17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. iðnn. fyrir vel unnin störf og skjóta afgreiðslu þessa máls.

Ég gerði sömuleiðis fsp. til Rafmagnsveitna ríkisins, hver þeir hygðu að yrði þróunin hjá því fyrirtæki. Eins og fram kom í ræðu hv. 4. þm. Vesturl. hefur verið áformað að samræma nokkuð almenna taxta RARIK við það sem gerist hjá allmörgum öðrum rafmagnsveitufyrirtækjum á landsbyggðinni. Þeirra áform, fyrstu svör voru að meðaltalshækkun kynni að þurfa að verða alls um 20%. En menn minnast þess að við síðustu hækkun heildsöluverðsins, 5% 1. maí s.l., varð engin hækkun á smásöluverði.

Það er frá því að segja að það var óskað eftir að þeir tækju sérstakt tillit til húshitunartaxtans og það gerðu þeir með því að setja þá fram nýjar hugmyndir um 17% hækkun húshitunartaxtans og 22% hækkun á öðrum töxtum sem mundi þá þýða aðalálag á iðnað. En hafa ber í huga að um 60% af rafmagnssölu RARIK eru til húshitunar, þannig að menn geta þá gefið sér að yrði um 19% meðaltalshækkun á öllum töxtum hjá Rafmagnsveitum ríkisins.

Ég hef gert fsp. til Rafmagnsveitu Reykjavíkur um þeirra áform og svarið var sömuleiðis munnlegt: 20% hækkun sem þeir telja sér nauðsyn á að nái fram að ganga. Fyrir því hlýt ég að svara hv. 4. þm. Vesturl., að eins og stendur er ekki líklegt að dragi sérstaklega sundur um þær viðmiðanir sem verið hafa milli landsbyggðar og Rafmagnsveitu Reykjavíkur að þessu leyti. Nóg er nú samt því að ískyggileg er þessi þróun og þeir sem þekkja til á landsbyggðinni vita hve lítt bærilegur og nánast að segja óbærilegur þungi það er hjá almenningi að standa undir kostnaði við hitun híbýla sinna. En málum er ekki ráðið til lykta enn vegna þess að ekki hefur verið tekin lokaafstaða til þess sem kann að verða ráðstafað til niðurgreiðslu húshitunar á fjárlögum. Við þekkjum að sú tala hefur enn staðið inni sem 200 millj. kr. Ég er þó ekki að mála málið öðrum litum en vera ber. Ég er hóflega bjartsýnn á að neinu verulegu þoki í þá átt að fá aukið fjármagn til niðurgreiðslu til húshitunarinnar.

Ég vil aðeins, þótt fullsnemmt sé eins og ég segi að ræða þessi mál til neinnar hlítar þar sem upplýsingar eru aðeins óformlegar, geta þess hver verðþróunin hefur orðið á raforku til húshitunar og á öðrum heimilistöxtum hjá Rafmagnsveitum ríkisins frá 1. ágúst 1983 þegar síðasta hækkun átti sér stað á orku í smásölu frá Rafmagnsveitum ríkisins og raunar Orkubúi Vestfjarða einnegin. Ef menn gefa sér þá viðmiðunina 100 um 1. ágúst 1983 hefur verðþróun raforku til húshitunar orðið sú að raungildi hennar er nú miðað við um 77. Ef við einnegin gefum okkur að fallist verði á að úr þessum framkvæmdum verði, sem menn hafa haft á orði, um 14% hækkun heildsölunnar og þessar hækkanir, sem RARIK hefur verið að fitja upp á, sem ekki hafa komið til neinna álita að sjálfsögðu því að þær hafa ekki borist enn iðnrn., þá mundi þessi viðmiðun, ef sú ákvörðun yrði tekin miðað við 1. jan. n.k., verða miðað við töluna 100 1. ágúst 1983 um 94 hinn 1. jan. n.k., ef allar þessar hækkanir næðu fram að ganga. En þrátt fyrir þessa verulegu raforkuverðshækkun mundi raunverð raforku fara lækkandi út eftir öllu næsta ári og miðað við þær spár, sem ég hef í höndunum um heimilistaxtana, sem eru mjög svipaðir nema stökkið yrði minna nú, þar sem verðjöfnunargjaldið lækkar um 3%, þá yrði, miðað við þá spá sem ég hef í höndum, meðalverð áranna 1984 og 1985 mjög svipað, þannig að þegar yrði komið fram í des. 1985 mundi verðþróun beggja þessara taxta nálgast töluna 80 miðað við 100 1. ágúst 1983.

