17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Frsm. 1. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það mátti heyra í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Friðriks Sophussonar, að hann teldi að hann væri að uppskera hér af erfiði sínu, þriggja tíma morgunfundi í kaffistofu Landssmiðjunnar, og má segja að þar fari að koma fram einhverjar skýringar á því að mál þetta er hér fram komið. Eins og ég gat um við 1. umr. málsins er ekki að finna, hvorki í frv. og grg. þess né heldur í máli hæstv. iðnrh., nein skynsamleg rök og nánast engin rök fyrir þeirri heimild sem hér er leitað eftir um sölu Landssmiðjunnar.

Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hl. iðnn., sem ég stend að, og þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um frv. á einum fundi. Meiri hl. n. mælir með samþykkt frv. án breytinga, en 1. minni hl. n. leggur til að frv. verði vísað til ríkisstj. sem beiti sér fyrir endurupptöku málsins og eflingu Landssmiðjunnar á öðrum og haldbetri forsendum en felast í þessu frv.

Undirritaður telur eðlilegt að rekstur Landssmiðjunnar verði endurskipulagður í framhaldi af miklu undirbúningsstarfi á undanförnum fimm árum. Markmið þeirrar endurskipulagningar á að vera að treysta stöðu fyrirtækisins, m.a. með því að veita starfsmönnum beina hlutdeild í Landssmiðjunni ásamt ríkinu. Eðlilegt væri að ríkið ætti, a.m.k. fyrst um sinn, meiri hluta í félagi sem stofnað yrði um rekstur Landssmiðjunnar, en allir starfsmenn fyrirtækisins hverju sinni ættu kost á eignaraðild og hlutdeild í hagnaði að ákveðnu marki.

Innan Landssmiðjunnar hefur á liðnum árum þróast samstarf stjórnenda og starfsmanna sem miklu hafa ráðið um þróun og rekstur fyrirtækisins í samvinnu við iðnrn. Sérstök samstarfsnefnd var stofnuð innan Landssmiðjunnar árið 1974 og hefur hún haft víðtækara starfssvið en aðrar samstarfsnefndir innan ríkisfyrirtækja, m.a. ákvörðunarvald um vissa þætti í rekstri smiðjunnar. Væri eðlilegt að byggja á þessari reynslu og stíga nú nýtt skref með því að heimila beina aðild starfsmanna að Landssmiðjunni, en ríkið yrði áfram burðarás í fyrirtækinu. Slíkt væri í fullu samræmi við þá iðnaðarstefnu sem samþykkt var einróma á Alþingi 3. maí 1984, en þar er tilgreint meðal markmiða:

„Að bæta starfsskilyrði og auka áhrif starfsfólks á vinnustöðum í samráði við samtök launafólks og atvinnurekendur í iðnaði.““

Meðal leiða til að ná þessu marki er m.a. tilgreint í þessari þál. um iðnaðarstefnu:

„Stjórn á iðnrekstri ríkisins verði samræmd og gerð markvissari með tilliti til iðnþróunar. Þannig verði skipulagslegt forræði slíks iðnaðar í höndum aðila er hafi fjárhagslegt bolmagn til að undirbúa og standa fyrir arðvænlegum nýiðnaðarverkefnum. Jafnframt verði almenningi gefinn kostur á að gerast beinn eignaraðili að iðnfyrirtækjum.“

Ég vil af þessu tilefni inna hæstv. iðnrh. eftir því sérstaklega hverju miði vinnu að því markmiði sem tilgreint er í þessari iðnaðarstefnu, sem samþykkt var hér vorið 1982 á Alþingi, að koma skipulagslegu forræði iðnrekstrar á vegum ríkisins í hendur aðila sem hafi bolmagn til að undirbúa og standa fyrir nýiðnaðarverkefnum. Ég tel að hér sé stórt mál á ferðinni. Að undirbúningi þess var nokkuð unnið á árunum 19821983 á vegum iðnrn. og mér hefur heyrst að áhugi væri á því hjá hæstv. núverandi ríkisstj. að taka á þessum málum. Ég tel að þau tengsl sem eru á milli þeirra opinberra aðila sem standa fyrir iðnfyrirtækjum með hlutdeild ríkisins og þá einnig hreinna ríkisfyrirtækja séu allt of lítil og sú reynsla sem fáist í þessum fyrirtækjum safnist þannig ekki saman á einn stað og upplýsingastreymi á milli þessara fyrirtækja sé engan veginn sem skyldi.

