17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þessara síðustu orða vil ég taka fram að það er auðvitað einkamál hverrar fjölskyldu hvar börnin í þeirri fjölskyldu dveljast svo lengi sem þeim líður vel og þau búa við eðlilegar aðstæður og eðlilegan aðbúnað.

Ég ætlaði ekki að kveðja mér hljóðs aftur í þessari umr., en hins vegar sagði hv. 1. flm. þessa frv. þegar hún kom hér í ræðustól: „Ég mótmæli málflutningi hv. þm. Eiðs Guðnasonar.“ Og hvað var það sem ég sagði? Kannske hef ég ekki sagt það nógu skýrt og taldi ég mig þó hafa gert það eða þá að hún hefur ekki skilið mig. Ég sagði: Við eigum að leita fleiri leiða í þessum efnum en bara þessara hefðbundnu leiða að byggja alltaf nýjar og nýjar stofnanir. Og ég sagði: Við eigum að leita þeirra leiða að atvinnurekendur taki þátt í þessum kostnaði, við eigum að leita þeirra leiða og skoða þá leið mjög vel að greiða þeim foreldrum frá hinu opinbera, sem kjósa að vera heima hjá sínum börnum, a.m.k. þann kostnað sem hið opinbera hefði af börnunum á dagvistarstofnunum. Hún kaus að mótmæla þessum málflutningi mínum og auðvitað er henni það frjálst en ég vil bara ítreka þessar skoðanir hér.

Það er vandalaust að flytja hér till. um útgjöld úr ríkissjóði. Ég treysti mér til að flytja eina slíka till. á dag sem hver og ein væri um hið þarfasta mál á sviði félagsmála, heilbrigðismála, menntamála, samgöngumála o.s.frv. Ég skal flytja eina svona till. á dag. En þetta er bara ekki málflutningur sem þjónar tilgangi. — Hvort sem okkur líkar það betur eða verr verðum við að raða hlutunum í forgangsröð. Við getum ekki gert allt sem við vildum gera, hvorki á sviði skólamála, dagvistarmála né heilbrigðismála. Þess vegna verðum við að raða þessum hlutum. Mér þótti miður að heyra að hv. þm. Sigríður Dúna skyldi gera till. um að aukið fé til dagvistarmála kæmi frá samgöngumálum. Það sýnir bara hve lítið þessir hv. þm. Samtaka um kvennalista þekkja til vandamálanna úti á landi og hve samgöngumálin þar eru ríkur og brýnn þáttur. Ég veit að sá þáttur mála liggur ekki á þeirra áhugasviði en það eru aðrir þm. hér sem hafa áhuga á þeim málum og skilja mikilvægi þeirra fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Mér var sögð sú saga vestur á Snæfellsnesi í sumar þegar Kvennalistakonur fóru þar um og héldu fundi að til þeirra hefði verið beint spurningu um vegamál á fundi vestur á Hellissandi. Og hvert var svarið? Viljið þið ekki spyrja hann Skúla? Það var hv. þm. Skúli Alexandersson sem var staddur þarna á þessum fundi.

Það má sjálfsagt finna ýmsa matarholuna í þessu þjóðfélagi til að leita sér að fjármagni til að verja til þessarar starfsemi. Þar mætti m.a. huga að því að skattleggja atvinnureksturinn með einhverjum hætti. En ég vil bara ítreka þá skoðun mína hér að við eigum að leita fleiri leiða en þarna er gert ráð fyrir.

Hv. þm. sagði að við ræddum eitt mál hér í einu. Við erum að ræða margar leiðir að sama markinu og ég sé ekki að það sé neitt utan við þessa umr. þó að bent sé á að það eru fleiri leiðir til að tryggja velferð barna og eðlilegt uppeldi en bara sú að byggja stofnanir. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að binda okkur við að horfa bara á stofnanaleiðina. Hún getur verið nauðsynleg og er nauðsynleg í ýmsum tilvikum en það eru fleiri leiðir og það eigum við að hafa í huga við þessa umr. alla.