17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að eðlilegt er að menn leiði hugann að því að finna fastara form á hvernig staðið skuli að sölu eigna ríkisins en menn hafa enn í höndum. Ég skal játa að ég hef haft nokkuð þungar áhyggjur af slíkum ákvörðunum verðlagsins vegna í hvert eitt skipti. Þetta kom fyrst til álita í sambandi við verðlagningu á hlutabréfum í Iðnaðarbanka. Ég sótti ráð til þeirra sem ég áleit að væru um það bærir að dæma um það mál og að svo búnu skaut ég yfir þau mörk sem þar höfðu verið sett.

Í sambandi við sölu Landssmiðjunnar voru til þess valdir valinkunnir menn, fulltrúi frá hvorum aðila, hinu nýja félagi Landssmiðjunnar og hinu opinbera, að meta eignir Landssmiðjunnar, menn sem gjörþekktu til eignanna, og þeir náðu mjög góðu samkomulagi um niðurstöðurnar. En ég vil leiða hugann að því sem kom fram í máli hv. 3. þm. Reykv. um fastara form á því, þegar dregur að sölum á opinberum eignum, hvernig metið skuli.

Ég vil taka fram að það er auðvitað ekki rétt að of seint sé að snúa við í sambandi við sölu Landssmiðjunnar til þessa starfsfólks. Það er ekki rétt. Afhendingin fer ekki fram fyrr en 1. jan. ef Alþingi vill svo vera láta. Það hafa engar þær ráðstafanir farið fram að ákvörðun Alþingis um hið gagnstæða mundi ekki að sjálfsögðu gilda. Þess vegna var tekin ákvörðun um að eignunum yrði ekki skilað til hinna nýju eigenda fyrr en 1. jan. með það í huga að hinu háa Alþingi hefði þá gefist kostur á að taka lokaafstöðu til málsins. En þetta kemur fram í nál. hv. 2. minni hl. iðnn.

Enn fremur er það ekki rétt að aðdragandi sé ekki ærinn að málinu því að þetta var gert heyrinkunnugt þegar um mitt síðasta ár, en þá, um það leyti, hóf ég umræður við fulltrúa starfsfólks Landssmiðjunnar. Það kom til álita að auglýsa fyrirtækið opinberlega og athuga um hæstbjóðanda, en sú hugmynd var mér miklu meira að skapi að gefa starfsfólkinu kost á kaupum á fyrirtækinu ef það næði höndum saman um það.

Nú lögðu rúmlega 50 starfsmenn upp í þessa för að athuga um kaupin, en lokaniðurstaðan varð sú að einungis 23 tóku höndum saman og stofnuðu hið nýja hlutafélag. Ég vil engum orðum um það fara, enda er ég ekki nægilega kunnugur ástæðum sem til þess lágu að svo margir drógu sig út úr málinu frá því sem upphaflega var áformað að tækju þátt í stofnun félagsins. En ég bind miklar vonir við að það fólk sem að þessu stendur, gerkunnugt öllum starfsháttum Landssmiðjunnar, nái góðum tökum á viðfangsefninu, enda er það í samningunum að hið opinbera ætlar að hafa hönd í bagga með rekstri fyrirtækisins, hefur raunar stutt þá við að halda umboðum sínum, verðmætum mörgum hverjum, þannig að ég vona að sæmilega verði og vel fyrir öllu séð.

Og engin tök eru á því að hefja umr. um afstöðu til ríkisreksturs. Mér þykir stefna Alþb. vissulega snúast til betri vegar. Í sama máta skal ég játa að ég hef enga fordóma á opinberum rekstri, ef til þess þarf að taka, til að mynda vegna atvinnuuppbyggingar í einstaka héraði til bráðabirgða og til þess að halda uppi atvinnu. Það má ekki þann veg skilja. En í þessu falli er afstaða mín eindregin, að hið opinbera eigi ekki að vera að vasast í slíkum hlutum, að betur sé fyrir þeim séð af hálfu einkaframtaksins, og get raunar tekið undir allar röksemdir, sem komu fram í máli hv. 3. þm. Reykn., og fer það nú að verða fátíðara að leiðir flokka okkar liggi svo nákvæmlega saman eins og í þessu máli, og átti ég að ósynju að vísu ekki von á því, en ég fagna því alveg sérstaklega og nota tækifærið til að þakka hv. iðnn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu málsins.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að bæta einhverjum frekari rökum við þetta, en þeir sem hafa gluggað í sögu Landssmiðjunnar geta t.d. séð hvaða viðskiptahættir löngum og löngum tíðkuðust, til að mynda eins og þeir í óðfluga verðbólgu að hið opinbera dró við sig að greiða reikninga verksmiðjunnar — jafnvel, þó að ég ekki segi mörgum árum, meira en ár. Menn geta ímyndað sér hvernig er að haga rekstri og standa fyrir honum þegar þannig er í pottinn búið að e.t.v. voru ekki greiddir stórreikningar vegna viðgerða á skipum Landhelgisgæslunnar eða að ég tali nú ekki um skipum Skipaútgerðar ríkisins í óðfluga verðbólgu eins og ég segi. Auðvitað verður lítið vit í slíkum rekstri. Auðvitað er þetta dæmi um það hvernig ríkið stendur að málum þegar svo vill til, dregur við sig að líta á allar staðreyndir málsins, eins og hefur verið aðalreglan í opinberum fjármálabúskap um áratuga skeið á Íslandi, standa aldrei undir staðreyndum, fresta til morguns eða næsta árs eða áratugar að greiða gjaldfallnar skuldir sínar og hrúga upp erlendum skuldum þess vegna, og allt telst rekið með bullandi halla. Þessu verðum við að hætta.

