17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

201. mál, tímabundið vörugjald

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er talið að ríkissjóður muni þurfa á þessum tekjum að halda þannig að ekki sé um annað að ræða en að samþykkja þetta frv. Ég hef ritað undir nál. með fyrirvara. Það er með tilliti til þess að menn komi sér einhvern tíma í þau verkin, sem ég hef talið nauðsynleg nokkuð lengi, að endurskoða þann frumskóg sem gildir í tolla- og aðflutningsgjaldamálum. Það var fyrst og fremst til að brýna ríkisstj. og þm. á því að taka til við slíka endurskoðun sem ég gerði fyrirvara um samþykki mitt við þessu frv. Ég tel að það hafi dregist langt úr hömlu að sú uppstokkun væri gerð á aðflutnings- og tollagjaldakerfinu, þar með töldum þessum vörugjöldum, sem nauðsynleg verður að teljast. En eins og ég sagði í upphafi verður að ætla að slíkri endurskoðun verði ekki lokið fyrir jól héðan af, kannske tæpast von úr því hún hefur dregist svo lengi hingað til, og því ekki um annað að ræða en að framlengja þetta í þessari mynd á þessu stigi.