17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Hv. flm. frv. sagði í ræðu sinni að fyllsta ástæða væri til að kanna aðrar leiðir í dagvistunarmálum barna. (SDK: Líka.) Líka, kallar þm., það fylgdi ekki máli. Að fyllsta ástæða væri til þess að kanna aðrar leiðir. Það þýðir að hv. þm. hefur í rauninni dregið til baka grundvallarástæðuna sem frv. byggir á, prósentutöluna.

Hv. þm. sagði einnig að því miður væru fjárveitingar skertar þrátt fyrir gildandi lög. Það er rétt. Það er einmitt meginmálið sem fram hefur komið hér í ræðum manna að verið er að huga að því að setja lög sem hægt er að framfylgja. Það má e.t.v. benda flm. á að það skiptir máli í þessum efnum kannske sérstaklega hvernig fiskast í landi okkar, hvort hægt er að framfylgja lögum á þessu sviði eða ekki.

Flm. spurði síðar í síðustu ræðu sinni hvaða önnur leið væri fær. Þó hafa ræðumenn hér bent á ýmsar leiðir sem ástæða er til að kanna og ýmsa möguleika en þó fyrst og fremst hver þörfin er og hvernig hún er í hinum ýmsu plássum landsins við hinar ýmsu aðstæður.

Það er rétt að taka undir hugmyndir sem fram hafa komið t.d hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni að hugsanlega eigi að koma til greiðsla til foreldra barna, sem eru heima, alveg eins og samfélagið, sveitarfélagið í þessu tilviki, styrkir þann sem lætur barn sitt á dagvistunarheimili. Af hverju ætti þá ekki sveitarfélagið að styrkja þann sem hefur barnið heima? Þó er hætt við að þarna gæti einnig skotið skökku við og farið úr böndum. En hugmyndin er skýr og klár.

Það kom fram í ræðu síðasta hv. ræðumanns, Davíðs Aðalsteinssonar, að ætlaðar væru 100 millj. kr. til skólamannvirkja á þessu ári í gerð næstu fjárlaga. Fjárþörfin á s.l. hausti fyrir þetta ár var 220 millj., en var skorin niður í 107 millj. Þetta sýnir aðeins hve óraunhæft er að binda slíkar tölur við ákveðið prósentuhlutfall.

Ég vil að síðustu mótmæla harðlega þeirri skoðun sem fram kom hjá hv. flm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur að það ætti ekki að vera einkamál fjölskyldu að öllu jöfnu hvernig barni væri fyrir komið eða það alið upp, það ætti að vera mál samfélagsins fyrst og fremst. Mér sýnist að hv. þm. sé þarna að taka undir Kúlá-sjónarmiðið, því miður. Það er grundvallaratriði að fjölskyldan haldi sínum rétti í okkar þjóðfélagi. Það á fyrst og fremst að vera mál fjölskyldunnar hvernig lífi hennar er lifað. Hitt er annað mál að samfélagið gerir auðvitað ákveðnar kröfur um að þar sé ekki látið leika lausum hala og eru svo sem nógir til að fylgja því eftir.