17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð hér um, en hér hefur verið snúið út úr orðum mínum og gefið í skyn að ég hafi sagt eitthvað annað en að börn væru fyrst og fremst á ábyrgð foreldra sinna. Auðvitað eru þau það. Hins vegar höfum við lög hér á landi eins og barnalög, grunnskólalög o. s. frv. þar sem samfélagið grípur inn í ábyrgð foreldranna og tryggir ákveðin réttindi börnunum til handa. sama er að segja með dagvistarmálin, það er sams konar mál.

Þótt aðrar leiðir séu kannaðar til að mæta dagvistarþörf barna en hér er lögð til þá er þar með ekki verið að draga úr þeirri þörf á uppbyggingu dagvistarheimila sem ég hef hér gert grein fyrir. Ef íslenskt þjóðfélag ætlar sér að leggja vinnufæru fólki á Íslandi, foreldrum þessa lands, þær vinnuskyldur á herðar sem það gerir í dag, þá er þjóðfélaginu skylt að mæta foreldrunum einhvers staðar á leiðinni og gera þeim kleift að sinna sínum þjóðfélagslegu skyldum öllum saman, vinnuskyldu og uppeldisskyldu. Jafnframt hef ég tekið það fram og fært hér rök fyrir því að það er um tómt mál að tala að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á vinnumarkaðnum verði náð nema að öllum foreldrum standi dagvistarþjónusta fyrir börn til boða. Þetta frv. kemur ekki í veg fyrir það að leita megi jafnframt annarra leiða, þvert á móti.

Vegagerðarféð fer mjög fyrir brjóstið á hv. þm. Ég tók það sem dæmi og í seinni ræðu minni lagði ég til að við tækjum ekki allt féð úr vegagerðinni heldur einar 17 millj. Ég held að það sýni enga vanvirðingu við vegagerð hér á landi. Við höfum takmarkað fé, vitaskuld, um það er mér mætavel kunnugt. Við verðum að raða málum í forgangsröð, sagði hv. síðasti ræðumaður. Það er einmitt það sem ég hef gert með því að flytja þetta frv. og það sem ég hef verið að tala um í öllum málflutningi mínum hér í dag. Með því frv. sem ég hef flutt hér er gerð tilraun til að tryggja fé til að bæta dagvistaraðstöðu barna hér á landi. Verið er að gera tilraun til að bæta úr því ófremdarástandi sem nú ríkir í þessum málum.

Yfirlýsingar ríkisstjórna eru greinilega ekki mjög bindandi, eins og ég hef þegar skýrt frá og tölurnar sýna og sanna. Því er hér gerð tilraun til að binda með lögum framlag til þessara mála. Hv. þm. er í afgreiðslu þessa máls gefinn kostur á að lýsa hug sínum til þessara mála, hvort þeim finnst einhverju skipta að stjórnvöld haldi þau fyrirheit sem þau gáfu á sínum tíma í þessum efnum, hversu miklu þeim finnst að verja megi til aðbúnaðar yngstu kynslóðar þessa lands og hversu mikilvæg þeim þykja þau verðmæti sem fólgin eru í börnunum okkar. Ekki skal ég fyrir fram efast um góðan vilja hv. þm. í þessum efnum en nú snýst málið um hvort hv. þm. eru tilbúnir til að sýna vilja sinn í verki.