17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

147. mál, almannatryggingar

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 152 ber ég fram frv. til l. um breyting á lögum nr. 103/1980, um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum. Hér er um að ræða fylgifrv. með frv. til l. um fæðingarorlof sem ég hef hér þegar flutt. Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:

„Frv. gerir ráð fyrir 1% hækkun á framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga og er flutt til þess að afla tekna til aukinna fæðingarorlofsgreiðslna, sbr. frv. til l. um breyting á lögum nr. 91/1980, um fæðingarorlof, breyting á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum. Á fjárlögum 1984 er gert ráð fyrir að lífeyristryggingagjald atvinnurekenda nemi 410 millj. kr. og miðað við þá upphæð er hér um að ræða 205 millj. kr. tekjuaukningu ríkissjóðs.“

Ég vil láta þess getið að ef þessar tölur eru hækkaðar um 25%, miðað við nýgerða kjarasamninga, þá verða 410 millj. að 512.5 millj. og tekjuaukningin því um 260 millj. kr. en ekki 205 millj. kr. Þessi tekjuaukning nemur ríflega 2/3 þess kostnaðar sem lenging fæðingarorlofs hefur í för með sér. Síðan segir áfram í grg. með frv., með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í gögnum Þjóðhagsstofnunar um framvindu og horfur í efnahagsmálum, dags. 24. sept. 1984, er hagur atvinnurekstrar í landinu, að undanskildum sjávarútvegi, allgóður um þessar mundir. Á það einkum við um verslun, iðnað og ýmsar greinar þjónustu og munu þessar atvinnugreinar því auðveldlega geta borið þá gjaldaaukningu sem hér er lögð til.

Bætt aðstaða foreldra og ungabarna, sem lenging fæðingarorlofs felur í sér, skilar sér án nokkurs vafa í heilbrigðari einstaklingum. Á það jafnt við um börnin sem í hlut eiga og um foreldra þeirra sem nú eru uppistaða vinnuafls í landinu. Öllum atvinnurekstri er hagur að því að fá til starfa heilbrigða einstaklinga og því er sjálfsagt að atvinnurekendur leggi nokkuð af mörkum til þess að svo megi vera.“

Hér lýkur grg. með frv. og ég vil aðeins taka það fram að lagagreinin sjálf er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að í stað 2% kemur 3%. Ég hef nýverið lokið við að gera ítarlega grein fyrir nauðsyn á lengingu fæðingarorlofs svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka röksemdir mínar þar um nú. Það frv. sem hér er á ferðinni felur einfaldlega í sér öflun tekna til að standa straum af kostnaði vegna lengingar fæðingarorlofs þannig að ekki þurfi að treysta alfarið á fé úr ríkissjóði til þess hluta.

Það þarf í sjálfu sér lítið meira um þetta frv. að segja nema e.t.v. að hér er varla verið að ganga nærri atvinnurekstri í landinu. Hann hefur blómgast að undanförnu í skjóli núv. ríkisstj. eins og allar tölur sýna og sanna og ætti því að geta borið þá gjaldaaukningu sem hér er lögð til án stórskaða.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umr. um frv. óska ég eftir því að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.