inn í þetta fæðingarorlofsmál hefur oft komið spurningin um hinar misjöfnu aðstæður heimavinnandi. Ég tek dæmi um konu með erfitt heimili m.a. vegna umönnunar eldra fólks eða þá barnafjölda eða annarra aðstæðna, svo sem heilsufars. Hv. 6. landsk. þm. fjallaði nokkuð um slíkar aðstæður varðandi skattamál á dögunum. Ég get út af fyrir sig tekið undir hans mál að öðru leyti en því sem sneri að skattamálunum beint, þar var ég nokkuð á öndverðum meiði. Þessi kona hefur aldrei náð að ávinna sér þann rétt sem er bundinn ótrúlega mörgu sem beinar launatekjur færa. Þá á ég ekki einungis við fæðingarorlof heldur margs konar réttindi önnur. Þó vissulega sé oft um tvöfalt vinnuálag að ræða hjá þeim sem stunda hvort tveggja er réttur enginn. Einstæð foreldri hafa einnig sína sérstöðu sem ekki þarf að rekja, en þar eru aðrir þættir í lífsaðstöðu og kjörum enn þá meira afgerandi.

Við höfum líka oft rætt um húsmæður í sveit sem vinna ótaldar vinnustundir að búskapnum og hafa sína sérstöðu. Með vissum aðgerðum hefur þegar verið reynt að tryggja réttindi þeirra að nokkru leyti. Það var gert með lögum um lífeyrissjóð bænda á síðasta þingi. Ber að fagna því. Hér er um vanmetið vinnuframlag í verðlagsgrunni að ræða og þó kannske enn frekar varðandi skattframtöl.

Ég hef íhugað það nokkuð að sama fæðingarorlof var lengt með tilheyrandi lágmarksgreiðslu, það kallar enn á spurningar sem tengjast launamismuni almennt og mér finnst skipta miklu. Þær spurningar eru ekki hér til umræðu frekar en annars staðar og ætti kannske að taka þær fyrir úti á launamarkaðinum. Þar er rétti vettvangurinn til að bæta úr launamismuninum þannig að öll áunnin réttindi fylgi í kjölfarið.

Á fundi með konum á Eskifirði nú í haust bar þessi mál á góma og það var greinilegt að þar voru ekki allar á eitt sáttar um það hvernig með þessi mál skyldi farið. Þar var t.d. á það bent að fæðingarorlof konunnar á lágmarkstaxtanum væri allt annað en þeirrar sem hefur vel launaða stöðu. Nefnt var dæmi um tvær systur sem báðar vinna fulla vinnu. Báðar fengu þriggja mánaða fæðingarorlof en fengju sex mánaða orlof skv. þessu frv. Tekjugrunnur annarrar var 14 700 á mánuði, hinnar 33 600 ef ég man þessar tölur rétt. Greiðslumismunur fæðingarorlofs var 56 700 en yrði 112 400 skv. þessu frv. eftir að það yrði að lögum. Því mér sýnist lágmarksviðmiðunin vera nokkuð svipuð í þessu frv. Þar kom fram sú hugmynd, sem ég vil benda á án þess að gera hana beinlínis að minni, að fæðingarorlofsgreiðsla ætti að vera hin sama til allra og það væri kannske næsta skref sem stíga ætti í þessum efnum. Ég benti á það á þessum fundi að dæmi af þessu tagi væru því miður nokkuð „absúrd“ ef svo má segja, þ.e. að ekki væri svo mikið um það að konur ynnu á háu töxtunum. Þarna er þó a.m.k. um rífleg meðallaun að ræða, þ.e. 33 600 á mánuði, og ekki mörg dæmi af því tagi. En á þetta var þarna lögð áhersla.

Máske verður þessum launamismuni breytt svo sem þörf er, en ekki er sú þróun byltingarkennd svo ekki sé meira sagt. En ég varpa þessu aðeins fram hér varðandi þetta tryggingamál þó ég geri mér grein fyrir því að þá kemur aftur hin hliðin um það að foreldri missi einskis í tekjum. Sem tryggingamál væri þessi leið, jöfn greiðsla til allra miðað við eðli málsins, að mörgu leyti leið sem ætti að skoða jafnhliða lengingu á fæðingarorlofinu.

Ég vil leggja því lið að þoka þessu máli áfram á sama hátt og gert hefur verið til jöfnunar fyrst og síðast og aukningar að sjálfsögðu einnig. Ég hygg að í hugum margra sé spurning um það hvert næsta skref eigi að vera svo árangur þess megi koma þar að mestu gagni sem mest er þörfin. Ég hef heyrt um það margar greindar meiningar á hvern hátt það skuli gert og þá þarf að huga að tekjuviðmiðuninni.

Málið er mál áfangasigra og þá áfangasigra verður áfram að tryggja. Því legg ég þessu frv. lið á þann hátt sem ég get. Það er greinilegt af öllu að hæstv. núv. ríkisstj. er ekki með neitt slíkt á prjónunum. Það verður a.m.k. ekki séð af þeirri málaskrá sem lögð er fyrir þetta þing að svo sé og kannske bíður bjartari tíð ef þessi ríkisstj. nær þá að lifa nokkra bjartari tíð yfirleitt. En á þessu þingi er greinilega einskis þaðan að vænta.

Það er því að vonum að þolinmæði sé á þrotum jafnvel hjá stjórnarliðinu eins og best sést á því að í Nd. hafa tveir hv. þm. Framsfl. flutt frv. um fæðingarorlof. En ég vek líka athygli á því að þar kemur glögglega fram hver var á sínum tíma fyrsti flm. þess máls fyrir næstum tveim árum, þ.e. hæstv. núv. félmrh. Hæstv. ráðh. er nú ekki staddur hér í þessari deild og vil ég því aðeins segja að það er heldur hljótt um hann í þessu máli nú. En hann hafði býsna hátt um þetta mál á sínum tíma og taldi að menn hefðu gert heldur lítið í þessum málum. Þó hafði hann tekið þátt í stjórnarsamstarfi um fjögurra ára skeið án þess að til hans hefði heyrst mikið fyrr en rétt fyrir kosningarnar. En hins vegar hefur þessi hæstv. ráðh. nú vitanlega góða aðstöðu til að hnippa í félaga sinn, hæstv. heilbr.- og trmrh., og saman gætu þeir þokað þessu virkilega vel á veg. Ég man vel eftir umr. um þetta mál síðast þegar það var á dagskrá. Þá kom fram gagnrýni á málsmeðferð þess úr röðum sjálfstæðismanna sem þá voru í stjórnarandstöðu. Ég þykist þess því fullviss að vandalaust sé að fá öflugt atfylgi stjórnarliða í þessu máli ef þeir aðeins myndu eftir því nú að þörf væri einhverra úrbóta eins og þeir töldu þá. Nýir áfangar sem allra lengst leggja grunn að betra þjóðfélagi, velferð þeirra yngstu er aldrei of vel tryggð og því skal undir meginmál þessa frv. tekið.

Ég vek á því athygli og tel það lofsvert að jafnhliða því að þetta frv. er lagt fram er lagt fram frv. um tekjuöflun á móti, nokkuð sem gerist allt of sjaldan. Ég get vel hugsað mér hana í þessu eða svipuðu formi, enda man ég það frá umr. í fyrra um tryggingamál almennt að ég benti á leið af þessu tagi sem gjarnan mætti hafa í huga sem æskilega tekjuöflunarleið. Ég get því lýst stuðningi við fylgifrv. þetta í leiðinni.