17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að ræðuhöld hv. 3. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Austurl. eru með sérkennilegum hætti þó ekki sé meira sagt. Þeir slá á sig heyrnarleysi, ekki get ég betur séð og heyrt, eða að þeim þóknast ekki að vera við eða hlusta á þær yfirlýsingar sem gefnar eru. T.a.m. biður hv. 3. þm. Vestf. nú um yfirlýsingu, sem ég birti sérstaklega í lok framsögu minnar, um að lagt yrði fram frv. fyrir Alþingi þar sem þessum málum yrði ráðið til lykta, afnámi verðjöfnunargjaldsins og að fyrir fjárhag þessara fyrirtækja yrði séð. Ég mun auðvitað láta taka ljósmynd af þessu til þess að fá hv. þm. í hendur.

Báðir þessir hv. þm. urðu fjölorðir um yfirlýsingar sem ég hafi gefið í þessu máli. Ég gaf yfirlýsingu í desember í fyrra um það að verðjöfnunargjald af raforku skyldi lækkað í áföngum og/eða afnumið, enda yrði séð fyrir fjárhag þeirra fyrirtækja sem þessara fjármuna hafa notið, Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins. (KP: Ekki orð í frv. um það.) Ekki orð í frv. um það? Veit ekki hv. þm. eftir alla þessa þingsetu að það sem í grg. stendur, bæði útlistun á lagagreinum og grg. sjálfar, aths. með frv., gilda sem túlkun þess?

Þessar yfirlýsingar hef ég gefið. Ég skipaði nefnd til þess að gera úttekt og athugun á þessum málum. Sú nefnd vann vel og skipulega. Ég taldi mig vera nokkuð siðferðilega skuldbundinn að reyna á um að ná fram tillögum hennar. Það tókst ekki. Þær voru seint fram komnar með bréfi 23. nóv. og það náðist ekki samkomulag um framkvæmd þeirra. Allviðamikil framkvæmd að vísu, fjárhagur þröngur, erfiðleikar miklir. En það náðist þó fram endanleg ákvörðun allrar ríkisstj., sem ég las hér upp, um afnám verðjöfnunargjaldsins.

Hv. 5. þm. Austurl. vék að því að ég mundi hafa af ráðnum hug og vegna þess að ég hefði verið í bögglingi með þetta frv. dregið að leggja það fram þangað til nú á lokadögum þings fyrir jólahlé. Hv. 3. þm. Vestf. hefði átt að vera það minnistætt að þetta er nokkurn veginn árlegur viðburður, afgreiðsla þessara mála á hinu háa Alþingi í desembermánuði. Það er árlegur viðburður síðan 1974. Og hv. 5. þm. Austurl. veit vel hvernig þessar umr. hafa snúist. Hann bar þetta fjórum sinnum fram og alltaf í desember. Ég gáði að þessu í dag. (Gripið fram í.) Alltaf í desember, til þess að menn stæðu frammi fyrir þessu sem nauðsynlegum hlut, eins og hv. 3. þm. Vestf. lýsir yfir að sé, að þeir gætu ekki brugðið á nein önnur ráð þótt enginn meiri hl. væri fyrir því á hinu háa Alþingi að leggja þetta óréttláta gjald á. Það lá fyrir í fyrra og m.a. skrifuðu þrír flokksmenn mínir upp á nál. úr iðnn. með fyrirvara. Það var gengið á milli manna í stjórnarflokkunum og það lá ljóst fyrir að ekki var meiri hl. fyrir þessu óbreyttu. Það lá fyrir till. frá Alþfl.-mönnum um lækkun gjaldsins í 12%. Og það var mikið fylgi fyrir því að samþykkja þá till. Niðurstaðan varð sú yfirlýsing sem ég gaf.

Mínar yfirlýsingar eru ekki margþættar og það hefur náðst endanlegt samkomulag um framfylgd þeirra. Breytingin er að vísu sú að í stað þess að ná því niður í 10% í einu stökki og halda því þar í tvö ár og síðan í 5% og halda því enn í tvö ár, þá er hugmyndin núna sú að ná afnáminu fram með því að nú var lækkað í 16%, síðan í 4% í fjögur ár. Það tekur einu ári lengur að afnema þetta. Og m.a. vegna þess að þetta er ekki það mikil grundvallarbreyting var ákveðið að láta slag standa með hina prósentvísu álagningu en ekki breyta til með sama hætti eins og nefndin ákvað í sínu áliti.

Þetta eru stóru yfirlýsingar mínar. Þær voru gefnar af nauðsyn vegna þess að það var ekki lengur þingmeirihluti fyrir þessu gjaldi. Ég hlýt að beygja mig fyrir honum, til viðbótar því sem mér hafði verið þungt um, ég hafði verið lengi drums um að samþykkja þetta gjald.