Þess vegna er ástæða til að minna hér á þetta markmið úr iðnaðarstefnu sem Alþingi afgreiddi hér og upp var tekið í tíð fyrri ríkisstj.

Á vegum Landssmiðjunnar hefur verið unnið að þróunarverkefnum, m.a. tilraunaverkefni með nýja gerð fiskimjölsverksmiðju, en það þróunarverkefni er nú skilið eftir í algerri óvissu um framhald.

Þá hefur Landssmiðjan um langt árabil veitt fyrirmyndarþjónustu á ýmsum sviðum málmiðnaðar og aflað sér traustra viðskiptasambanda innanlands og erlendis. Afkoma Landssmiðjunnar hefur lengst af verið viðunandi og fyrirtækið oft skilað umtalsverðum hagnaði.

Í skýrslu iðnrh. til Alþingis í maí 1984 sagði m.a. um rekstur Landssmiðjunnar, með leyfi forseta:

„Rekstur Landssmiðjunnar gekk sæmilega á árinu 1983 og varð hagnaður af starfseminni 4 millj. kr., samanborið við 220 þús. kr. hagnað 1982 ... Velta fyrirtækisins í iðnrekstri jókst um 75.8% frá árinu 1982 og velta verslunar um 59% ... Árið 1983 störfuðu að jafnaði 74 starfsmenn hjá fyrirtækinu.“

Í grg. með frv. er m.a. talið að auka megi sölumagn með því að endurskipuleggja aðstöðu og starfsháttu og að raunhæfir möguleikar séu á að auka framleiðni í fyrirtækinu. Það kemur hins vegar fram í grg. með frv. að erfiðleikar í sjávarútvegi hafi óhjákvæmilega haft áhrif á stöðu Landssmiðjunnar á undanförnum árum þar sem verkefni hennar hafi ekki síst tengst þjónustu við fyrirtæki í sjávarútvegi.

Eins og ég hef getið um tel ég engin frambærileg rök hafa komið fram um að hagkvæmt sé fyrir ríkið að afsala sér hlutdeild í Landssmiðjunni á þann hátt sem gert er ráð fyrir í frv. Þvert á móti er líklegt að ríkið bíði af því beint fjárhagslegt tjón, auk þess sem óvissa er um getu hins fyrirhugaða hlutafélags til að tryggja þróun og rekstur smiðjunnar til frambúðar. Vona ég þó vissulega að þar takist vel til ef þannig fer eins og horfir að frv. þetta verði samþykkt og sú heimild notuð sem þar er að finna.

Í þessu sambandi er rétt að benda á þá fjárfestingu sem komin er í nýbyggingu á vegum Landssmiðjunnar að Skútuvogi 7 og sem ekki er yfirtekin af hinu nýja hlutafélagi samkvæmt kaupsamningi. Það fé, sem í þessa fjárfestingu hefur verið lagt, er nú talið nema um 66 millj. kr. og í ágústmánuði 1983 lá fyrir endurskoðuð áætlun sem benti til þess að hagkvæmt væri að nýta þessa aðstöðu til áfangalausnar varðandi nýtt húsnæði fyrir Landssmiðjuna. Í umr. hér á Alþingi um frv. hefur fjmrh. gefið í skyn, og kom það fram í Ed., að mikil óvissa sé um að ríkið geti selt þessa eign fyrir sannvirði og jafnvel líklegt að hún verði seld fyrir lítið brot af skráðu verðmæti. Er talað um undir 15% í því sambandi.

