17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er komið til umr. frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforkusölu og hefur það verið árviss viðburður, líklega síðan 1974, að slíkt frv. hefur verið lagt hér fram á Alþingi, með litlum breytingum oftast. Nú er það óvenjuseint á ferð, því að ég hygg að það hafi ekki komið í fyrri deild fyrr en í síðustu viku, og eru ástæðurnar augsýnilega þær sumpart að hæstv. iðnrh. hefur verið í miklum bögglingi með þetta mál og hvernig það yrði lagt fyrir þingið.

Ég hef reynt að fylgjast með yfirlýsingum hæstv. ráðh. um þessi efni, en þær eru nú orðnar býsna margar. Ég held að full ástæða væri til þess að hæstv. ráðh. léti taka saman þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið síðasta eitt og hálft árið varðandi verðjöfnunargjald af raforku. Þetta er orðið það skrautlegt safn að ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir þingið og þingnefnd að hafa það samandregið skilmerkilega. Augljóst er af orðum ráðh., einnig hér síðast, að hann ætlast til að þessar yfirlýsingar hans séu teknar alvarlega, jafnvel hátíðlega, og bættist nú a.m.k. ein við ef ekki tvær í þessari hinni síðustu ræðu.

Ég hef því miður ekki hér við höndina neitt yfirlit um þessar einstöku yfirlýsingar, sem hæstv. ráðh. var hér sumpart að vitna til, en ég minnist þess að þegar hann tók að ræða þetta mál hér í þinginu fyrir áramót í fyrra, á árinu 1983, þá brá mér nokkuð við það hversu afdráttarlaus hæstv. ráðh. var um afnám verðjöfnunargjaldsins. Það var engu líkara en ráðh. teldi það vera létt verk að afnema þetta gjald, fyrir utan það að hann lýsti því yfir að það væri hið mesta nauðsynjamál, og það endurtók hann raunar hér í ræðu sinni áðan. Hann talaði um yfirlýsingu frá ríkisstj. sem fæli í sér afnám þessa óeðlilega gjalds, eins og hann orðaði það.

Ég hef talið yfirlýsingar ráðh., sem ganga í þessa átt, vera óvarkárar, svo að vægt sé til orða tekið, og hef satt að segja átt mjög erfitt með að skilja það sem að baki lægi. Ég hélt að hæstv. ráðh. minntist þess hvaða erfiðleikum það hefði verið bundið að tryggja lágmarksjöfnun á raforkuverði frá þeim fyrirtækjum sem hafa notið þessa gjalds á undanförnum 10 árum og hversu erfitt hefur verið að halda þessu gjaldi inni í þinginu, ég tala nú ekki um þegar leitað var eftir og samþykkt var hækkun þess úr 13% í 19% árið 1978. Þá munaði mjög mjóu í þessari hv. deild í sambandi við úrslit þess máls. Ég hygg að það hafi oltið á einu eða tveimur atkv. hvernig með það færi. Þá var staðan sú að verðmunur á heimilistaxtanum sem hér um ræðir í sambandi við þetta gjald, heimilistaxta raforku, var orðinn nær 90% sem viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða greiddu meira fyrir ljós og eldun, heimilisrafmagnið, heldur en viðskiptavinir Rafmagnsveitu Reykjavíkur og flestra rafveitna sveitarfélaga sem höfðu mjög svipaða taxta.

Það var kveðið á um það, og ég gaf um það yfirlýsingu þá á Alþingi sem ráðh., að hækkun gjaldsins úr 13 í 19% yrði varið til þess að draga úr hinum alvarlega og vaxandi mismun, sem þarna hafði orðið árin á undan. Það tókst á um það bil 1 1/2 ári að minnka þennan mun úr nærfellt 90% niður í tæp 25% og við þau mörk hefur síðan verið haldið í sambandi við gjaldskrárákvarðanir á meðan stjórnvöld höfðu tök á þeim málum og iðnrn. kærði sig um að hafa áhrif á gjaldskrár. En sem kunnugt er hefur núv. ríkisstj. og núv. hæstv. iðnrh. afsalað sér afskiptum af gjaldskrármálum og beitti sér fyrir að felld voru úr gildi sérstök lög, sem tryggðu íhlutunarrétt stjórnvalda um gjaldskrá Landsvirkjunar, sem er hér aðalorkuframleiðandi í landinu og nánast einokunaraðili í sambandi við heildsölu á raforku. Hæstv. ráðh. kærði sig ekkert um íhlutunarrétt þar að lútandi og beitti sér fyrir því að Landsvirkjun var leyst undan þeirri kvöð að fá samþykki iðnrn. fyrir gjaldskrárbreytingum. Það var nokkuð sérstök aðgerð þegar hæstv. ráðh. beitti sér fyrir því að brbl., sem sett voru vorið 1983 um þetta efni, voru felld hér á Alþingi.

