17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. iðnrh. að hér væri málefni á ferðinni sem varðaði fjmrh. miklu. Þykir mér við hæfi að hann sé þá viðstaddur, en reki ekki bara inn nefið okkur þdm. til ánægju eitt andartak, en sé svo óðara horfinn á braut. (Forseti: Það munu verða gerðar ráðstafanir til að ná í hæstv. fjmrh.)

Frv. sem er til umr. er þess eðlis að með því er lagt upp í mikla göngu sem ekki sér fyrir endann á. Gangan á að stefna að því marki að fella niður verðjöfnunargjald með öllu, en þeir aðilar sem notið hafa verðjöfnunargjaldsins eiga að fá það uppi borið með greiðslum úr ríkissjóði með einum eða öðrum hætti. Eins og kunnugt er er aðeins gerð tillaga um 1. áfanga, þ.e. lækkun úr 19% í 16%, en hv. þm. Alþfl. Karl Steinar Guðnason hefur flutt brtt. sem marka brautina til enda. Þar er sýnt hvernig þessi lækkun á að gerast og hefur hæstv. iðnrh. lýst yfir sérstökum stuðningi sínum við þá tillögugerð og nánast gert þær till. að sínum.

Það eru tvær spurningar í þessu máli sem skipta öllu. Önnur er sú: Hvernig ætlar ríkissjóður að standa undir þeim stóraukna tilkostnaði og útgjöldum, sem á honum mun lenda ef þessi leið er farin, án þess að jafnhliða séu gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir? Hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða vegna þess að í fjárlagafrv. kemur ljóst fram að áætlað er að verðjöfnunargjaldið gefi 420 millj. kr. á einu ári. Hv. alþm. hljóta því að vera harla forvitnir að vita, úr því að hæstv. iðnrh. hefur lýst yfir sérstökum stuðningi sínum við till. Alþfl. sem hafa verið hér fluttar, hvort ekki séu uppi einhverjar ákveðnar hugmyndir um hvernig ríkissjóður á að standa undir þessum stórauknu útgjöldum.

Ég vil leyfa mér að spyrja sérstaklega hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi: Hvernig hyggst hann sem aðalforsvarsmaður ríkissjóðs mæta þeim tekjumissi sem bersýnilega hlýst af samþykkt þessa frv.?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. iðnrh. hvort það sé stefna hans að þessum útgjöldum, sem á verðgildi næsta árs nema um 420 millj. kr. á ári, verði öllum velt yfir á ríkissjóð án þess að nokkur tilraun sé gerð til að afla nýrra tekna þar á móti og hvort hann geri sér ekki grein fyrir því að slíkt væri býsna mikið ábyrgðarleysi gagnvart þeim sem eiga að hafa áhyggjur af fjármálastjórn hér á landi á komandi árum. Gerir hann sér ekki grein fyrir að með þessu væri verið að búa til býsna stórt gat á ríkissjóð sem kynni að verða erfitt að fylla? Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. ráðh. um afstöðu hans til þessa máls. Ég vil líka spyrja hæstv. iðnrh., úr því að hann var að lýsa sérstökum stuðningi sínum við tillögur Alþfl., sem mér þykja harla ábyrgðarlausar, hvort hann hafi ekki í sínum huga einhverjar hugmyndir um hvernig þetta gat yrði fyllt eða hvort hann sé bara að gefa þessa yfirlýsingu til að þóknast þeim sem kynnu að líta það velvildaraugum að verðjöfnunargjaldið yrði lækkað án þess að hugsa nokkuð um að þar yrði einn óskaplega stór endi laus á ríkisfjármálum.

Enn fremur vil ég spyrja hæstv. iðnrh. vegna þess að við óttumst að afleiðingin verði sú að orkuneytendur í dreifbýli verði látnir borga brúsann þegar allt kemur til alls og það lendi endanlega á þeim. Auðvitað óttast maður að vaxandi verðmunur verði á orku í fjölbýlinu annars vegar og svo hins vegar í dreifbýlinu með þeirri stefnu sem hér er verið að móta. Þá hlýtur jú spurning að vakna sem ég var að byrja að tæpa á: Getur hæstv. iðnrh. fullvissað okkur alþm. um að orkuverð í dreifbýli muni ekki hækka sem afleiðing af samþykkt þessa frv. og að ekki dragi í sundur með orkuneytendum í dreifbýli og þéttbýli?

Ég veit að hæstv. iðnrh. var að tæpa á því áðan við hvaða raforkuverðshækkun mætti búast á næstunni. En mér er það ekki nóg að hann hugleiði málið með þeim hætti sem hann gerði áðan. Ég vil, úr því að verið er að hreyfa við þessu verðjöfnunargjaldi í lækkunarátt, fá hreina yfirlýsingu frá hæstv. ráðh. um að hann muni sjá til þess að orkuverð í dreifbýli muni ekki hækka vegna samþykktar þessa frv. og að ekki dragi í sundur með dreifbýlismönnum og þéttbýlismönnum hvað þetta snertir.