Það liggur fyrir samkv. stofnsamningi fyrir hið fyrirhugaða hlutafélag, Landssmiðjuna hf., að aðeins 22 af yfir 70 starfsmönnum í fyrirtækinu hafa gerst hluthafar og engin trygging er fyrir því að væntanlegir eigendur verði áfram starfsmenn eða hlutur þeirra haldist hjá starfsmönnum innan smiðjunnar. Hér er því í raun verið að stofna venjulegt hlutafélag með innan við þriðjung af núverandi starfsmönnum sem hluthafa, og það hefur heyrst að nokkur ágreiningur hafi komið upp nú þegar í sambandi við þessi mál innan fyrirtækisins, þá sérstaklega varðandi réttindi þess fólks sem gert er ráð fyrir að hætti störfum með tilkomu nýrra eigenda.

Að mínu mati hefði átt að taka á þessu eignaraðildarmáli starfsmanna með allt öðrum hætti þar sem m.a. hefði verið tryggt að allir fastráðnir starfsmenn ættu sameiginlega hlut í fyrirtækinu og sá hlutur héldist áfram í höndum starfsmanna þess. Þetta tel ég í rauninni kjarnaatriði í sambandi við eignaraðild starfsmanna í fyrirtækjum, þ.e. að þeirra hlutur verði bundinn við þá sem eru fastráðnir og starfandi hjá fyrirtækinu, en sé ekki skráður á einstaklingana sem slíka og flytjist þar með út fyrir fyrirtækið. Þá held ég að afskaplega litlum ávinningi sé náð í þá stefnu sem ég tala fyrir, en hún er að áhrif starfsmanna í fyrirtækjum verði aukin og þeim gefist færi á að eiga þar beina hlutdeild.

Með tilliti til þessara atriða, sem ég hef hér rakið, og í trausti þess að stjórnvöld endurskoði mál þetta frá grunni fyrir næsta reglulegt Alþingi legg ég til í nál. að frv. verði vísað til ríkisstj.

Það mætti, herra forseti, margt um þetta mál segja því það er í raun verulega stærra en svarar til þeirra fjárhagslegu þátta sem hér eru til umr. Hér er um ákveðin prinsipmál að ræða, ákveðin grundvallaratriði í sambandi við í fyrsta lagi eignarhald ríkisins og aðild að atvinnurekstri. Það er orðið trúaratriði hjá hluta af Sjálfstfl. að selja hlut ríkisins hvar sem við verði komið og flutningur þessa máls hér er tilkominn vegna þessara viðhorfa. Ég minnti á það við 1. umr. málsins hvernig hæstv. fjmrh. hefði gengið fram snemma í tíð þessarar ríkisstj. í sambandi við þessi efni, hlotið ósköp lítinn byr í reynd og mjög takmarkað orðið úr hans áformum sem mjög mikið var látið með í opinberri umræðu af hans hálfu og hluta af Sjálfstfl. sem talaði mjög fyrir þessum málum. Það er helst að hæstv. iðnrh. hafi reynt að hlaupa þarna undir bagga með því að selja hlut m.a. í Iðnaðarbankanum, í lagmetisiðjunni Sigló á Siglufirði og svo nú með því að afsala ríkinu með öllu eignarhlutdeild í Landssmiðjunni eins og felst í þessu frv.

Ég held að það væri miklu meiri nauðsyn í raun að átta sig á því með hvaða hætti ríkið geti komið inn í atvinnurekstur í landinu til örvunar og stuðnings, m.a. á nýmælum og með því að styðja við vaxtarbrodda. Ég er ekki þar með að mæla með því sem einhverri allsherjarlausn, síður en svo, að ríkið fari að gerast í mjög auknum mæli beinn aðili í atvinnurekstri þar sem ekki er um að ræða þeim mun stærri verkefni. Það er ekki sjónarmið okkar Alþb.-manna að það sé skynsamlegt eða farsælt. Hins vegar getur það talist nauðsynlegt þegar um er að ræða að ryðja nýjum verkefnum braut í atvinnustarfsemi, og þar má benda á atriði sem mjög hafa verið til umræðu sem hugsanlegir þróunarmöguleikar, m.a. í fiskirækt, þar sem allt of lítið hefur verið að gert af opinberri hálfu í þessum efnum, og bent hefur verið á aðrar greinar svo sem rafeindaiðnað, lífefnaiðnað og líftækni.