Ekki þarf ég að skýra eða rekja ástæður fyrir þessari þróun. Ef verðlagsforsendur hefðu staðist, eins og menn voru að ýta úr vör með á miðju ári, áður en sprengingarnar miklu urðu í verðlagsþróun, þá var það eindregin stefna að halda þessu verði óbreyttu út árið 1985. Af auðskildum ástæðum heyra þau áform sögunni til. Að vísu er auðvitað mest upp úr því leggjandi hver þróunin er í raungildi orkunnar en ekki tölum sem breytast auðvitað beggja megin við þær breytingar og sprengingar, eins og ég segi, sem orðið hafa.

Ég sé á þskj., sem ég hef að vísu ekki undir höndum, að hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason ber þar fram tillögur sem eru að því er mig minnir í sjö liðum og er þar greinilega að finna allar helstu tillögur, meginefni a.m.k. þeirra tillagna, sem stjórnskipuð nefnd lagði fyrir í frv.-formi nú eigi alls fyrir löngu, á útlíðandi nóvembermánuði ef ég man rétt. Ég vildi gjarnan gera þær tillögur strax að mínum og leitaði fast á um að þær næðu fram að ganga eins og nefndin hafði gengið frá þeim. Um það gat ekki orðið samkomulag. Það náðist sem sagt ekki samkomulag um það innan ríkisstj. — eða við getum svo sem þrengt það svið og sagt að það hafi ekki náðst samkomulag milli mín og hæstv. fjmrh. um þær aðferðir. Á það sínar skýringar því að hér var um verulega stórar fjármunalegar framkvæmdir að tefla og tíminn naumur til að ná viðhlítandi skipan á þau mál eins og fjármálum okkar er öllum saman þröngur stakkur skorinn. Á hinn bóginn vil ég minna á þá yfirlýsingu sem ég birti við 1. umr. málsins þar sem ég vísaði til yfirlýsinga minna frá því í des. í fyrra þar sem því var lýst yfir að verðjöfnunargjald yrði afnumið, enda yrði fyrir fjárhag þeirra fyrirtækja séð sem þess nutu, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, og að í síðasta lagi haustið 1985 mundi ríkisstj. flytja frv. til laga þar sem þessum málum með þeim hætti yrði ráðið til lykta. Þetta verður ekkert skilið og á auðvitað ekki að skilja á annan veg en þann að þessi áform eru samþykkt af hálfu núv. ríkisstj.

Ég hef þá viðmiðun, sem er breyting frá því sem var lagt til af hinni stjórnskipuðu nefnd og tekið var upp í brtt. hv. 6. landsk. þm., að ég mun beita mér fyrir frv. til l. sem innihéldi 4% lækkun á ári í fjögur ár frá 1. jan. 1986 að telja, þannig að afnám þess yrði einu ári síðar en tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir og með þessum jafna hætti en ekki í tveimur stökkum eins og áður hafði verið áformað, 10% frá 1. jan. n.k., eins og nefndin lagði til, í tvö ár og síðan 5% í enn önnur tvö ár. En þetta mál mun ég áreiðanlega leggja til að verði unnið af fulltrúum iðnrn. og fjmrn. þegar á nýju ári, að menn reyni að finna lausnir á þessu vandamáli. Til þess gafst okkur ekki tími nú, eins og ég sagði og eins og ég líka tók fram, af því að hæstv. fjmrh. er genginn í salinn, þá var það sér í lagi tímaskorti um að kenna að við náum ekki landi með þetta verðjöfnunargjaldsmál með öðrum hætti en fram kemur í því frv. sem hér liggur fyrir til umr. með svo þeirri yfirlýsingu sem ég hafði yfir við 1. umr. málsins.