Ég veit ekki nema dæmið um grunninn í Skútuvogi sé eitt hið blómberanlegasta um mistök í opinberum ákvörðunum, a.m.k. af því sem ég hef kynnt mér í mínu starfi. Ætli þetta hefði nú komið til nema fyrir forgöngu hins opinbera? Ætti að fyrirtæki af þessari gráðu hefði látið sér til hugar koma að hefja slíkar stórframkvæmdir með alla þá óvissu fram undan, sem var um þessa fyrirhuguðu skipaverkstöð, ef hefðu ekki komið til pólitískar ákvarðanir, ákvarðanir pólitíkusa sem ætluðu að gera allt fyrir alla í einu án þess að hugsa um hvað það kostaði? Hvaðan voru teknir peningar til þessara framkvæmda? Að sjálfsögðu með erlendum lánum sem núna standa í nærri 66 millj. kr.

Það er nýtt fyrir mér og hæstv. fjmrh. verður þá að svara fyrir það, en ég hef ekkert orðspor heyrt um að það ætti að fara að gefa þetta einhverjum gæðingum. Þetta hverfur auðvitað til fasteigna ríkisins eins og eignir Landssmiðjunnar, húseignir við Sölvhólsgötu og Skuggasund eða Skúlagötu. Allt gengur þetta til fasteigna ríkisins. Og betur væri ef hægt væri að koma þessum fræga grunni í lóg, hálfköruðum grunni. En honum verður því aðeins komið í lóg að þetta hafi verið framkvæmd sem hafi átt rétt á sér. En ekki næst náttúrulega framkvæmdavirði hans til baka og hefði enginn náð því til baka þótt Landssmiðjan hefði haldið áfram að fjárfesta með þessum hætti.

Sama er um tilraunaverksmiðjuna, fiskimjölsverksmiðjuna, sem ég hygg að sé búið að vera að vinna að hjá Landssmiðjunni í 10 ár. Góðra gjalda vert ef hún skyldi verða til framdráttar nýjungum í atvinnulífi. Ekki var hægt að leggja það á nýja kaupendur Landssmiðjunnar að taka þá tilraunastarfsemi að sér. Og mér er stórlega til efs að í gegnum árin, þótt sæmilega hafi gengið á stundum við rekstur verksmiðjunnar, hafi hún átt fyrir þessum tilraunum sem hún stundar nema fyrir það að ríkið sá til með verksmiðjunni. Vonandi verður þetta barn í brók, en það er allt óvíst um það, og hlýtur nú þetta að verða ein af eignum ríkisins og hlýtur að verða hugað að því hvort eitthvað slátur reynist í þessum hugmyndum. Vissulega leist manni svo á fyrir allmörgum árum síðan, þegar þetta var kynnt, ég trúi 5–6 árum síðan, þegar þetta var til að mynda kynnt fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins og beðið um fyrirgreiðslu, að ýmislegt væri vissulega álitlegt í hugmyndum manna vegna þessarar tilraunaverksmiðju, en ekkert get ég um það dæmt, enda vantar mig alla sérfræðiþekkingu á þessu sviði.

En ég, eins og ég segi, sé ekki ástæðu til, enda tími okkar nú af svo skornum skammti, að fjölyrða um þetta mál. Ég held að þegar öll kurl koma til grafar hafi þetta verið mjög farsæl lausn og satt að segja hefði auðvitað verið ánægjulegt ef fleiri af starfsmönnum verksmiðjunnar hefðu treyst sér til að ganga til þessa leiks. Kann að vera að fjármálaástæður hafi líka ráðið einhverju. En eftir sem áður er þetta satt best að segja með ánægjulegri verkum, sem maður vinnur, að finna áhugasamt fólk sem gerþekkir til hlutanna, eins og þetta fólk í Landssmiðjunni sem vill hætta til fé sínu að

standa vel að verki, sem ég efast ekkert um að þetta fólk mun gera.