Þarna held ég að ríkið þurfi að koma við sögu og styðja við aðra aðila sem hafa áhuga í þessum efnum, en því miður er það svo að í þeim greinum horfir á ýmsa lund ekki eins vel og efnilega og þyrfti að vera. Hitt er svo óhjákvæmilegt, þegar menn eru að taka á stærri verkefnum hér í landinu að ríkið sé þar forgönguaðili vilji menn ekki fara inn á þá braut, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur markað af sinni hálfu og sérstaklega hæstv. iðnrh., að ætla að eftirláta öll slík meiri háttar verkefni í iðnrekstri erlendum aðilum, afsala þar íslenskri forustu og kalla eftir fjármagni fjölþjóðafyrirtækja inn í íslenskt atvinnulíf.

Um þetta mætti vissulega margt segja og þær ólíku hugmyndir sem eru uppi annars vegar hjá talsmönnum þessa frv. nú og þær hugmyndir sem ég hef hér mælt fyrir í sambandi við hlutdeild starfsmanna í fyrirtækjum bæði varðandi rekstur og eignaraðild.

Það er líka ástæða til að nefna það í þessu samhengi hvernig Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur átti hlut í því að kippa fótunum að nokkru leyti undan þeirri þróun sem fyrirhugað var að Landssmiðjan tengdist með því að koma upp skipaverkstöð hér í Reykjavík í Kleppsvík, Skipaverkstöð til þess að taka á verkefnum sem nú eru unnin erlendis að verulegu leyti. Þar voru uppi áform og áætlanir og reyndar langt síðan þær komu fram. Þær voru fyrst fluttar hér inn á Alþingi, að ég hygg, af alþingismönnunum Magnúsi Kjartanssyni og Eðvarð Sigurðssyni á sínum tíma, en síðan stutt við það eftir megni af Alþb. og fleiri aðilum, m.a. innan borgarstjórnar Reykjavíkur. En Sjálfstfl. tókst að eyðileggja þetta mál, bregða fyrir það fæti og taka það af dagskrá, og vissulega hefur það komið inn í þau uppbyggingaráform varðandi Landssmiðjuna sem nú liggur fyrir að á að kistuleggja, og ekkert liggur fyrir um hvernig sú opinbera fjárfesting, sem komin er í Skútuvogi 7, nýtist og hvort hægt er að ávaxta hana með eðlilegum hætti. Þvert á móti bendir flest til að einhverjir gæðingar eigi að fá kost á því að hirða þessa eign fyrir aðeins lítið brot af sannvirði.

Uppbyggingaráform fyrir Landssmiðjuna voru mjög vel unnin að mínu mati, mjög vel undirbúin og mætti færa fyrir því mörg rök. Það voru gerðar ítrekaðar samþykktir á Alþingi og ég er ekki viss um að þar hafi verið flokkaágreiningur þegar um það var að ræða að leggja til fjármagn og útvega lánsfjármagn til nýbyggingar fyrir Landssmiðjuna. Það var m.a. í lánsfjáráætlun ársins 1981, en þá var, að ég hygg, heimiluð lántaka vegna þessarar uppbyggingar auk framlaga, sem þarna var um að ræða af hálfu eigenda, og fyrirhugað söluandvirði af núverandi húsnæðisaðstöðu Landssmiðjunnar.

Það lá einnig fyrir formlegt samþykki samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, þannig að við undirbúning málsins var farið eftir gildandi lögum og reglum og m.a. farið í gegn um það nálarauga sem oft reynist mjög þröngt og erfitt fyrir opinbera aðila sem eru að hrinda af stað verkefnum, þ.e. að fá samþykkt samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir sem starfar á grundvelli laga, að ég hygg, frá 1970.

Herra forseti. Mér þykir mjög miður hvernig á þessu máli hefur verið haldið af núverandi ríkisstj. og ég mæli því hér gegn þessu frv. og mæli með því að því verði vísað til ríkisstj. til þess að málið verði tekið upp á grundvelli þeirra sjónarmiða sem ég hef hér mælt fyrir.