17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að finna að þeim starfsháttum sem hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir um miðnætti með yfirhlöðnum störfum Alþingis. Hæstv. menntmrh. telur sig þurfa að koma hér í stólinn og taka í það einar tíu mínútur að veita hæstv. forseta ofanígjöf og kennslustund í málsmeðferð og notfærir sér réttinn til að ræða um þingsköp til þess að grípa hér inn í umr. og svara og túlka ummæli sem hér höfðu fallið um tiltekið mál. Hér er náttúrlega með svo furðulegum hætti að verki staðið að það er ekki unnt annað en að finna að slíku þegar fulltrúar í hæstv. ríkisstj. ganga fram með þeim hætti, notfæra sér réttinn til umr. um þingsköp, snupra virðulegan forseta deildarinnar vegna hans málsmeðferðar og gera þm. í leiðinni upp skoðanir til tiltekins máls.

Hér var um að ræða mál, sem var verið að taka á dagskrá velviljað með afbrigðum, og það hafði komið fram kurteisleg beiðni frá einum þm. um það að færi gæfist á því að fara yfir málið betur við 1. umr. Það er nýkomið hingað inn í deild frá Ed. Og alveg burtséð frá efni þessa mál, hvernig það liggur, þá tel ég það lítt sæmandi af hæstv. ráðh. að ganga fram með þessum hætti og ekki til þess fallið að greiða götu mála af hálfu hæstv. ráðh. hér í þinginu.

Ég vil vekja athygli á því að þó að starf þingnefnda sé hið mikilsverðasta og þingnefndir hafi því miður oft allt of lítinn tími til starfa, þá er það auðvitað æskilegt að við 1. umr. máls, áður en mál fer til nefndar, gefist ráðrúm til umr. um málið og að þm., sem áhuga hafa á viðkomandi sviði, geti komið ábendingum á framfæri við viðkomandi þingnefnd sem málið væntanlega fer til. Þess vegna finnst mér það mjög kynlegt að hæstv. ráðh. finnur í rauninni að því að hér er áhugi á að ræða þetta mál. En þó að hann færi að ræða það efnislega undir dagskrárliðnum um þingsköp, þá svaraði hann ekki þeirri einföldu spurningu hvað lægi svo mjög á með að fá þetta mál afgreitt e.t.v. fyrir hátíðar. Það kom ekki orð um það efni. Og ég er engu nær um það hvort það er ósk, sérstök ósk, eða þrýstingur af hálfu hæstv. ríkisstj. að fá þetta mál lögfest nú fyrir áramót. Það hefði kannske verið það sem best hefði verið að fá skýrt við þessa umr. um þingsköp.

Þetta er kurteisleg ábending af minni hálfu til hæstv. menntmrh. Ég vil taka efnislega á þeim málum sem hæstv. ráðh. leggur fyrir þingið og starfa í n. sem kemur þar við sögu, en þetta finnst mér ekki vænlegt til árangurs. Og gildir það auðvitað um önnur mál hér sem ríkisstj. hæstv. hefur áhuga á að þoka hér fram í gegnum þingið.