17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breyt. á lögum um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Minni hl. skipar auk mín hv. þm. Kjartan Jóhannsson. Í nál. minni hl. kemur fram eftirfarandi:

„Við undirritaðir nm. erum andvígir þessu frv. og leggjum til að það verði fellt.

Einstakir nm., sem skipa minni hl., munu gera nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum við 2. umr. málsins. Guðrún Agnarsdóttir sat fundi n. og er sammála þessu áliti minni hl.“

Í tengslum við þetta mál fór ég fram á það við hæstv. fjmrh. að hann veitti ýmsar upplýsingar um álagningu og frádrætti sem lögin hefðu haft í för með sér. Hann veitti mér jákvæðar yfirlýsingar um að hann mundi svara öllum þeim spurningum sem komu fram við 1. umr. málsins. Þegar hins vegar kom að því að embættismenn hans ættu að gera grein fyrir þeim svörum sem hæstv. ráðh. vildi veita kom í ljós að á þeim voru ýmsir tæknilegir meinbugir, m.a. þeir að ekki var búið að leggja á að öllu leyti samkvæmt þeim lagaákvæðum sem hér er um að ræða, heldur taka þau einkum gildi á árinu 1985. Aftur á móti er það svo að þegar liggur fyrir hversu mörg hlutafélög hafa óskað eftir því að njóta þeirra fríðinda sem lögin kveða á um. Og í fskj. með nál. minni hl. á þskj. 321 er birtur listi yfir staðfest hlutafélög samkvæmt 11. gr. laga nr. 9/1984 eins og listinn leit út 8. nóv. 1984.

Eins og kunnugt er var það meining ríkisstj. og ýmissa talsmanna þessa máls hér í þinginu, m.a. hv. þm. BJ, að hérna væri um að ræða mál sem mundi geta þokað einhverju áleiðis í atvinnurekstri í átt til grósku og aukinna umsvifa í atvinnulífinu. M.a. sagði hæstv. fjmrh. þau orð í framsöguræðu sinni að hérna skapaðist nú tækifæri fyrir margnefndan lítinn mann til að leggja fram afganginn af sparnaðinum sínum í fyrirtæki. Nú höfum við fengið um það upplýsingar hvar þessi lagaákvæði koma til góða. Og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að telja upp þessi fyrirtæki þannig að það megi ljóst vera hverjir hafa brugðið skjótt við til að hagnýta þá möguleika sem lögin skapa.

1. Almennar tryggingar hf., Síðumúla 39, Reykjavík, 2. Alþýðubankinn hf., Laugavegi 31, Reykjavík, 3. Hf. Eimskipafélag Íslands, Pósthússtræti 2, Reykjavík, 4. Fjárfestingarfélag Íslands, Klapparstíg 26, Reykjavík, 5. Flugleiðir hf., Reykjavíkurflugvelli, 6. Hampiðjan hf., Stakkholti 4, Reykjavík, 7. Iðnaðarbanki Íslands hf., Lækjargötu 12, Reykjavík, 8. Tollvörugeymslan hf., Héðinsgötu 1–3, Reykjavík, en hún hefur einhvern veginn frétt af því að þessir möguleikar væru til, og 9. Verslunarbanki Íslands hf., Bankastræti 5, Reykjavík. Síðan kemur fyrirtæki sem er aðeins minna í sniðum en hin, en það heitir Arnarflug hf., Lágmúla 71, Reykjavík. Svo koma tvö fyrirtæki utan Reykjavíkur sem hafa hugsað sér að njóta þessara fríðinda til eflingar atvinnulífi og til að gera það allt blómlegra. Þau eru Sjóefnavinnslan hf., Keflavík, en það er mjög þekkt fyrirtæki og talið geta stuðlað að mikilli blómgun í okkar atvinnuvegum og er geipileg eftirspurn eftir vörum frá því víst, og í tólfta lagi Skagstrendingur hf., Skagaströnd.

Þetta eru þau tólf fyrirtæki sem hér er um að ræða, þ.e. þetta er postulatalan sem hér er fylgt. Síðan kemur í ljós, þegar spurt er hvaða fyrirtæki hafi notað sér heimild til laga um starfsmannasjóði, að það hefur eitt fyrirtæki gert. Það er starfsmannafélag Arnarflugs. Svo er spurt hvaða fyrirtæki hafi notað sér heimild til laga um fjárfestingarsjóði. Svarið er: ekkert fyrirtæki. Þannig hefur þetta skilað sér.

Það er býsna athyglisvert hverjir það eru sem ætla að nota sér þessar heimildir til að fá skattalækkanir, hverjir það eru sem ætla að njóta þeirrar meðgjafar úr ríkissjóði sem þessi skattalækkun auðvitað er. Það eru félög eins og Flugleiðir, Eimskipafélagið og önnur stærri fyrirtæki í landinu sem hafa í vinnu sérfræðinga sem kunna að kafa í gegnum þann frumskóg sem skattalögin í landinu eru að verða. Auðvitað er einn megingallinn við þessi lög sá að verið er að ýta undir aukna mismunun í skattakerfinu í landinu, þannig að þeir sem hafa yfir að ráða sérfræðiþekkingu geti nýtt sér möguleikana en hinn almenni maður ekki.

Við sem stöndum að áliti minni hl. teljum að það sé fráleitt að vera að hækka þá frádráttarliði sem frv. gerir ráð fyrir að hækka og þess vegna leggjum við til að frv. verði fellt.