17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. hefur tekið þetta frv. til meðferðar. Hún hafði að vísu skamman tíma. En leitast var við að athuga málið af samviskusemi. Nefndin fékk þess vegna á sinn fund Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóra og fékk álit Kristjáns Haraldssonar orkubússtjóra. Þetta var gert með tilliti til þess að verðjöfnunargjaldið snertir fyrst og fremst eða nær eingöngu tekjulega séð fyrirtæki þessara framkvæmdastjóra, þ.e. Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Þeir lýstu yfir að þeir hefðu ekki við frv. að athuga.

N. leggur til að frv. verði samþ. Undir það skrifa allir nm., en þrír nm. með fyrirvara, Karl Steinar Guðnason, Stefán Benediktsson og Skúli Alexandersson.

Þetta frv., sem hér er lagt fram, er gamall kunningi þó að það beri að nú í öðru formi en venjulega og árlega hefur borið að á hv. Alþingi. Eins og þm. er kunnugt áttu lög nr. 83/1975, um verðjöfnunargjald af raforku, upphaflega að gilda í eitt ár og síðan hafa þessi lög verið framlengd árlega um eitt ár. En það hafa stundum verið gerðar breytingar á upphæð verðjöfnunargjaldsins. Síðasta breytingin var gerð fyrir, að mig minnir, tveimur árum þegar gjaldið var hækkað upp í 19%.

Þetta frv., sem við höfum nú hér til meðferðar, er samhljóða lögum nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald af raforku, nema að það eru felld niður úrelt ákvæði varðandi Rafmagnsveitur ríkisins. Að öðru leyti er hér um gamlan kunningja að ræða, ef svo má komast að orði.

Þó eru tvær breytingar í þessu frv. frá gildandi lögum. Það er annars vegar að verðjöfnunargjaldið er lækkað úr 19% í 16% og svo hins vegar að verðjöfnunargjaldið á samkv. frv. að greiða beint til Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, en ekki gegnum Orkusjóð eins og áður hefur tíðkast. Þessi breyting á greiðslunni er gerð vegna þess að talið er að það skipti engu máli að hafa þennan millilið í þessu efni og einn óþarfa milliliður er lagður niður í þessu sambandi.

Aðalatriðið er lækkun verðjöfnunargjaldsins. Það hefur verið gert ráð fyrir að Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúinu sé bætt upp það tekjutap sem þessi fyrirtæki verða fyrir á næsta ári eða því eina ári sem lögunum er ætlað að gilda ef frv. verður samþykkt. Það er gert með því að koma við skuldbreytingum lána hjá þessum fyrirtækjum. Skuldbreyting lána er í sjálfu sér ekki óafturkræft framlag eða styrkur eins og felst í verðjöfnunargjaldinu. Hins vegar hefur þessi ráðstöfun í för með sér að fyrirtækin verða ekki í greiðsluerfiðleikum á næsta ári vegna þessarar lækkunar verðjöfnunargjaldsins.

Það hefur verið talað um að halda lengra á þeirri braut að lækka verðjöfnunargjaldið. Ég skal ekki fara út í þá sálma hér. Þegar hefur verið talað um það. Þá hefur verið gert ráð fyrir því að á móti tekjutapi Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða vegna niðurfellingar verðjöfnunargjaldsins verði gerðar ráðstafanir sem bæta þessum fyrirtækjum þetta tjón.

Í því efni læt ég mér nægja að vísa til þeirrar yfirlýsingar sem hæstv. iðnrh. gaf um þetta efni við 1. umr. þessa frv. En í þeirri yfirlýsingu tók ráðh. fram að það yrðu gerðar ráðstafanir til að bæta fyrirtækjunum þann tekjumissi sem þau yrðu fyrir með afnámi verðjöfnunargjaldsins og ríkisstj. mundi leggja fyrir Alþingi í síðasta lagi haustið 1985 frv. til l. sem ræður þessu máli til lykta, eins og komist var að orði.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál eða fara að ræða hér sérstaklega spurninguna um verðjöfnunargjaldið, gildi þess forms á tekjuöflun fyrir Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Það mál hefur verið rætt svo oft hér áður. Eins og ég hef þegar tekið fram er þetta frv. í þessu sambandi einungis um það að lækka verðjöfnunargjaldið úr 19% í 16%.

Ég endurtek svo að iðnn. leggur til að frv. þetta verði samþykkt og það leggur iðnn. til í heild, en þrír nm., eins og áður hefur verið tekið fram, hafa fyrirvara að þessu áliti.