Ég vil taka það fram að ég tel að það sé út af fyrir sig hægt að beita öðrum aðferðum en þeim sem hafa falist í þessari gjaldtöku til að tryggja lágmarksjafnræði notenda í sambandi við smásölu á raforkuverði. Og það hefur verið reynt að taka upp önnur ráð í þeim efnum, m.a. af fyrrv. ríkisstj. þar sem ég átti hlut að máli. Þá var það samþykkt og tekið inn í stjórnarsáttmálann að að því skyldi unnið að svokallaðar félagslegar framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins yrðu metnar og fjármagnaðar með framlögum frá eiganda og með svipuðum hætti yrði reynt að sjá fyrir fjármagnsþörf hjá Orkubúi Vestfjarða í sambandi við þann hluta framkvæmda og rekstur þessara fyrirtækja sem markaðurinn á viðkomandi svæði stæði ekki undir með viðráðanlegu verði.

Á árinu 1979, að ég hygg, kom í fyrsta sinn um langan tíma sérstakt eigandaframlag frá ríkissjóði til Rafmagnsveitnanna. Mig minnir að það hafi verið 600 millj. gkr. á þeim tíma. Síðan var þetta aukið á árinu 1980 og 1981 og á árunum þar á eftir var einnig framlag. Það var sem sagt allverulegt framlag á fjárlögum til Rafmagnsveitnanna þarna um 2–3 ára skeið.

Það var lögð mikil vinna í það af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins, og ég hygg einnig af hálfu Orkubús Vestfjarða, að meta og reyna að ná samstöðu m.a. við hagsýslustofnun um hvernig bæri að virða hinn svokallaða félagslega þátt framkvæmdanna og reikna þetta framlag, sem ætti þá að koma á móti, eftir þeim leiðum. En það verður að segja að þó að þarna hafi verið viðleitni í þessa átt af hálfu fyrrv. ríkisstj. og nokkuð að gert, þá var það engan veginn að um þetta næðist full samstaða og kæmi nægjanlegt fjármagn eftir þessari leið með framlagi eigenda, það var langt frá því, og þess vegna var það okkar niðurstaða í þeirri ríkisstj., og reyndar ágreiningslítið á Alþingi þessi ár, að halda bæri þessu verðjöfnunargjaldi af raforku til þess að tryggja að ekki þyrfti að auka verðmuninn á raforkusölunni til notenda hjá þessum fyrirtækjum.

Svo kemur ný ríkisstj. til valda og hennar verk að þessu leyti var það sem auðsæilegast var, það var að fella með öllu niður framlög til Rafmagnsveitna ríkisins af fjárlögum. Það var ekki að finna á fjárlögum yfirstandandi árs eina einustu krónu til Rafmagnsveitna ríkisins. En þrátt fyrir þá staðreynd kemur hæstv. iðnrh. hér á síðasta vetri, í fyrra, í umr. um þessi mál og segir: Við þurfum endilega að losna við þetta verðjöfnunargjald, það verður auðvitað að afnema það, og hann muni beita sér fyrir því — á sama tíma og ríkisstj., sem hann á sæti í, hverfur frá þeirri viðleitni, sem hin fyrri hafði þó haft, að leysa málið með einhverjum öðrum hætti sem gerði það kleift að breyta hér til og lækka þetta verðjöfnunargjald.

Þetta er málflutningur og málsmeðferð sem ég á afar erfitt með að skilja, vegna þess að hæstv. iðnrh. heldur nú ekki um fjármál ríkisins, svo vill til, og hann nær því ekki fram sem hann kynni kannske að óska sjálfur og telja sjálfur rétt að gert yrði í sambandi við fjárlög og fjárlagaafgreiðslu að þessu leyti.

Oft hefur verið á það bent að álagning prósentugjalds af þessu tagi sé í eðli sínu óréttlát skattlagning og bitni þyngra á þeim sem hærra gjald, grunngjald, greiða fyrir. Það er vissulega rétt og ég lét á sínum tíma gera athuganir á möguleikum þess að breyta þarna til. En það var bent á ýmis tormerki, ýmsa agnúa eða erfiðleika sem væru á því að taka upp krónutöluálagningu, svo að af því varð ekki. Það var líka minni ástæða til þess þegar tekist hafði að ná þessum mikla mismun úr allt að 90% niður í fjórðung og þaðan af minna. Þess ber og að geta að ýmsar rafveitur sveitarfélaga, sem gjald þetta var lagt á, voru komnar með gjaldskrár sem voru jafnháar, sumar jafnvel heldur hærri en hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og var það eðlilega óvinsælt af forstöðumönnum þeirra og notendum í viðkomandi byggðarlögum. Það var skiljanlegt og má telja að það hafi verið ákveðin mistök að ekki var gætt lágmarkssamræmingar í þessum efnum.

Síðan skipaði hæstv. ráðh. nefnd, sem hann hefur greint hér frá, og fskj. með þessu frv. til l. er nál. þeirrar nefndar. Og það er ekki mjög langt síðan hæstv. ráðh. gaf um það yfirlýsingar að á grundvelli þessa nál. ætlaði hann að beita sér fyrir því að gjaldið yrði lækkað niður í 10% á næsta ári og afnumið síðan í áföngum og hér yrði um að ræða lagasetningu sem skæri úr um þetta.

