17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til 1. um breyt. á lögum um eftirlaun til aldraðra frá 1979, en skv. gildandi ákvæðum eiga eftirlaunagreiðslur skv. lögunum að falla niður nú í árslok, en í frv. er gert ráð fyrir að lögin verði framlengd um fimm ára skeið og á þeim gerðar nokkrar breytingar.

Þar sem ég hef ekki talið koma til greina að eftirlaunagreiðslur þessar falli niður án frekari ráðstafana af hálfu rn. fól ég á s.l. sumri þeim Guðjóni Hansen, formanni umsjónarnefndar eftirlauna, og Hallgrími Snorrasyni, formanni lífeyrisnefndar Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og vinnumálasambands samvinnufélaga, að gera tillögur um fyrirkomulag þessara mála þegar lög þessi eiga að falla úr gildi. Hafa þeir samið þetta frv. og haft um það samráð við lífeyrisnefndina og er nefndin samþykk þeim tillögum sem gerðar eru með þessu frv.

Í sept. 1984 fengu 3972 einstaklingar ellilífeyri skv. I. kafla laganna, 26 fengu örorkulífeyri og 1067 makalífeyri. Skv. II. kafla laganna fengu 949 manns ellilífeyri, enginn örorkulífeyri, en 197 makalífeyri. Um 100 manns fá lífeyri bæði skv. I. og II. kafla. Samtals er því fjöldi lífeyrisþega sem nýtur eftirlauna skv. lögunum um 6100. Að auki njóta 1450 manns lífeyris skv. II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda. Að meðtöldum mökum má ætla að um 10 þús. manns njóti með beinum eða óbeinum hætti þess lífeyris sem hér er um að ræða.

Athugun og framreikningur á kostnaði við greiðslu uppbótar skv. 1. kafla laganna sýnir að hlutfall uppbótar af heildarlífeyri hefur lækkað að mun á árinu 1984 og mun fara lækkandi áfram ef verðlag og kaupgjald hækkar ekki ört á ný. Árið 1983 voru uppbótargreiðslur um 56% af heildargreiðslum, en eru taldar verða um 48% á þessu ári. Sé miðað við að hið sameiginlega framlag lífeyrissjóða til uppbótargreiðslna skv. I. kafla haldist svipað og verið hefur í hlutfalli við heildargreiðslur uppbótar virðist óhætt að leggja til að framlagið lækki í 4% árið 1985 og í 3% árið 1986 og síðar.

Í gildandi lögum er kveðið á um að lífeyrisréttur miðist við grundvallarlaun eins og þau voru 1. mars, 1. júní, 1. sept. og 1. des. Þessar dagsetningar voru miðaðar við þá daga sem verðbótahækkun launa tók áður gildi skv. lögum og kjarasamningum. Forsendur fyrir þessum dagsetningum eru ekki lengur fyrir hendi og því er lagt til að lífeyrisréttur miðist við grundvallarlaun í byrjun hvers mánaðar. Í þessu felst að lífeyrisgreiðslur geta breyst sem næst jafnskjótt og laun breytast í stað þess að geta breyst fjórum sinnum á ári eins og nú er. Þetta hefur í för með sér að komið er í veg fyrir tafir í breytingum lífeyrisgreiðslna til samræmis við þær launabreytingar sem um kann að vera samið og færir lífeyrisþegum því nokkra kjarabót.

Erfitt er að áætla um fjárhagsleg áhrif fyrir ríkissjóð af þeim tillögum sem gerðar eru með þessu frv. Ýmis atriði má þó nefna í því sambandi. Í fyrsta lagi þarf vart að nefna að falli lögin úr gildi fellur niður kostnaður ríkissjóðs af lífeyrisgreiðslum skv. þeim, alls 24 millj. kr. skv. áætlun fyrir þetta ár, en kostnaðarhluti Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem félli niður, er 53 millj. kr. á þessu ári og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 6 millj. kr. Á hitt má benda að á móti mundu útgjöld ríkissjóðs til greiðslu tekjutryggingar og annarra tengdra bóta lífeyristrygginga vafalaust aukast.

Í öðru lagi má nefna að verði lögin framlengd fer kostnaðarskiptingin mjög eftir launabreytingum næstu árin. Þeim mun minna sem laun hækka að krónutölu, þeim mun þyngri verður kostnaður ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs af lífeyri skv. 1. kafla laganna, en kostnaður af lífeyri skv. II. kafla lækkar. Hið gagnstæða á sér stað verði um miklar launabreytingar í krónum að ræða á næstunni. Loks má nefna að lækkun á framlagi lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris skv. II. kafla laganna og uppbótar á hann hefur í för með sér kostnaðarauka fyrir þá aðila sem greiða það sem á vantar að framlag lífeyrissjóða nægi til þessara útgjalda, það er fyrir ríkissjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. T.d. um áhrif þess má nefna að hefði framlagið 1984 verið 3% í stað núgildandi 5% af iðgjaldatekjum sjóðanna hefði það aukið útgjöld ríkissjóðs um 5.4 millj. kr. og Atvinnuleysistryggingasjóðs og Jöfnunarsjóðs um 4 millj. kr. á hvorn sjóð, miðað við þá áætlun um greiðslur og kostnaðarskiptingu sem hér hefur verið sett fram.

Ed. hefur afgreitt þetta frv. og varð ásátt um afgreiðslu þess. Ég vænti þess að hv. n., sem fær málið til umfjöllunar, afgreiði það fljótt því að nauðsyn er á að þetta frv. verði að lögum. Annars falla eftirlaunagreiðslur aldraðra í stéttarfélögum niður.

Herra forseti. Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.