17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Frsm. 2. minni hl. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. um frv. til 1. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Landssmiðjuna.

Nefndin fjallaði stuttlega um málið á einum fundi. Engin haldbær rök hafa komið fram sem styðja það að brýna nauðsyn beri til að selja einmitt þetta fyrirtæki nú.

Samtök um kvennalista telja að það hljóti að vera aðstæðum háð hverju sinni hvaða eignarhald er haft á fyrirtækjum, þ.e. hvort þau eru ríkisrekin eða ekki. Þar hlýtur almenningsheill að ráða jafnt og hagkvæmnissjónarmið.

Við athugun þessa máls kemur í ljós að allar meginákvarðanir hafa þegar verið teknar og ráðstafanir verið hafnar í samræmi við þær, en kaupsamningur um Landssmiðjuna milli ríkisstj. og Landssmiðjunnar hf. var undirritaður með fyrirvara um samþykki ríkisstj. og Alþingis hinn 20. sept. s.l.

Alþingi stendur því eins og oft áður frammi fyrir gerðum hlut og er ætlað það hlutskipti eitt að gefa samþykki sitt formsins vegna. Því er í raun ekki ætluð stefnumótun eða ákvarðanataka um þetta mál og er það mjög miður.

Þar sem ástæður til sölu þessa fyrirtækis hafa ekki komið skýrt fram, hvorki í umr. né á nefndarfundi, er eðlilegt að geta sér til um þær. Hér gætu legið til grundvallar arðsemissjónarmið þar sem bágstaddur ríkissjóður er annaðhvort að losa sig við vandræðabyrði eða hins vegar að reyna að selja eigur sínar hæstbjóðanda til að eiga fyrir skuldum. Engin merki sjást þess. Fyrirtækið hefur ekki verið mjög illa rekið þótt ýmissa úrbóta og hagræðingar sé þörf og tap er ekki áberandi í rekstri fyrirtækisins undanfarin ár. Auk þess ræður fyrirtækið yfir traustum og eftirsóknarverðum umboðum sem eru snar þáttur af veltu þess. Ekkert bendir til þess að leitað hafi verið eftir hæstbjóðanda í fyrirtækið sem væri skiljanlegt og þjóðhagslega hagkvæmt sjónarmið fyrir ríkissjóð.

Í annan stað gæti hér verið um að ræða tilraun ríkisins til að koma á atvinnulýðræði í einu fyrirtækja sinna. Sú tilraun er ekki sannfærandi þar sem einungis 23 af tæplega 70 starfsmönnum vilja gerast eða telja sig geta gerst kaupendur að fyrirtækinu og er á engan hátt tryggt að sú hlutafjáreign haldist áfram meðal starfsmanna í framtíðinni. Hér er því ríkið í reynd að selja fyrirtækið hefðbundnu hlutafélagi þó að kaupendur séu starfsmenn Landssmiðjunnar.

Umsamið kaupverð Landssmiðjunnar einungis 22 115 638 kr. Þar eru undanskilin hlutabréf í eign Landssmiðjunnar svo og fasteignir hennar, t.d. húsgrunnur við Skútuvog 7 sem er metinn á tæplega 66 millj. kr. Auk þess er undanskilin í sölunni tilraunafiskimjölsverksmiðja sem unnið hefur verið að á vegum Landssmiðjunnar.

Undirrituð dregur í efa að þessi viðskipti séu ríkinu hagstæð og undrast þann hraða og annan hátt sem hafður er á afgreiðslu málsins. Hins vegar er það ljóst og ber að gæta þess að málið er nánast frágengið, mikil vinna og skuldbinding hefur verið lögð fram af hálfu þeirra starfsmanna sem hyggjast kaupa fyrirtækið og mun undirrituð því sitja hjá við afgreiðslu málsins.