Ef um þetta hefði tekist sammæli innan ríkisstj. og það hefði verið tryggt hér af stjórnvöldum með frv. til l. með óyggjandi hætti að fyrir hag þessara fyrirtækja væri séð með sæmilegu móti og þar væru slegnir allir nauðsynlegir varnaglar ef aðstæður breyttust, þá hefði ekki verið ástæða til þess að mæla gegn breytingu á þessu gjaldi eða vara við skrefi sem hér er verið að taka til lækkunar þess. En svo fór með yfirlýsingar hæstv. ráðh. að þær reyndust bara vera markleysan tóm. Þegar á átti að herða hafði hann ekkert á bak við sig í ríkisstj. til að ná þessum markmiðum fram. Hann er að draga það hér alveg fram undir jólaleyfi þingsins að bjarga sér í land með því að flytja nú í lítt breyttu formi frv. til framlengingar á verðjöfnunargjaldi af raforku, en telur sig þó nauðbeygðan til þess að krukka svolítið í gjaldið frá því sem áður var til lækkunar, úr 19% í 16%, og gefur hér enn eina yfirlýsinguna um það að þetta skuli nú bætt þó að engan veginn sé frá því gengið með lögformlegum hætti hér. En það á að gerast, að því er hæstv. ráðh. segir, með skuldbreytingu alfarið, og þau mál séu í athugun hvernig við það verði staðið, hvernig það verði framkvæmt.

Það má vera að þetta takist og hæstv. ráðh. nái þessu lítilræði fram, lítilræði miðað við stóru yfirlýsingarnar um afnám verðjöfnunargjaldsins. En reynslan mun skera úr um það hvernig þar tekst til.

Ég hygg að þeir sem fyrir Rafmagnsveitum ríkisins ráða, þ.e. þeir sem bera þar rekstrarlega og daglega ábyrgð, séu nú dálítið uggandi um það hvernig fara muni um efndirnar á þessum yfirlýsingum varðandi skuldbreytinguna. En ég vil ekki vera að spá neitt illa fyrir því.

En um eitt vil ég spyrja hér og vænti þess að fá um það skýr svör frá hæstv. ráðh. nú við 1. umr. Hvaða breytingar eru það sem eru í vændum, að því er ráðh. getur upplýst um verðlag á raforku í landinu á næstu vikum? Ég ætla ekki að fara lengra. Hvers er að vænta í sambandi við gjaldskrá Landsvirkjunar og hvers er að vænta í sambandi við gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins? Hvaða hækkun er það sem Landsvirkjun ráðgerir á raforku í heildsölu? Hvaða hækkanir eru það sem Rafmagnsveitur ríkisins telja sig þurfa að fá til þess að tryggja hallalausan rekstur, miðað við þá breytingu sem hér er verið að gera á verðjöfnunargjaldinu og verðlagsforsendur komandi árs? Hvaða breytingar eru það á hitunartöxtum raforku og hvaða breytingar á þeim taxta sem hér um ræðir, heimilisrafmagni? Ég tel alveg nauðsynlegt að fá um þetta skýr og afdráttarlaus svör áður en 1. umr. lýkur og þá jafnframt hvaða breytingum má gera ráð fyrir eða hvaða breytingar eru ráðgerðar á þessum sama taxta á gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Getur ráðh. fullvissað okkur um það hér og nú að þær gjaldskrárbreytingar, sem hann hefur gefið í skyn nú alveg nýlega að séu fram undan, leiði ekki til aukins mismunar á verði heimilisrafmagns hjá Reykvíkingum annars vegar og viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða hins vegar? Liggur það fyrir að þessi fyrirtæki treysti sér til að halda þeirri gjaldskrársetningu með tilliti til ákvarðana hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur að ekki verði um aukinn mun að ræða á næstu mánuðum og á næsta ári? Auðvitað er nauðsynlegt að fá upplýsingar varðandi árið í heild hvert stefnir í þessum efnum. Það tel ég algert skilyrði þess í rauninni að við, sem erum hér fulltrúar landsbyggðarinnar á Alþingi, kjörnir í landsbyggðarkjördæmum þar sem fólkið skiptir að yfirgnæfandi meiri hluta við Rafmagnsveitur ríkisins eða Orkubú Vestfjarða, getum átt hlut að því að lækka nú þetta verðjöfnunargjald eins og ráðh. er hér að leggja til.

Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja mál mitt nú. Ég vænti að hæstv. ráðh. geti svarað með skýrum hætti þeim spurningum sem ég hef borið fram. Ég á sæti í þeirri nefnd, sem lagt er til að fái þetta mál til meðferðar, og mun þar beita mér fyrir því að fá nauðsynlegar upplýsingar, sem á kann að vanta, eftir að hafa hlýtt hér á svör hæstv. ráðh.