17.10.1984
Neðri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

5. mál, útvarpslög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hér er um stórt mál að ræða, sem ástæða er til að athuga allar hliðar á, vegna þess að þetta kemur til með að breyta verulega, að mínu mati, aðstöðu manna til þess að njóta útvarps.

Mér fundust það nokkuð merkilegar umr. sem fóru fram í sambandi við skýrslu forsrh. um kjaramálin fyrir nokkrum dögum. Miðað við margar þær ræður, sem þar voru fluttar, var eins og aðalvandamálið í þessu þjóðfélagi í sambandi við vinnudeilu BSRB væri það að útvarpið og sjónvarpið hefðu stöðvast að mestu leyti. Enginn minntist á það t.d að strjálbýlið er símalaust, þeir sem ekki hafa sjálfvirkan síma. Það er engin þjónusta veitt því fólki og það er bara í neyðartilvíkum, ef kviknar í, ef stórslys verða, sem sú þjónusta er látin í té. Þarna er um að ræða tiltölulega fáa sveitabæi, en sama eða svipað gildir um sjómenn á hafi úti.

Hér héldu menn hjartnæmar ræður um hvað væri nú voðalegt, t.d fyrir fólk hér, að hafa ekki útvarp og sjónvarp og fjölmiðla. En engum datt í hug að ræða þessi mál. Menn lögðu ekki áherslu á að það væri kannske neyð hjá ýmsum fjölskyldum vegna þess að þær fengu ekki launin greidd. Fjölmiðlarnir voru aðalmálið.

Kannske lýsir þetta því hvað á bak við er. Það er verið að krefjast þess að fá frelsi. Frelsi hvers? Frelsi þeirra sem hafa peninga. Það er það frelsi sem er verið að berjast fyrir í sjálfu sér í þessu frv. Hafa menn leitt hugann að því hvað verður ef þetta frv. fer í gegn eins og það er, án breytinga? Á eftir standa þegnar landsins ekki í sömu sporum. Ef t.d 4. gr. verður ekki breytt, um fullkomið frelsi þessara nýju stöðva til að taka við auglýsingum og byggja rekstur sinn á því, hvar kemur það niður? Hefur verið hugsað um það, hæstv. menntmrh., hvernig Ríkisútvarpið, sem á að þjóna öllum landsins börnum, verður rekið ef þarna verður verulegur tekjumissir sem er alveg sýnilegt að verður? Nei, það er sem sagt gefið frelsi til að setja upp sjónvarpsstöðvar eða útvarpsstöðvar á þéttbýlissvæðunum, þar sem eru mestir möguleikar að fá auglýsingar, en hvaðan taka þær fjármagnið?

Ég held að það þurfi að velta þessu fyrir sér og tryggja a.m.k. með einhverjum hætti að þróun mála verði ekki á þann veg að þetta spor verði til þess að auka aðstöðumuninn í sambandi við fjölmiðla meira en er. T.d sést ekki enn þá sjónvarp alls staðar úti á landsbyggðinni, a.m.k. ekki á þann veg sem við, sem hér erum, mundum telja að væri forsvaranlegt. Það er ekki á öllum stöðum sem heyrist í útvarpi úti á landsbyggðinni. Hefur komið krafa um það í þessum umr. að það verði látið sitja fyrir öðru í þessu sambandi? Hvar er réttlætiskennd fólks sem berst fyrir þessum breytingum? Er það réttlætiskennd að þeir sem hafa peninga geti sett slíkt af stað á kostnað annarra? Er það réttlætið sem er barist fyrir?

Það hrannast upp óteljandi spurningar þegar maður les frv. eins og það sem við erum að ræða hér um. Það er alveg merkilegt ef nokkrum dettur í hug í alvöru að það sé hægt að afgreiða þetta frv. á einni eða tveimur vikum. Á að brjóta þá hefð, sem hefur hér viðgengist, a.m.k. þau 17 ár sem ég hef verið hér, að senda frv. út til umsagnar? Á ekki að athuga um hvernig þetta kemur við Ríkisútvarpið? Á að gera þetta allt blindandi? Er það virkilega svo að þó að útvarpinu væri lokað 1. okt. ætli menn að ana út í einhverjar breytingar sem menn hafa ekki hugmynd um fyrir fram hvernig verka?

Ég ætla ekki að ræða um þetta öllu frekar að sinni. En ég áskil mér allan rétt til að ræða málið við 2. og 3. umr. ef það á að keyra það fram eins og mér sýnist, án þess að fara eftir venjum sem hér hafa skapast, án þess að fá svör við því hvernig þetta mun verka á Ríkisútvarpið, án þess að fá svör við því hvort búið sé að tryggja að þetta valdi ekki meira misrétti en er í dag í þjóðfélaginu í sambandi við fjölmiðla. Fleiri spurningar mun ég koma með er ég sé hver framvinda málsins verður.