17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

192. mál, málefni aldraðra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ætli væri hugsanlegt að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur þessa umr. og hæstv. forseti sæi til þess að hann kæmi hér í salinn?

Þegar 1. umr. um þetta mál fór fram ræddum við nokkuð um hvað eðlilegt væri að veita í Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. í hluta þeirra verkefna sem hann hefur verið með miðað við verðgildi framlaganna á árinu 1984. Í þeim töluðum orðum kom inn á borð þm. brtt. fjvn. varðandi það að 14 millj. kr. yrði varið til hjúkrunarheimila aldraðra á árinu 1985 beint úr ríkissjóði til viðbótar þeim hugsanlegu 30% sem tekin yrðu af Framkvæmdasjóði aldraðra skv. því lagafrv. sem hér er verið að ræða. Fram kom í máli nokkurra þm. að þeir töldu að þetta væri skerðing á fjármunum til hjúkrunarheimila aldraðra, m.a. væri B-álma Borgarspítalans í sérstakri hættu eins og hv. 10. landsk. þm. gat um áðan.

Í framhaldi af því kom það fram hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. að hann teldi að þessi upphæð í brtt. fjvn. væri fjarri öllu lagi, þessar 14 millj., og hann nefndi sjálfur að þarna hefði þurft að standa talan 30 millj. og að 2/3 hlutar þeirrar upphæðar hefðu þurft að fara til B-álmu Borgarspítalans. Af þessum ástæðum, að hæstv. heilbr.og trmrh. gaf þessa yfirlýsingu, fluttum við þm. Alþb. ekki brtt. við þennan lið við afgreiðslu fjárlaganna við 2. umr., vegna þess að við stóluðum á að vilji hæstv. heilbr.- og trmrh. yrði fjárlög í þessu efni áður en margir sólarhringar væru liðnir. Síðan gerðist það að við 2. umr. fjárl. gekk ég á hæstv. fjmrh. með þetta mál og hann tók mjög jákvætt í þetta mál í umr. um fjárlög. Þess vegna held ég að það sé alveg lágmarkskrafa, sem hv. 10. landsk. þm. hefur hér farið fram á, að afgreiðslu málsins verði ekki lokið fyrr en niðurstöður fjvn. liggja fyrir. Ég hygg að allir þeir sem vilja þessum málaflokki vel, sem eru vafalaust allir hv. þm., telji að verið geti skynsamlegt að fjvn. hafi hitann í haldinu með þetta mál þannig að það verði ekki afgreitt hér fyrr en hún er búin að gera upp sinn hlut.