17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég gerði hér að umtalsefni að mér þætti ríkið ekki hafa staðið sig neitt sérstaklega vel sem eignaraðili þessa fyrirtækis. Ég var ekki að tala um einstaka stjórnendur fyrirtækisins, hvorki fyrr né síðar. En ég held að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um rökstuðning í þeim efnum. Það kom m.a. greinilega fram hjá hæstv. núv. iðnrh. hvernig ríkið hefði staðið sig gagnvart fyrirtækinu, verandi eigandi fyrirtækisins, að greiða ekki reikningana mánuðum, jafnvel árum saman í óðaverðbólgu. Það er náttúrlega ekki að standa vel að fyrirtæki í eigin eigu.

Mér er líka kunnugt um það, þó að ég hafi ekki fylgst náið með fyrirtækinu á seinustu árum, að áður fyrr þótti ekki sérlega vel búið að því í ýmsum tækjakosti. Á sama tíma og ríkið greiddi ekki þá reikninga sem það skuldaði fyrirtækinu hafði það ekki heldur áhuga á að standa að endurnýjun í tækjum og þess háttar.

Hér hefur verið gerður að umtalsefni hinn frægi grunnur og hvernig að þeirri ákvörðun hafi verið staðið. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að það hefði ekki verið við iðnrn. að sakast. Það var öðrum að kenna. Það var Reykjavíkurborg að kenna sem ekki stóð við samþykktir sem höfðu verið gerðar. Ég veit ekki hversu tryggilega menn vilja ganga frá ákvörðunum af þessu tagi, en allavega hefur þetta ekki reynst fyrirtækinu farsæl ákvörðun eins og hún var þó tekin og við þær aðstæður sem hún var tekin og með þá áhættu í huga sem var tekin um það hversu víst væri að Reykjavíkurborg stæði við þessar ákvarðanir.

Ég sé því enga ástæðu til að draga neitt til baka af því sem ég hef sagt hér um að ríkið hafi ekki verið áhugasamt um að standa við bakið á þessu fyrirtæki seinustu áratugina. Má vel vera að þar séu einhverjar undantekningar til um einstök ár, ég skal ekkert um það fullyrða. Og ég tel að það sé ekkert útlit fyrir að ríkið muni styðja við bakið á fyrirtækinu. Þess vegna standa þær forsendur, sem ég lagði fram í upphafi, óhaggaðar og voru reyndar studdar af hæstv. iðnrh. með hans orðum.