17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

192. mál, málefni aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Við 2. umr. fyrr í dag fór ég fram á að þessi atkvgr. yrði frestað þar sem ég taldi að hv. þm. yrðu að krefjast þess að staðið væri við þau fyrirheit að framlag ríkisins rýrðist ekki né Framkvæmdasjóður við þessa breytingu. Einkum stendur málið mjög nálægt þm. Reykv. þar sem hér er ekki síst um hagsmuni B-álmunnar við Borgarspítalann að ræða. Hins vegar svaraði forseti því hvorki til né frá hvort hann yrði við þessu og það þykir mér raunar að hann hefði átt að gera. Ég tek það hins vegar svo að hann hafi ekki orðið við þessari beiðni minni.

En ég skal firra vandræðum. Með því að hæstv. heilbrmrh. tók til máls eftir að ég hafði farið fram á þessa frestun, og með tilliti til þess hversu sammála hann er þessari kröfu og hversu vinsamlega hann tók í að staðið yrði við gefin fyrirheit tel ég út af fyrir sig ástæðulaust að halda þessari frestunarbeiðni til streitu, en treysti því þá auðvitað að við 3. umr. um fjárlög liggi fyrir brtt. frá fjvn. um að þarna verði hærri upphæð en þær 14 millj. sem þar eru nú. Þess vegna féll ég frá þessari frestunarbeiðni.