17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

Afgreiðsla þingmála

Páll Pétursson:

Herra forseti. Áðan var frestað umr. um söluskatt vegna þess að upplýsingar lágu ekki fyrir um ákveðin atriði sem spurt hafði verið um í fjh.- og viðskn. Mér hefur nú tekist að afla upplýsinga sem ég vona að séu fullnægjandi. Þær eru þær bestu fáanlegar.

Í fyrsta lagi var óskað eftir upplýsingum um áætlun um hversu mikill uppsafnaður söluskattur sjávarútvegsins væri. Þjóðhagsstofnun hefur verið að reikna þetta og skv. þeirra útreikningum, sem þeir skiluðu af sér nú í kvöld, er talan 515 millj., miðað við 1. jan. n.k., en ef reiknað er með því verðlagi sem fjárlögin eru reiknuð á er þessi tala 550 millj.

Í stefnuræðu forsrh., sem flutt var fyrr í haust, segir um uppsafnaðan söluskatt þannig, með leyfi forseta: „Uppsafnaður söluskattur í sjávarútvegi mun, eins og kunnugt er, verða endurgreiddur frá og með næstu áramótum. Verður því fjármagni varið til þess að lagfæra stöðu Aflatryggingasjóðs, þannig að á árinu 1985 megi áfram greiða úr sjóðnum óbreytta uppbót á fiskverð.“

Lengri er þessi tilvitnun ekki. En þar við situr. Það liggur ljóst fyrir að að mestu verður þessari endurgreiðslu beint í gegnum Aflatryggingasjóð, en þó er ekki fyrir það að synja að það verði eitthvað af honum greitt með öðrum hætti.

Ég vona að þetta sé fullnægjandi svar við þeim réttmætu fsp. sem fram komu í n. og að menn treysti sér til þess að taka þetta mál til umr. í kvöld að fengnum þessum upplýsingum. Fleira var það ekki í bili, herra forseti.