17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

148. mál, fæðingarorlof

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta frv. var hér til umr. á s.l. þingi og tók ég þá mjög undir efni þess. En í mínum huga er hlutverk ríkisvaldsins að jafna aðstöðu fólks. Í því sambandi er mikilvægt að allar konur hafi rétt til fæðingarorlofs án tillits til þess hvort konur eru heima- eða útivinnandi. Jafnframt er mikilvægt að lengja fæðingarorlof til þess að gefa foreldrum tækifæri til að annast börn sín heima fyrstu æviár þeirra.

Það er ein efasemd sem ég hef við þetta frv. og hún er í sambandi við að allir skuli halda þeim tekjum sem þeir hafa á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta gæti leitt til þess að forstjóri sem hefði 150 þús. á mánuði, eins og við heyrum dæmi um í dag, mundi fá það framlag á einum mánuði sem tæki almenna launakonu sex mánuði að ná. Þetta held ég að sé alls ekki rétt miðað við stöðuna sem við erum í. Þetta tel ég vera svonefnt yfirboð. Við verðum að vera raunsæ og rétta fyrst og fremst hlut þeirra kvenna sem hafa engan rétt á fæðingarorlofi nú, sniða okkur stakk eftir vexti og leggja fyrst og fremst áherslu á að ná til þeirra sem engan rétt hafa því að ríkisvaldið hefur ekki yfirráð yfir hinum almenna vinnumarkaði. Ef eitthvert fyrirtæki hefur tök á því að greiða sínu fólki mjög há laun getur það sama fólk ekki gert kröfu til þess að ríkisvaldið greiði því sömu laun á meðan það er í fæðingarorlofi. Þetta fólk er líka betur í stakk búið til að taka sér frí og annast sín börn en þær konur sem vinna í fiskvinnslu eða öðrum illa launuðum störfum eða heimavinnandi húsmæður sem hafa engan orlofsrétt.

Ég vil endilega undirstrika þetta. Mér láðist að sjá þetta í frv. áður en það kom til umr. á s.l. ári. Ég ræddi við konur sem voru að dreifa þessu frv. úti á landi í sumar og spurði þær um þetta atriði og þær höfðu ekki hugmynd um þetta. Ég vil því endilega undirstrika það í þessari umr. og heyra rök fyrir því að þetta þurfi endilega að vera inni í frv.