Hv. 5. þm. Austurl. talaði um að iðnrn. vildi ekki lengur íhlutunarrétt í verðlagsmálum rafmagns. Að vísu er það svo að iðnrn. og ríkisstj. hlýtur að hafa nokkuð á valdi sínu verðlagningu Rafmagnsveitna ríkisins, enda þótt reksturskostnaður og allar aðrar aðstæður hljóti að marka því bás. En hv. þm. gerir mikið úr þeim íhlutunarrétti stjórnvalda sem hann útvegaði sér. En hvenær gerði hann það, hv. þm., sem fyrrv. ráðh.? Í aprílbyrjun 1983. Hvenær settist hann í stól iðnrh.? Það mun hafa verið í ágúst 1978. Að vísu varð hlé þar á um hríð, í eina fjóra mánuði. En hann fékk sér þann íhlutunarrétt, sem hann gerir nú mikið úr, í heildsöluverðmynduninni ekki fyrr en í apríl 1983. (HG: Hafði hann lengst af.) Í apríl 1983 fékk hann sér þetta, rétt áður en klukkan sló tólf hjá honum, áður en hann hraktist frá embætti.

Hv. þm. vildi meina að hægt væri að beita öðrum aðferðum til jöfnunar raforkunnar í landinu. Og auðvitað er honum fullkunnugt um það að þessu héldu menn fram hér í stöðugum aðventunauðum í þessu máli, af því það var alltaf á síðustu stundu og menn gátu ekki náð vopnum sínum til þess að fá fram breytingar á því. Það er löngu ljóst að þetta gjald naut ekki meirihlutafylgis, enda þótt menn neyddust til þess á lokastigi mála, áður en þetta gjald rann út, að samþykkja það. Þetta kom fram í löngum umr., sem menn geta lesið og kynnt sér í umræðukafla þingtíðinda og hér í tillögum nefndarinnar. Satt best að segja get ég svarað því til að nýjar hugmyndir um aðferðir til að mæta niðurfellingu gjaldsins hafa ekki komið fram frá því sem nefndin hefur sjálf sett fram í sínum tillögum. Ekki er það enn. Ég vil ekkert fortaka að svo kunni ekki að vera, vegna þess að ég mun leggja til að nefnd verði skipuð til þess að vinna þetta á nýjan leik og ég tel ekki örvænt um að maður muni mjög leita á sömu mið í þeim efnum. Fyrir utan það að mér þykir líklegt og raunar sjálfsagt að fjmrh. eigi beinni aðild að þeirri nefnd en varð nú síðast, til þess að öllu verði til skila haldið af hans skoðunum líka.

Hv. 5. þm. Austurl. minntist hér á hinar félagslegu framkvæmdir. Við vitum hvernig á þessum málum hefur verið haldið um langa hríð og margt mætti segja um orkumálin og orkuverðsmyndunina. Þar eiga margir misjafna sögu, svo er víst og rétt, þó ekki gefist nein tök á því nú, þegar líður á nótt, að fara að rifja það upp hér.

Ég vil svara hv. 5. þm. Austurl. með öllum fyrirvörum þar sem hann spurði um hvað væri áformað í sambandi við orkuverð á næstunni. Með öllum fyrirvörum, þetta er eingöngu munnlegt, þær upplýsingar sem ég hef.

Það er í fyrsta lagi að aðspurðir kváðust fulltrúar Landsvirkjunar hafa rætt í sinn hóp að Landsvirkjun þyrfti á að halda allt að 14% hækkun heildsöluverðs frá og með 1. janúar. Þá er haft í huga að það verði ein ákvörðun sem gildi fyrir allt árið 1985. Aðspurðir töldu fulltrúar Rafmagnsveitna ríkisins að þeirra hækkunarþörf léki á 20%. Þó hefur orðið sú breyting á að þeir hyggjast hækka-eða eru að velta fyrir sér tillögum um að hækka hitunartaxtann um 17% en aðra um 22% og yrði inni í þeim 22% falin samræmingin sem hv. 3. þm. Reykn. talaði um, samræming við aðrar rafveitur. Aðspurð svaraði Rafmagnsveita Reykjavíkur því til að þeirra þörf væri 20%. Þetta er allt sem ég veit nú, en fljótlega munu verða lagðar fram grg. um þessi mál og þau tekin formlega fyrir. Þess vegna ítreka ég það að ég hef alla fyrirvara á í þessu sambandi. En þetta eru þær tölur sem ég hef nú fengið upp gefnar.

Já, það má auðvitað margt segja um þetta mál og menn eru kannske minnugir fsp. frá hv. 4. þm. Suðurl. Margréti Frímannsdóttur eigi alls fyrir löngu um þetta gjald. Og það skýrir kannske upplýsingar þær sem hv. 3. þm. Reykn. gaf hér um stöðu Rafveitu Stokkseyrar. Enda er það svo að þótt menn þykist til þess nauðbeygðir í öllum málum að standa dyggan vörð með stjórnarandstöðunni og lemja höfðinu við steininn, þá finnst auðvitað holhljómur í svona málflutningi þegar um er að tefla gjald af þessu tagi.

Ég vil gjarnan vera til umræðu um það að þessu verði mætt að einhverju leyti með einhverjum gjaldtökum þó að ég hafi engar slíkar hugmyndir uppi enn sem komið er. En það er áreiðanlegt að þessi aðferð er sú vitlausasta, þar sem þeir menn sem hæst gjöldin bera greiða hæst gjald. Nei, hv. 3. þm. Reykn., aðrar hugmyndir hafa ekki komið fram enn sem komið er. En eins og ég segi vil ég ekkert fortaka í þeim efnum. Þær fjárhæðir, sem þegar blasir við að búið er að skuldbreyta, eru 47 millj. á vegum Rafmagnsveitna ríkisins og 12 millj. á vegum Orkubúsins. Þetta er lán sem þegar er búið að semja um skuldbreytingu á og það er afborgunarlaust í fimm ár. Þar af leiðandi eru það, eins og menn sjá, samtals 59 millj. En tekjutap fyrirtækjanna er reiknað út 66.3, ef ég man þá tölu rétt, og það er talið auðvelt verk og verður auðvitað við það staðið, sem hér eru gefnar óvefengjanlegar yfirlýsingar um, að fyrir öllu þessu verður séð.

Það sem hefur verið lögð hvað mest áhersla á í öllu þessu sambandi er að auðvitað verður að sjá til þess að fyrirtækin fái þetta uppi borið með öðrum hætti, bæði félagslega þáttinn, uppbætur á það sem þeim er gert að selja orkuna til húshitunar undir kostnaðarverði, og með því að létta af þeim þessum óbærilegu skuldum sem hefur verið hrúgað á þau, ekki síst Rafmagnsveitur ríkisins. Þegar menn eru að tala um erfiðan fjárhag ríkissjóðs, þá mega menn ekki gleyma því að ríkissjóður er einkaeigandi að þessu fyrirtæki. En við vitum að eins og á þessum málum hefur verið haldið eru rafmagnsgjöldin og verða um langa hríð níðþung á neytendunum. Við höfum nefnilega verið að og viljað gera allt fyrir alla í einu og ekki sést fyrir. Ég veit ekki hverju hann vill tefla fram fyrir okkur, hv. 5. þm. Austurl., til þess að sanna það að hann hafi dregið úr hinum miklu framkvæmdum og hinni miklu spennu í þessum málum, fremur en aðrir af fyrirrennurum mínum, því að þar eiga flestir óskilið mál. Auðvitað verður það einhvern tíma að upp rennur sá dagur að byggðalínan gefi arð. Hún gefur það sáralítið í dag. Hún eykur öryggið að vísu og það getur komið sér vel.

Þannig má lengi upp telja að Rafmagnsveitum ríkisins hafi verið fengnar í hendur alls kyns framkvæmdir félagslegar, margar auðvitað ákjósanlegar, en síðan hefur fyrirtækinu verið gert að taka erlend lán fyrir öllu saman, og ekki einu sinni fengið að leita eftir hagkvæmustu lánum, heldur verið látið mæta afgangi oft og tíðum með þau alóhagkvæmustu. Þannig getur maður lengi áfram haldið.

En yfirlýsingar mínar eru alveg ótvíræðar á þessu blaði sem þarna eru frá allri ríkisstj. í athugasemdum með frv. Allar mínar yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið í þessu sambandi, eru alveg samhljóða nema að því leyti að ég vildi reyna til um hvort fram næðist tillögugerð sjálfrar hinnar stjórnskipuðu nefndar. Svo reyndist ekki og þá varð að sætta sig við það. Ekkert hefur verið á huldu í þessu máli.

Ég vona að ég hafi þá svarað flestu því sem fram kom í þessu. Eins og ég segi hefði verið ákjósanlegt að geta gefið sér miklu meiri tíma til að gera þessum málum skil. Því að ef einhver mál þarfnast rækilegs uppskurðar og athugunar hjá okkur þá eru það orkuverðsmálin.